Titringur vegna kaupa KS á Mjólku

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gær sagðist Gylfi Magnússon, viðskipta- og efnahagsráðherra, telja að Mjólka ætti að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Þegar hann var spurður um hvort hann teldi að það ætti þá að fella niður skuldir Mjólku svaraði Gylfi því til að hann teldi best ef hægt væri að vinna úr málefnum Mjólku þannig að eftir stæði sjálfstætt fyrirtæki sem væri öflugur keppinautur á markaði og hefði alla möguleika til að veita stóra fyrirtækinu sem fyrir væri það aðhald sem æskilegt og nauðsynlegt væri á þessum markaði eins og öðrum.

 Í fjölmiðlum var einnig haft eftir viðskipta- og efnahagsráðherra að skelfilegt væri að einokun myndi nú ríkja á mjólkurmarkaði með kaupum KS á Mjólku. Hann sagði eðlilegt að ákvæði 71. greinar búvörulaga væri fellt niður enda sé það engan veginn eðlilegt að ákveðnar atvinnugreinar séu að hluta eða jafnvel verulegu leyti undanskildar samkeppnislögunum.


Í kjölfar þessa og álits Samkeppniseftirlitsins um kaup KS á Mjólku hafa bæði þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu óskað eftir því að þingnefndir fjalli um fyrirhuguð kaup KS á Mjólku. Ólína Þorvarðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar hefur óskað eftir sameiginlegum fundi viðskiptanefndar og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vegna málsins og hið sama hefur Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins gert. Eygló hefur sömuleiðis kallað eftir því að á þann fund komi fulltrúar viðkomandi ráðuneyta, Bændasamtaka Íslands, Samkeppniseftirlitsins auk fulltrúa KS og Mjólku.


Með því að smella hér má sjá viðtal við Gylfa Magnússon í fréttum Sjónvarpsins.


back to top