Matjurtir eru enn ómerktar

Ég hef fylgst rækilega með þessu og orðið fyrir miklum vonbrigðum. Það hefur engin breyting orðið því miður,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda. Um síðustu mánaðamót tók gildi ný reglugerð, þar sem tiltekið er að ferskar matjurtir, sem seldar eru í verslunum, skuli vera merktar á umbúðum með upplýsingum um upprunaland. Það sama gildir um vörutegundir úr ferskum matjurtum þar sem þeim er blandað saman og/eða þær skornar niður.

Fjárrag á Stóra-Ármóti

Miðvikudaginn 9. september s.l var féð á Stóra-Ármóti rekið saman úr úthaganum og lömb valin til slátrunar og ásetnings. Sauðfjárræktarráðunautar Bssl og aðrir starfsmenn hauststarfanna í sauðfjárrækt mældu og stiguðu lömbin. Þetta er einn liður í því að samræma vinnubrögðin fyrir haustið. Nokkur lömb voru stiguð og valin til nánari skoðunar í sláturhúsi SS á Selfossi daginn eftir, en þangað mættu líka ráðunautar frá Búvest, Jón Viðar frá Bændasamtökum Íslands og Stefán Vilhjálmsson frá yfirkjötmatinu. Í sláturhúsi SS voru lömbin stiguð á fæti og skrokkarnir síðan skoðaðir í kjötsalnum.

Afstaða tekin til fjárfestingasjóðs

Stjórnir lífeyrissjóðanna taka á fundi í dag afstöðu til þess hvort sjóðirnir komi að stofnun Fjárfestingasjóðs Íslands. Arnar Sigurmundsson, formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða, telur yfirgnæfandi líkur á að þetta gangi eftir. Fjárfestingasjóði Íslands er ætlað að fjárfesta í fyrirtækjum sem lent hafa í erfiðleikum, fyrirtækjum sem voru lífvænleg fyrir bankahrunið og eiga alla möguleika á því að geta starfað áfram. Síðan er meiningin að selja fyrirtækin aftur.

Reyna að bæta skuldastöðu einyrkja

Stjórnvöld kanna sérstaklega hvernig unnt er að bæta skuldastöðu einyrkja sem eiga í miklum greiðsluerfiðleikum. Margir þeirra hafa lagt allt undir, bæði atvinnurekstur og heimili. Fréttastofa Bylgjunnar og Stöðvar 2 hefur greint frá vanda kúabænda, en einn af hverjum tíu þeirra er í miklum greiðsluerfiðleikum vegna lána sem tekin voru síðustu ár til að stækka bú, tæknivæða fjós eða kaupa tæki til að auka hagkvæmni búrekstrarins.

Stóra-Ármót hlýtur umhverfisverðlaun Flóahrepps 2009

Umhverfisnefnd Flóahrepps hefur ákveðið að önnur tveggja umhverfisverðlauna ársins 2009 skuli falla í hlut Tilraunabúsins á Stóra-Ármóti. Veitt eru verðlaun í tveimur flokkum, annars vegar „Heimili“ og hins vegar „Fyrirtæki/stofnanir“ og fellur Stóra-Ármót undir seinni flokkinn. Alls bárust nefndinni ábendingar um ellefu aðila þar sem snyrtimennska og vel hirt umhverfi þykir bera af og vera sveitarsómi og er þetta niðurstaða umhverfisnefndar eftir skoðun á öllum tilnefningunum.

Fjárfesta í kúm en ekki hlutabréfum

Franskir sparifjáreigendur íhuga nú að hætta að leggja peninga sína inn á banka og kaupa frekar kýr. Fjárfestingin er talin örugg ólíkt hlutabréfamarkaðnum og gefa góða vexti. Vinsælasti sparireikningurinn í Frakklandi býður rétt rúmlega eins prósents vexti en með því að fjárfesta í kúm má búast við allt að sjö prósenta vöxtum á ári. Hver kýr kostar 1200 evrur en svo stækkar hjörðin ár frá ári.

