Raforka hækkar í verði

Verðskrá RARIK fyrir dreifingu á raforku hækkaði um 10% að jafnaði um áramótin en þá hækkaði virðisaukaskattur á almenna raforkunotkun úr 24,5% í 25,5%. RARIK segir hækkunin fyrst og fremst tilkomna vegna verðlagshækkana, hækkana á aðföngum og gengisþróunar.
Á sama tíma leggst nýr orkuskattur á raforku 12 aurar á hverja kílówattstund. Sá skattur mun koma fram á reikningum söluaðila (t.d. hjá Orkusölunni) en ekki hjá dreifiaðila (RARIK). Hliðstæður skattur er lagður á sölu á heitu vatni, en er reiknaður hlutfallslega á heildarkostnað, 2% af smásöluverði á heitu vatni.

Syndugur hrútur

Brotist var inn í prestbústaðinn í Grundarfirði í gær. Rúða var brotin í svefnherbergi en innbrotsþjófurinn, ef svo má kalla, náðist í glugganum þar sem hann var á fjórum fótum, sem honum er reyndar eðlislægt því þetta er hrútur. Hrúturinn slapp frá eiganda sínum þegar verið var að flytja hann á milli fjárhúsa, þar sem hann var við þjónustustörf á fengitíma.

Tjón hjá MS á Selfossi

Tjón varð í MS á Selfossi þegar rafmagn sló út í um fimm mínútur í morgun. Um 6.000 lítrar af mjólk fóru í súginn þegar vélbúnaður varð rafmagnslaus. Guðmundur Geir Gunnarsson mjólkurbússtjóri segir tjónið nema mörg hundruð þúsundum króna.
„Þegar þetta gerist þá slá öll tæki og tól út. Dælur hætta að virka og annað, og það er mjólk í öllum lögnum. Við missum hér um 6.000 lítra af mjólk víðsvegar um í búinu,“ segir Guðmundur Geir í samtali við mbl.is.

Daníel í Akbraut vermir ennþá toppsætið

Uppgjör skýrsluhalds í nautgriparækt fyrir nóvember s.l. er nú komið á vef Bændasamtakanna. Meðalafurðir standa nú í 5.107 kg/árskú og eru afurðir mestar í Skagafirði eða 5.730 kg/árskú. Næst í röðinni koma svo Snæfellsnes með 5.534 kg/árskú og Árnessýsla með 5.527 kg/árskú.
Afurðahæsta búið er sem fyrr hjá Daníel í Akbraut en þar standa afurðir nú í 7.733 kg/árskú en fast á hæla hans kemur búið á Kirkjulæk í Fljótshlíð með 7.586 kg/árskú. Annars vekur óneitanlega athygli að nú eru 13 bú með meðalafurðir yfir 7.000 kg/árskú á landinu öllu.

Íslandsmeistaramót í hrútaspilinu

Sunnudaginn 13. desember n.k. verður haldið Íslandsmeistaramót í Hrútaspilinu þar sem keppt verður um Hrútabeltið. Mótið verður haldið í Þjóðminjasafninu og hefst klukkan 14.
Allir geta tekið þátt, en skilyrði er þó að eiga nýja Hrútaspilið en það verður til sölu í verslun Þjóðminjasafnsins. Eina sem þarf er að mæta í Þjóðminjasafnið og skrá sig til leiks fyrir klukkan 14.

Titringur vegna kaupa KS á Mjólku

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gær sagðist Gylfi Magnússon, viðskipta- og efnahagsráðherra, telja að Mjólka ætti að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Þegar hann var spurður um hvort hann teldi að það ætti þá að fella niður skuldir Mjólku svaraði Gylfi því til að hann teldi best ef hægt væri að vinna úr málefnum Mjólku þannig að eftir stæði sjálfstætt fyrirtæki sem væri öflugur keppinautur á markaði og hefði alla möguleika til að veita stóra fyrirtækinu sem fyrir væri það aðhald sem æskilegt og nauðsynlegt væri á þessum markaði eins og öðrum.

Samkeppniseftirlitið gagnrýnir samruna KS og Mjólku harðlega

Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun og álit um samruna Kaupfélags Skagfirðinga (KS), Mjólku og Vogabæjar. Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemdir við samruna KS og Vogabæjar og kemst sömuleiðis að þeirri niðurstöðu að eftirlitið hafi ekki lögsögu varðandi samruna KS og Mjólku. Fyrirtækin séu bæði afurðastöðvar í mjólkuriðnaði og samruni þeirra falli ekki undir gildissvið samkeppnislaga enda sé ákvæði í búvörulögum sem heimili sameiningu afurðastöðva. Þrátt fyrir þetta gagnrýnir Samkeppniseftirlitið samrunann harðlega og segir að um sé að ræða samkeppnishamlandi aðgerð.

