Margbrotið félagskerfi

Í Morgunblaðinu í dag er að finna grein eftir Egil Ólafsson, blaðamann, þar sem velt er upp ýmsum grundvallarspurningum er varða félagskerfi bænda, fjármögnun þess og ráðgjafarþjónustunnar og búnaðargjald. Greinin er fróðleg lesning og fer hér á eftir:

Margbrotið félagskerfi
Síðasta búnaðarþing fól Bændasamtökunum að koma með tillögur um breytt kerfi og lækkun búnaðargjalds. Lítið hefur hins vegar gerst í málinu síðan. Bændasamtök Íslands hafa frestað því að taka ákvörðun um lækkun á búnaðargjaldi, en síðasta búnaðarþing fól samtökunum að lækka eða leggja niður búnaðargjald og koma með tillögur um breytingar á félagskerfi landbúnaðarins.


Félagskerfi bænda er hvorki einfalt né ódýrt. Rúmlega 100 manns starfa hjá Bændasamtökunum, búnaðarsamböndunum og búgreinafélögunum. Rekstur þessa kerfis kostar á þessu ári 858,6 milljónir og eru þá þjónustugjöld sem bændur greiða fyrir aðkeypta þjónustu ekki meðtalin. 538,6 milljónir koma beint úr ríkissjóði og 320 milljónir eru innheimtar með búnaðargjaldi.


Í gildi er samningur milli ríkisins og Bændasamtakanna, svokallaður búnaðarlagasamningur, sem kveður á um að ríkissjóður leggi Bændasamtökunum til árlega ákveðin fjárframlög. Samkvæmt samningnum hefði framlag ríkisins átt að vera rúmlega 600 milljónir á þessu ári, en það var skert um tæplega 100 milljónir vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs.


Bændur greiða búnaðargjaldið, en það er lagt á veltu búanna. Gjaldið er 1,2% af veltu. Ríkið sér um innheimtu gjaldsins og því verður ekki breytt nema með lagabreytingu á Alþingi. Í reynd er gjaldið eins og hver annar skattur sem lagður er á bændur.


Hætt við áform að lækka búnaðargjald?
Búnaðargjald var lækkað fyrir nokkrum árum þegar Lánasjóður landbúnaðarins var lagður niður, en hluti gjaldsins fór í að niðurgreiða vexti sjóðsins. Síðustu ár hafa verið uppi kröfur meðal bænda um að lækka gjaldið enn frekar. Landssamband kúabænda og Búnaðarsamband Suðurlands hafa þrýst á um lækkun og síðasta búnaðarþing tók undir þessa kröfu, en þingið samþykkti að »endurskoða innheimtu búnaðargjalds með það að markmiði að lækka búnaðargjald.« Þetta átti að gera með því að skipa nefnd sem átti að finna leiðir til að lækka búnaðargjald eða afnema í áföngum, finna leiðir til að fjármagna félagskerfi bænda og koma með tillögur um breytingar á félagskerfi landbúnaðarins.


Einar Ófeigur Björnsson, bóndi í Lóni og formaður félagsmálanefndar síðasta búnaðarþings, segir að nefndin hafi haldið einn fund í september og á honum hafi komið fram að forysta Bændasamtakanna teldi ekki rétt að gera breytingar á búnaðargjaldi að sinni vegna þess að ríkið hefði ákveðið að skerða framlög til Bændasamtakanna um 100 milljónir.


Gjaldið í ósamræmi við stjórnarskrá?
Fjármunir sem innheimtast með búnaðargjaldi fara á fjóra staði, til Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda, búgreinafélaga og Bjargráðasjóðs.


Ein ástæða þess að menn vilja gera breytingar á búnaðargjaldi er að í lögfræðiáliti sem unnið var fyrir forsætisráðuneytið fyrir nokkrum árum er komist að þeirri niðurstöðu að gjaldið í núverandi mynd samrýmist tæpast 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Í þessari grein er m.a. fjallað um að engan megi skylda til aðildar að félagi. Í lögfræðiálitinu er bent á að Bændasamtökunum, búnaðarsamböndum og Bjargráðasjóði sé ætlað hlutverk í lögum og því megi ráðstafa skattfé eins og búnaðargjaldi til þessara aðila. Búgreinafélögin hafi hins vegar ekkert hlutverk í lögum og því megi ekki ráðstafa skattfé til þessara félaga. Það feli í reynd í sér þvingaða félagsaðild sem sé bönnuð samkvæmt stjórnarskrá.


