Syndugur hrútur

Brotist var inn í prestbústaðinn í Grundarfirði í gær. Rúða var brotin í svefnherbergi en innbrotsþjófurinn, ef svo má kalla, náðist í glugganum þar sem hann var á fjórum fótum, sem honum er reyndar eðlislægt því þetta er hrútur. Hrúturinn slapp frá eiganda sínum þegar verið var að flytja hann á milli fjárhúsa, þar sem hann var við þjónustustörf á fengitíma.
Hann komst síðan inn í garð hjá presti og ætlaði inn í hús með fyrrgreindum afleiðingum. Hrútnum varð ekki meint af en töluverðar skemmdir urðu á prestbúastaðnum auk þess sem þar er nú megn hrútalykt.
Rétt er að taka fram að hrútarnir á myndinni tengjast fréttinni ekki á neinn hátt og eru, að því er best er vitað, syndlausir.


back to top