Þresking á stærsta kornakri landsins

Meðfylgjandi kvöldmynd er frá þreskingu á risaakri á Skógasandi undir Eyjafjöllum á dögunum. Byggyrkið er Skúmur og akurinn er 60 hektarar að stærð, sá stærsti á Íslandi. Það eru bændur á Drangshlíðarbúinu sem þarna eru að störfum, en búið hefur nýlega fengið skráningu hjá Matvælastofnum sem framleiðandi á korni og hálmi til sölu – og er því eina sérhæfða kornræktarbýli landsins.

„Kornvertíðin hefur gengið vel enda var góð byrjun á þessu hausti eftir frábært veðurfar til kornræktar hér í sumar. Við erum búnir að þreskja meira en 100 hektara af um 160 sem við erum með en nú hefur reyndar rignt í tvo daga. Við vonum að það fari að stytta upp svo við getum farið að klára það sem eftir er,“ segir Þórarinn sem stendur að rekstrinum ásamt föður sínum Ólafi S. Gunnarssyni.


Kornbændur í Drangshlíð sáðu korni í yfir 500 hektara í ár, þar af eru þeir sjálfir með 160 hektara eins og fyrr segir. Yfir 100 tonn af sáðkorni og um 2000 tonn af áburði fóru í gegnum sáðvél þeirra í vor.


back to top