Flókin félagsaðild
Búgreinafélögin eru félög sem stofnuð voru á níunda áratug síðustu aldar, en kúabændur, sauðfjárbændur, hrossabændur og aðrir bændur töldu nauðsynlegt að halda utan um sín hagsmunamál sérstaklega í stað þess að ræða um þau í einu stéttarfélagi þar sem bændur úr öllum greinum komu saman, en hagsmunir þeirra fara ekki alltaf saman um öll atriði.


Þegar félögin komu fram hefði kannski verið rökrétt að endurskipuleggja félagskerfi bænda, en það hefur í reynd aldrei verið gert. Segja má að Bændasamtökin annars vegar og Landsamband kúabænda og Landssamtök sauðfjárbænda hins vegar séu að nokkru leyti að sinna sömu málunum. Það er að vísu til verkaskiptingasamningur á milli samtakanna, en með því að skoða ályktanir búnaðarþings og aðalfunda búgreinafélaganna má sjá að þessir aðilar eru að berjast fyrir sömu málunum.


Þegar lækkun búnaðargjalds var rædd á síðasta búnaðarþingi kom fram það sjónarmið að félagskerfi bænda væri of flókið og bændur ættu aðild að því eftir mörgum leiðum. Til að útskýra þetta getum við tekið dæmi af Jóni bónda á Hóli í Landeyjum. Hann býr með kýr og kindur. Hann á því aðild að Félagi kúabænda á Suðurlandi, en það félag á síðan aðild að Landssambandi kúabænda. Jón á líka aðild að Félagi sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu sem aftur á aðild að Landssamtökum sauðfjárbænda. Jón er líka félagi í Búnaðarfélagi A-Landeyjahrepps sem á aðild að Búnaðarsambandi Suðurlands. Hann er að sjálfsögðu einnig félagi í Bændasamtökum Íslands bæði í gegnum búgreinafélögin og búnaðarfélagið.


Búnaðarsamböndin og búgreinafélögin eiga aðild að Bændasamtökunum og senda fulltrúa á búnaðarþing. Meginreglan er sú að hvert félag eða samband fái fulltrúa á búnaðarþing í samræmi við fjölda félagsmanna. Það er þó ekki algilt. Þannig eru kúabændur um 700 en eru með 5 fulltrúa á búnaðarþingi, en sauðfjárbændur eru um 2000 en eru með 3 fulltrúa á þinginu. Eina rökrétta skýringin á þessu ósamræmi er að kúabændur eru með miklu meiri veltu og borga því miklu hærra búnaðargjald en sauðfjárbændur. Þannig blandast framtíð búnaðargjaldsins við framtíðarskipulag félagskerfis bænda.


Á leiðbeiningaþjónustan að byggjast á gjaldtöku?
Einn þáttur þessa máls lýtur að framtíð leiðbeiningaþjónustu bænda. Stærstur hluti framlags ríkisins til Bændasamtakanna í gegnum búnaðarlagasamning fer til að greiða fyrir ráðgjafarþjónustu við bændur. Á vegum Bændasamtakanna starfa nokkrir landsráðunautar sem sinna einstökum búgreinum. Þar starfa einnig ráðunautur í jarðrækt, hlunnindaráðunautur, hagfræðingar, ráðgjafi á sviði atvinnumála og nýsköpunar, ráðunautur í lífrænum búskap, forritarar og sérfræðingar sem sinna skýrsluhaldi fyrir bændur. Búnaðarsamböndin eru líka með héraðsráðunauta sem sinna ráðgjöf til bænda.


Hluti af þessari ráðgjöf er fjármagnaður með búnaðargjaldi og framlögum frá ríkinu, en einnig greiða bændur fyrir hluta þjónustunnar með þjónustugjöldum. Til tals hefur komið að auka gjaldtöku af bændum og jafnvel að setja leiðbeiningaþjónustuna í sérstök félög sem bændur eigi viðskipti við eins og hver önnur fyrirtæki. Þarna vegast á þau sjónarmið að nauðsynlegt sé fyrir framþróun í landbúnaði að bændur eigi kost á góðri sérfræðiráðgjöf og hins vegar að erfitt verði að halda uppi öflugri ráðgjöf ef greiða þarf fyrir hana fullu verði.


Búnaðarþing virðist hins vegar telja þörf á úrbótum því það hvatti til þess »að leitað verði allra leiða til að auka skilvirkni leiðbeiningaþjónustunnar«. „

Morgunblaðið, 8. janúar 2010
Egill Ólafsson,
egol@mbl.is


back to top