Breytingar á eignarhaldi í landbúnaði í kjölfar bankahrunsins skoðaðar

Jón Bjarnason, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, hefur skipað vinnuhóp til þess að fjalla um breytingar sem kunna að verða á eignarhaldi í landbúnaði og sjávarútvegi í kjölfar bankahrunsins. Vinnuhópurinn skipa Ingimar Jóhannsson, skrifstofustjóri, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, sem er formaður, Björn Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Hjördís D. Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi ráðherra, fjármálaráðuneyti og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri, forsætisráðuneyti.

Forsaga málsins er sú að þann 22. september s.l. lagði Jón Bjarnason fram og kynnti minnisblað í ríkisstjórn um eignarhald í sjávarútvegi og landbúnaði og bankahrunið. Ákveðið var að mynda vinnuhóp, sem í sætu fulltrúar frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti.


Minnisblaðið er svohljóðandi:


“1. Sala atvinnutækja


Ráðuneytið vill hér með vekja athygli á stöðu útgerðarfyrirtækja hvað þetta varðar, en nokkuð hefur borið á því að erlendir aðilar hafi falast eftir skipum til kaups. Mikilvægt er að sú tímabundna staða sem nú er uppi leiði ekki til þess að þjóðin glati mikilvægum atvinnutækjum sem tekið gæti langan tíma að afla á ný. Ráðherra telur mikilvægt að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að draga úr þessari hættu. Rétt er að taka fram að í þessu tilviki er ekki verið að vísa til aflaheimilda, heldur einungis skipanna.


2. Tilfærslur aflaheimilda


Ráðuneytið hefur undanfarna mánuði lagt sig fram um að fylgjast með fjárhagsstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi og hefur í því skyni verið rætt við bankastjóra og hagsmunaaðila í sjávarútvegi til þess að upplýsa stöðuna. Meðal þess sem rætt hefur verið er hugsanleg tilfærsla aflaheimilda komi til gjaldþrots útgerða. Fyrir liggur að byggðalög víða um land eiga allt sitt undir sjávarútvegi og yrði staða margra mjög erfið ef aflaheimildir flyttust frá sveitarfélagi komi til gjaldþrots einstakra fyrirtækja. Á fundum með bankastjórum hefur komið fram ríkur skilningur á mikilvægi þess að sporna gegn tilfærslum á aflaheimildum frá byggðalögum. Að mati ráðherra er brýnt að grípa til þeirra aðgerða sem unnt er til að koma í veg fyrir meiriháttar tilfærslu aflaheimilda af þessum sökum.


3. Jarðamál


Að mati ráðuneytisins eru jarðeignir og nýting hluti af atvinnustefnu stjórnvalda og fæðuöryggi þjóðarinnar og verði þar ekki undanskilin. Í samtölum við banka hafa því verið tekin upp málefni þeirra jarða sem bankarnir hafa eignast og eru líklegir til að eignast. Ráðuneytið hefur látið í ljós þá eindregnu skoðun að hafa verði í forgrunni hagsmuni landbúnaðrins m.a. nýtingu landbúnaðarlands og lífsskilyrði og fjölbreytleika starfa í dreifbýlinu. Fyrir liggur að Bændasamtök Íslands eru sömu skoðunar. Í svörum bankanna, sem hafa þó ekki öll verið á einn veg, hefur komið fram vilji til að tryggja búsetu jarðanna og þá helst þeirra sem þar eru fyrir, enda þjóni það hagsmunum allra.”Hinn 18. nóvember sl. skipaði síðan sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, vinnuhóp til að fjalla um breytingar sem kunna að verða á eignarhaldi í landbúnaði og sjávarútvegi í kjölfar bankahrunsins eins og áður sagði. Erindisbréf vinnuhópsins hljóðar þannig:


“Vísað er til meðfylgjandi minnisblaðs sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fyrir ríkisstjórn 22. september sl. um eignarhald í sjávarútvegi og landbúnaði og bankahrunið.


Fyrir liggur að ríkisstjórnin hefur af því áhyggjur ef bankahrunið leiðir til að margar bújarðir fari úr landbúnaðarnotum og aflahlutdeildir færist milli byggðarlaga vegna þrotameðferðar eða annars þvingaðs eignauppgjörs. Jafnframt liggur fyrir að sala sérhæfðra atvinnutækja úr landi líkt og fiskiskipa getur haft ófyrirsjáanleg áhrif á stöðu vissra byggða og atvinnugreina. Hér eru það einkum rækjutogarar sem komið hafa til tals en fjármögnunarmöguleikar innlendra aðila eru ennþá mjög takmarkaðir.


Vinnuhópnum er ætlað það hlutverk að fara yfir stöðu þessara mála og kortleggja hana. Það felst í því að fá yfirlit yfir jarðir og útgerðir sem líklegt er að lendi undir yfirráðum banka og fjármálastofnana. Með sama hætti verði farið yfir stöðu framleiðslutækja.


Vinnuhópnum er síðan ætlað að meta  hvort rétt sé að stjórnvöld hafi íhlutun um þessa þróun og leggja þá fram tillögu um með hvaða hætti. Þar getur komið til skoðunar að lögfesta tímabundin ákvæði sem heimila ríkinu að grípa inn í viðskipti með aflaheimildir, þegar útlit er fyrir að sjávarbyggðir, sem alfarið eða að stærstum hluta byggja á sjávarútvegi, séu að missa frá sér aflaheimildir í þeim mæli að til vandræða horfi og samrýmist ekki fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaganna.


Sama gildir í reynd um jarðir. Stjórnvöld hafa einkum af því áhyggjur, að hvernig bújörðum í eigu eignarhaldsfélaga, sem keypt hafa jarðir í stórum stíl, verði ráðstafað, ef þessi félög fara í þrot, sérstaklega ef um er að ræða jarðir sem skipta máli fyrir búsetu og nýtingu lands í sveitum landsins og fæðuöryggi þjóðarinnar.


Varðandi sölu framleiðslutækja úr landi er verkefnið vandasamt en meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort verulegur skaði sé í húfi fyrir þjóðarhag og þá til hvaða ráða er hægt að grípa til þess að koma í veg fyrir að svo geti orðið.


Vinnuhópnum er að lokum ætlað að fylgjast með þróuninni næsta misserið og upplýsa, ef þróunin verður á annan veg en ráð er fyrir gert.”


back to top