Myndir af kynbótahrossum

Á yfirlitssýningu kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum í s.l. viku var Dagur Brynjólfsson, ljósmyndari, staddur og myndaði fjöldann allan af þeim hrossum sem þar voru til sýningar. Myndir Dags má skoða á vefsíðu hans, www.dalli.is.

Tímabundin niðurfelling álags vegna skila á virðisaukaskatti hjá aðilum á landbúnaðarskrá

Fjármálaráðuneytið hefur sent frá sér fréttatilkynningu þess efnis að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru í þjóðfélaginu nú um stundir telji ráðuneytið gildar ástæður fyrir því að nýta heimild í lögum um tímabundna niðurfellingu álags vegna skila á virðisaukaskatti með gjalddaga 1. september 2009. Niðurfelling álagsins gildir í 8 daga eða til 9. september 2009. Fréttatilkynninguna í heild sinni má sjá hér að neðan:

Andvíg breytingu jarðalaga

Stjórn Landssamtaka landeigenda á Íslandi telur það ámælisvert að landbúnaðarráðherra skipi vinnuhóp um endurskoðun jarða- og ábúðarlaga án aðildar samtakanna.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði í liðinni viku vinnuhóp um endurskoðun jarða- og ábúðarlaga. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar er tiltekið að ríkisstjórnin muni standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar.

Breytingar á varnarlínum vegna sauðfjársjúkdóma

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur birt auglýsingu um endurskipulagningu varnarlína gegn sauðfjársjúkdómum að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Megináhersla er nú lögð á varnir gegn riðu- og garnaveiki en minni áhersla á að verjast öðrum sjúkdómum.
Varnarlínum fækkar um tvær og verða 27. Til viðbótar eru tvær aukavarnarlínur og línurnar því samtals 29. Aukavarnarlínur voru áður 11 talsins. Mestu breytingarnar eru að línur falla niður í Skaftafellssýslum, á sunnanverðum Vestfjörðum og í Borgarfirði.
Þetta nýja skipulag varnarlína hefur þegar tekið gildi og eru bændur hvattir til að kynna sér það vel fyrir sitt svæði, ekki síst þar sem nú fara göngur og réttir í hönd.

Þreskja repju á Þorvaldseyri og ætla að vinna olíu

Þetta er verkefni sem lofar góðu,“ segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Olíurepja var þreskt á Þorvaldseyri í fyrsta sinn í gær. Sleginn var eins hektara akur og var uppskeran mjög góð, 2,5 tonn.
Í fræjum repjunnar er olía sem erlendis er nýtt bæði sem matarolía og eldsneyti. Sáð var til repjunnar í júlí á síðasta ári.

Hvað kostar að fá verktaka til að rúlla?

Í lauslegri könnun sem BSSL gerði meðal heyvinnuverktaka á Suðurlandi í síðustu viku mátti greina nokkurn breytileika í gjaldtöku verktaka þó hann sé alla jafna ekki mikill. Í flestum tilvikum er innifalið í verðinu netið sem fer utan um rúlluna en verkkaupinn útvegar plastið. Eðlilega eru verðin breytileg eftir stærð rúllunnar en hafa þarf í huga að talsvert mikið heymagn er í hverjum 10 cm sem bætast við þvermál rúllunnar. Þannig er skv. handbókartölum 2,1 rúmmetrar í rúllu sem er 1,5 m í þvermál en 1,4 rúmmetrar í rúllu sem er 1,2 í þvermál. Þjöppunin er líka mikið atriði og þetta tvennt veldur því að rúlla er alls ekki það sama og rúlla eins og allir vita. Að nota fjölda rúlla sem verðgrunn í slíkum viðskiptum er því ekki allskostar réttlátt þó það sé án efa þægilegasta leiðin.

Kornþresking hafin á Suðurlandi

Kornþresking hófst á Drangshlíðarbúinu 19. ágúst sl. Um var að ræða íslenska tveggja raða yrkið Kríu sem sáð var 17. apríl sl. Að sögn Ólafs Björnsonar sem stendur í kornræktinni í Drangshlíð ásamt Þórarni Ólafssyni lítur vel út með kornræktina í ár.