Lánasjóður landbúnaðarins gerir kröfu á hendur Landsbankanum

Lánasjóður landbúnaðarins er einn þeirra lögaðila sem gera fjárkröfu á hendur Landsbanka Íslands en eins og kunnugt er var skipuð skilanefnd yfir bankanum 7. október 2008. Vekur það nokkra athygli að sjóður sem lagður var niður fyrir fjórum árum sé kröfuaðili nú. Skýring þess er sú að Lánasjóðurinn átti lausafé sem varðveitt var við sölu lánasafns sjóðsins árið 2005 og eru þetta þeir fjármunir.

Áttatíu ár liðin frá fyrstu innvigtun hjá MBF á Selfossi

Á morgun verða liðin 80 ár síðan fyrst var tekið á móti mjólk hjá Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi.
Mjólkurbúið var formlega stofnað 10. desember 1927, en tók til starfa 5. desember 1929. Af því tilefni verður haldin veisla á Hótel Selfossi, þar sem starfsmönnum, núverandi og fyrrverandi, ásamt fjölmörgum öðrum góðum gestum verður boðið til hátíðardagskrár.

Nýtt hrútaspil komið út

Nú er nýtt hrútaspil komið út en þar er að finna má allar mikilvægustu upplýsingar um sæðingahrúta landsins. Spilið hentar því jafnt fyrir bændur og spilaáhugafólk því ásamt upplýsingum um kynbótagildi hrútanna er þetta einnig venjulegur spilastokkur. Sunnudaginn 13. desember verður svo haldið Íslandsmeistaramót í hrútaspili í Þjóðminjasafninu klukkan 14.

Styrkir til áburðarkaupa úr Bjargráðasjóði – Ítrekun

Eins og kunnugt er tóku ný lög um Bjargráðasjóð gildi 23. apríl síðastliðinn. Í bráðabirgðaákvæði með lögunum segir að stjórn sjóðsins sé á árinu 2009 heimilt að ráðstafa fjármunum úr almennri deild sjóðsins til að draga úr hættu á uppskerubresti sem gæti leitt af sér óæskilegan samdrátt í búvöruframleiðslu. Þessir fjármunir eru nýttir til að styrkja bændur til áburðarkaupa.
Umsóknarfrestur um styrk til áburðarkaupa var auglýstur til 20. ágúst og styrkirnir voru greiddir út 21. október, alls 5000 krónur á tonn.
Nú hefur stjórn Bjargráðasjóðs ákveðið að bjóða þeim sem ekki sóttu um á réttum tíma að sækja um nú. Fjárhæð styrks nú getur tekið skerðingu vegna takmarkaðs fjármagns til verkefnisins. Umsóknarfrestur er til 30. desember 2009.

Breytingar á eignarhaldi í landbúnaði í kjölfar bankahrunsins skoðaðar

Jón Bjarnason, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, hefur skipað vinnuhóp til þess að fjalla um breytingar sem kunna að verða á eignarhaldi í landbúnaði og sjávarútvegi í kjölfar bankahrunsins. Vinnuhópurinn skipa Ingimar Jóhannsson, skrifstofustjóri, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, sem er formaður, Björn Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Hjördís D. Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi ráðherra, fjármálaráðuneyti og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri, forsætisráðuneyti.

Kornrækt fyrir nautgripi – grín eða auðlind?

Við minnum á fræðslufund Búnaðarsambandsins í dag, föstudaginn 27. nóvember kl 11:00 – 14:30, að Árhúsum Hellu. Þar verður fjallað um kornrækt með sérstakri áherslu á hagkvæmni og nýtingu korns sem fóður fyrir nautgripi.
Fyrirlesarar eru þeir Jónatan Hermannsson og Grétar Hrafn Harðarson frá Landbúnaðarháskólanum, Runólfur Sigursveinsson frá Búnaðarsambandinu og Jóhann Nikulásson, bóndi í Stóru-Hildisey.

Yfir helmingur íslenskra kúa á legubásum

Á vef Landssambands kúabænda (www.naut.is) kemur fram að nýlokið er vinnu við skýrslu um þróun fjósgerða og mjaltatækni hérlendis en slík samantekt hefur verið gerð á tveggja ára fresti undanfarin ár. Í skýrslunni kemur fram að að í fyrsta skipti er yfir helmingur mjólkurkúa hér á landi hýstur í legubásajósum. Þá kemur einnig fram enn eru viðhöfð öll grundvallarvinnubrögð sem þekkjast við mjaltir, frá handmjöltum og til mjaltaþjóna en um fjórðungur allrar framleiddrar mjólkur á Íslandi kemur frá búum með mjaltaþjóna.

Viðræður um landbúnaðarmál gætu tafist

Helstu hagstærðum viðvíkjandi íslenskum landbúnaði þarf nú að safna saman upp á nýtt. Þetta verður gert á næstu misserum að kröfu Evrópusambandsins sem samþykkir ekki þau vinnubrögð að Bændasamtökin eða aðrir þeir sem hagsmuna eiga að gæta sjái um þessa hagskýrslugerð.

