Nýi Kaupþing banki orðinn Arion banki

Nýi Kaupþing banki skipti um nafn í dag og heitir nú Arion banki. Segir bankinn, að nýja nafnið sé sótt í grískar fornsögur og vísi m.a. til þrautseigju, samvinnu og endurkomu. Efnt var til samkeppni um nýtt nafn meðal starfsmanna bankans og var nafnið valið úr á þriðja hundrað tillagna.
Í tilkynningu frá bankanum segir, að nýju nafni fylgi ný stefna og gildi. Séu leiðarljós bankans fagmennska, framsækni, umhyggja og tryggð þar sem viðskiptavinurinn er í forgrunni. Með nýjum áherslum sé verið að svara kröfum viðskiptavina og starfsmanna um breytingar í kjölfar endurskipulagningar bankans. Nýtt nafn muni auk þess koma í veg fyrir misskilning bæði í almennri umræðu og meðal innlendra og erlendra samstarfsaðila bankans.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri, segir í tilkynningu að  nýtt nafn,
stefna og gildi marki nýtt upphaf hjá bankanum. „Við erum á vissan hátt að segja skilið við hið gamla og ætlum að takast á við þær áskoranir sem eru í samfélaginu af fullum krafti. Markmiðið er að byggja upp traustan, öflugan banka sem vinnur með og fyrir fólkið í landinu.”


Kostnaði vegna breytinganna verður haldið í lágmarki og mun ásýnd útibúa taka breytingum á næstu vikum og endurnýjun á markaðsefni verður unnin á meðan eldri birgðir klárast.


back to top