Skemmdarverk unnin í tilraunareit ORF Líftækni í Gunnarsholti

Skemmdarverk voru unnin í nótt eða í morgun í tilraunaræktun ORF Líftækni í Gunnarsholti. Allt bygg í reitnum hefur verið eyðilagt. Ekki er ljóst hverjir standa að skemmdarverkunum. Ljóst er að fyrirtækið mun ekki fá uppskeru úr tilraunareitnum í Gunnarsholti í haust eins og stefnt var að og skemmdarverkin munu tefja áframhaldandi þróunarstarf fyrirtækisins á Íslandi.

Hafsjór af fróðleik aðgengilegur á vefnum

Úrvinnslu á BLUP kynbótamatinu í sauðfjárrækt fyrir árið 2009 lauk í júli. Áður en sumarleyfi hófust var komið á framfæri fyrstu niðurstöðum þess á vef Bændasamtakanna. Nú hefur þar verið bætt við fjölmörgum fleiri niðurstöðum sem hægt er að skoða með því að smella hér. Þarna eru ýmsar töflur yfir þá hrúta sem skara framúr í einstökum eiginleikum. Einnig eru þarna sérstakar töflur fyrir sæðingastöðvahrútana um alla eiginleikana sem matið er reiknað fyrir. Um hverja einstaka töflu er síðan þarna að finna nokkuð ítarlega umfjöllun um athyglisverðustu niðurstöðurnar í hverri töflu.

Bændaframleiðsla blómstrar hjá Laugu

Egg í lausu, kúfskel frá Þórshöfn, andafita, sólþurrkaður þorskur, strandblaðka og hnúðkál er meðal þess sem finna má á bændamarkaðinum Frú Laugu sem opnaður var við Laugalækinn í Reykjavík síðastliðinn föstudag.

Kauptu dráttarvél og fáðu fría vélbyssu með…

Það kreppir greinilega víðar að hjá vélasölum en á Íslandi. Fáir ef nokkrir ganga þó lengra í að lokka til sín viðskiptavini en vélasölufyrirtækið „Carolina Tractor and Marine“ sem staðsett er í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Tilboð fyrirtækisins hljóðar upp á að allir viðskiptavinir sem kaupa dráttarvél eða mótorbát fá rússneska Kalashnikov AK-47 vélbyssu í kaupbæti. Kalashnikov-vélbyssan er trúlega þekktasta vélbyssa heims og er notuð af mörgum stærstu herjum í heimi og hefur að auki verið vinsæl meðal stærstu hryðjuverkasamtakanna sömuleiðis.

Ólög um héraðsdýralækna

Í Morgunblaðinu í gær (16. ágúst) birtist grein eftir Gunnar Örn Guðmundsson, héraðsdýralækni í Gullbringu- og Kjósarsýslu með sömu yfirskrift og hér er gert. Þar fjallar hann um hið margumrædda Matvælafrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi og hvaða áhrif óbreytt frumvarp myndi hafa á dýralæknaþjónustu í landinu. Hér á eftir fer pistill Gunnars orðréttur þar sem grein hans útskýrir nokkuð vel í hverju mótmæli dýralækna liggja í þeirri von að bændur átti sig betur á þeirri stöðu sem yrði uppi.

Gengið þriðjungi lægra en fyrir bankahrunið

Gengi krónunnar hefur lækkað um rúmlega 6% gagnvart evru það sem af er árinu. Gengislækkunin bætist við um 45% lækkun á síðasta ári. Gengi krónunnar gagnvart evru er nú þriðjungi lægra en það var í byrjun september á síðasta ári þegar alþjóðlega fjármálakreppan hófst af fullri alvöru, að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem gefin voru út í dag. Reiknað er með því að evran verði 176 krónur á næsta ársfjórðungi.

Litróf landbúnaðarins

Fyrirhugað er að halda málþing um stöðu og framtíð landbúnaðar og byggðar í sveitum mánudaginn 14. september 2009 í Norræna húsinu í Reykjavík. Þar verða kynntar niðurstöður úr viðamiklu rannsóknaverkefni um þessi efni, sem unnið hefur verið að við Háskóla Íslands undanfarið og ber heitið „Litróf landbúnaðarins“.

back to top