Afstaða tekin til fjárfestingasjóðs

Stjórnir lífeyrissjóðanna taka á fundi í dag afstöðu til þess hvort sjóðirnir komi að stofnun Fjárfestingasjóðs Íslands. Arnar Sigurmundsson, formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða, telur yfirgnæfandi líkur á að þetta gangi eftir. Fjárfestingasjóði Íslands er ætlað að fjárfesta í fyrirtækjum sem lent hafa í erfiðleikum, fyrirtækjum sem voru lífvænleg fyrir bankahrunið og eiga alla möguleika á því að geta starfað áfram. Síðan er meiningin að selja fyrirtækin aftur.

Í lok síðasta árs var samþykkt frumvarp um breytingar á lögum um lífeyrissjóði til að auðvelda stofnun sjóðsins en lítið hefur verið gert síðan þá. Lífeyrissjóðirnir tóku málið upp aftur nú í sumar og nú lítur út fyrir að sjóðurinn verði stofnaður. Arnar Sigurmundsson gerir ráð fyrir að stofnfundur verði haldinn í byrjun október. Nú eigi eftir að koma í ljós hvað sjóðurinn verði öflugur. Gert sé ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir greiði inn í sjóðinn ákveðna fjárhæð á hverju ári næstu fjögur ár. Sjóðurinn fjárfesti fyrir upphæðina á nokkrum árum.


back to top