Nýi Kaupþing banki orðinn Arion banki

Nýi Kaupþing banki skipti um nafn í dag og heitir nú Arion banki. Segir bankinn, að nýja nafnið sé sótt í grískar fornsögur og vísi m.a. til þrautseigju, samvinnu og endurkomu. Efnt var til samkeppni um nýtt nafn meðal starfsmanna bankans og var nafnið valið úr á þriðja hundrað tillagna.
Í tilkynningu frá bankanum segir, að nýju nafni fylgi ný stefna og gildi. Séu leiðarljós bankans fagmennska, framsækni, umhyggja og tryggð þar sem viðskiptavinurinn er í forgrunni. Með nýjum áherslum sé verið að svara kröfum viðskiptavina og starfsmanna um breytingar í kjölfar endurskipulagningar bankans. Nýtt nafn muni auk þess koma í veg fyrir misskilning bæði í almennri umræðu og meðal innlendra og erlendra samstarfsaðila bankans.

Kornrækt fyrir nautgripi – grín eða auðlind?

Búnaðarsamband Suðurlands stendur fyrir fræðslufundi að Árhúsum Hellu, föstudaginn 27. nóvember n.k. kl 11:00 – 14:30 um kornrækt með sérstakri áherslu á hagkvæmni og nýtingu korns sem fóður fyrir nautgripi.
Fyrirlesarar eru þeir Jónatan Hermannsson og Grétar Hrafn Harðarson frá Landbúnaðarháskólanum, Runólfur Sigursveinsson frá Búnaðarsambandinu og Jóhann Nikulásson, bóndi í Stóru-Hildisey.

Fjármagnskostnaður kúabúa jókst um nærri 700% á síðasta ári

Árleg skýrsla Hagþjónustu landbúnaðarins um uppgjör búreikninga í nautgripa- og sauðfjárrækt er komin út. Í skýrslunni 2008 eru rekstrarupplýsingar frá alls 302 bújörðum. Þær skiptast eftirfarandi: 150 sérhæfð kúabú, 88 sérhæfð sauðfjárbú, 11 blönduð bú og 53 bú af öðrum búgerðum. Gögnin koma víðsvegar að á landinu, um þriðjungur frá Norðurlandi eystra, um fjórðungur frá Suðurlandi og um fjórðungur frá Norðurlandi vestra. Uppgjörsbúin lögðu samtals inn 34 milljónir lítra mjólkur og svarar framleiðslan til um 27% heildarinnleggs mjólkur á landinu á árinu 2008. Uppgjörsbúin lögðu samtals inn 1.777 tonn kindakjöts og samsvarar framleiðslan 13,2% heildarinnleggs kindakjöts á árinu 2008.

Bændur eru uggandi vegna skuldavanda

Umræða um skuldavanda bænda og breytt rekstrarumhverfi landbúnaðarins í kjölfar kreppunnar er meðal þess sem er efst á baugi á bændafundum Bændasamtakanna sem nú standa yfir. Á fundi sem haldinn var í Miðgarði í Hvalfjarðarsveit í gærkvöldi voru bændur uggandi um sinn hag og spurðu um ábyrgð ráðgjafarþjónustu og ekki síst bankastofnana í aðdraganda hrunsins.
Haraldur Benediktsson formaður BÍ hélt inngangserindi þar sem hann m.a. ræddi um það upplausnarástand sem ríkt hafi í þjóðfélaginu eftir að kreppan skall á. Hann sagði að lítið gengi við að koma ýmsum málum áleiðis og ekki lægju neinar endanlegar tillögur á borðinu vegna skuldavanda bænda. „Almenn ráðgjöf okkar til bænda er að það sé best að reyna að borga af lánum eins og hægt er. Við höfum átt samtöl við bankamenn um ýmsar lausnir en því miður er enn margt hulið þoku,“ sagði Haraldur.

Búreksturinn á Hvanneyri aðskilinn frá annarri starfsemi

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur um árabil staðið fyrir umfangsmiklum búrekstri á Hvanneyri og Hesti í Borgarfirði. Búreksturinn er grunnur fyrir mikilvæga þætti í kennslu og rannsóknum við stofnunina og hornsteinn íslenskra landbúnaðarvísinda. Áherslur hafa verið í búfjárrækt og jarðrækt en einnig á seinni árum í atferlis-, umhverfis- og orkuvísindum.
Nú hefur verið ákveðið að breyta búrekstrinum og aðskilja hann alfarið frá annarri starfsemi við LbhÍ. Stofnað hefur verið sérstakt félag, Grímshagi ehf., um rekstur búsins frá og með næstu áramótum. Telur LbhÍ að með þessu verði markmiðum skólans og íslensks landbúnaðar best borgið eins og á stendur.

back to top