Raforka hækkar í verði

Verðskrá RARIK fyrir dreifingu á raforku hækkaði um 10% að jafnaði um áramótin en þá hækkaði virðisaukaskattur á almenna raforkunotkun úr 24,5% í 25,5%. RARIK segir hækkunin fyrst og fremst tilkomna vegna verðlagshækkana, hækkana á aðföngum og gengisþróunar.
Á sama tíma leggst nýr orkuskattur á raforku 12 aurar á hverja kílówattstund. Sá skattur mun koma fram á reikningum söluaðila (t.d. hjá Orkusölunni) en ekki hjá dreifiaðila (RARIK). Hliðstæður skattur er lagður á sölu á heitu vatni, en er reiknaður hlutfallslega á heildarkostnað, 2% af smásöluverði á heitu vatni.

Fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins, að þrátt fyrir þessa hækkun verðskrár fullnýti RARIK sér ekki þær tekjuheimildir sem fyrirtækið hafi samkvæmt lögum. Hjá þeim viðskiptavinum sem njóta niðurgreiðslna úr ríkissjóði verði hækkunin meiri, þar sem niðurgreiðslur, sem ákvarðaðar eru í fjárlögum, hafi ekki verið auknar undanfarin ár.


Þannig muni reikningur fyrir dreifingu raforku til heimila á hitaveitusvæðum í þéttbýli sem nota 4.000 kWst á ári hækka um 11% eða um 350 krónur á mánuði. Dreifingarkostnaður til heimila í dreifbýli sem  eru með niðurgreidda rafhitun og nota 40.000 kWst á ári hækkar um 2.350 krónur á mánuði, eða 21%.


Reikna má með að meðalkúabú á köldu svæði hérlendis noti um 50.000 kWst af raforku á ári til þá bæði húshitunar og orkunotkunar vegna reksturs. Samkvæmt því mun raforkureikningur meðalkúabúsins hækka um kr. 35.250 vegna dreifingar og 6.000 vegna hins nýja orkuskatts eða samtals kr. 41.250 á ári.


back to top