Reyna að bæta skuldastöðu einyrkja

Stjórnvöld kanna sérstaklega hvernig unnt er að bæta skuldastöðu einyrkja sem eiga í miklum greiðsluerfiðleikum. Margir þeirra hafa lagt allt undir, bæði atvinnurekstur og heimili. Fréttastofa Bylgjunnar og Stöðvar 2 hefur greint frá vanda kúabænda, en einn af hverjum tíu þeirra er í miklum greiðsluerfiðleikum vegna lána sem tekin voru síðustu ár til að stækka bú, tæknivæða fjós eða kaupa tæki til að auka hagkvæmni búrekstrarins.

Dæmi eru um að skuldir búanna séu á bilinu 250 til 400 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðarráðuneytinu hefur verið rætt við alla viðskiptabankana um einhvers konar greiðsluaðlögun, en beðið sé eftir frekari aðgerðum.


Nefnd á vegum stjórnvalda um bætta stöðu skuldara, setur bændurna í hóp með einyrkjum og verktökum. Þessi hópur hefur þá sérstöðu að atvinnureksturinn blandast rekstri heimilisins, sem þýðir að allt er undir fjölskyldan og fyrirtækið.


Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, segir að til þessa hafi ekki verið horft til bænda sérstaklega, en hugsanlegt sé að það þurfi að gera, þar sem vandi þeirra sé að einhverju leyti frábrugðinn þeim sem aðrir glíma við. Einyrkjar og minni verktakar sé talsvert þungur hópur og staðan víða afar slæm.


Anna Sigrún segir að unnið sé dag og nótt við að því að finna lausn á vanda þeirra sem eru í greiðsluerfiðleikum og lagt verði fram frumvarp þess efnis strax við upphaf haustþings í byrjun október.


back to top