Styrkir til áburðarkaupa úr Bjargráðasjóði – Ítrekun

Eins og kunnugt er tóku ný lög um Bjargráðasjóð gildi 23. apríl síðastliðinn. Í bráðabirgðaákvæði með lögunum segir að stjórn sjóðsins sé á árinu 2009 heimilt að ráðstafa fjármunum úr almennri deild sjóðsins til að draga úr hættu á uppskerubresti sem gæti leitt af sér óæskilegan samdrátt í búvöruframleiðslu. Þessir fjármunir eru nýttir til að styrkja bændur til áburðarkaupa.
Umsóknarfrestur um styrk til áburðarkaupa var auglýstur til 20. ágúst og styrkirnir voru greiddir út 21. október, alls 5000 krónur á tonn.
Nú hefur stjórn Bjargráðasjóðs ákveðið að bjóða þeim sem ekki sóttu um á réttum tíma að sækja um nú. Fjárhæð styrks nú getur tekið skerðingu vegna takmarkaðs fjármagns til verkefnisins. Umsóknarfrestur er til 30. desember 2009.

– Leggja þarf fram reikninga vegna áburðar sem sannarlega er keyptur og notaður á vaxtarárinu 2009 (til og með 10. ágúst 2009). Hafi bóndi keypt áburð eftir 10. ágúst 2008 til notkunar á árinu 2009 má þó leggja þann reikning til grundvallar sé skilyrðum að öðru leyti fullnægt.


-Til greina koma reikningar vegna innflutts tún- og akuráburðar sem inniheldur að lágmarki 11% N. Varðandi gróðurhúsaáburð og fljótandi áburð er miðað við að N, P, og K gildi blöndu eða eingildra tegunda samanlagt sé í samræmi við þarfir, að lágmarki 7% N í því samhengi fyrir gróðurhúsaplöntur en 11% fyrir aðrar plöntur til matvæla- eða fóðurframleiðslu.


– Skilyrði er að umsækjandi standi fyrir búrekstri á lögbýli og greiði búnaðargjald.


-Umsækjendur skulu skila umsókn ásamt framlögðum reikningum til leiðbeiningamiðstöðvar síns búnaðarsambands. Héraðsráðunautur mun gera úttekt á reikningunum, þ.m.t. kanna réttmæti þeirra og hvort um eðlilega notkun er að ræða miðað við aðstæður.
Umsóknareyðublað er hægt að nálgast á bondi.is.


back to top