Nýjar niðurstöður úr gróðursýnum

Komnar eru niðurstöður úr gróðursýnum sem tekin voru 17. maí sl.l á vefinn hjá okkur. Um er að ræða sýni sem efnagreind voru hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Greinilegt er á þessum sýnum að gróður er mengaðar á svæðinu kringum eldstöðina og alls ekki hægt að mæla með því að búfénaði sé beitt undir Eyjafjöllum, í vesturhluta Mýrdals og innst í Fljótshlíð.
Etir því sem fjær dregur eldstöðinni minnkar flúormengunin, sérstaklega þar sem rignt hefur að undanförnu. Úrkoma eða nýtt öskufall breyta þessari mynd að sjálfsögðu mjög hratt.

Eyjafjallajökull hefur spúið um 300 milljón rúmmetrum af gjósku

Um 150 manns komu á íbúafund á Hvolsvelli í gærkvöldi. Þar var farið yfir ýmis málefni tengd gosinu í Eyjafjallajökli. Magnús Tumi Guðmundsson frá Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands fór yfir þróun gossins og var með nýjar tölur um magn gjósku í gosinu. Nú hafa komið um 300 milljón rúmmetrar af gjósku frá Eyjafjallajökli og til viðmiðunar má nefna að í Kötlugosinu 1918 komu 700 milljón rúmmetra af gjósku frá því gosi.

Átaksverkefni við aðstoð á gossvæðinu undirritað – um 70 störf skapast

Hefja á átaksverkefni um aðstoð við íbúa á gossvæðinu á Suðurlandi. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Vinnumálastofnun, Landgræðslan og sveitarstjórnir Rangárþings eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur eru á þessari stundu að undirrita samning þess efnis að bænum Fljótsdal í Fljótshlíð. Samningurinn felst í að sveitarfélögin á svæðinu munu bjóða fólki á atvinnuleysisskrá vinnu við afleysingar og aðstoð við búskap á svæðinu. Gríðarlegt vinnuálag hefur verið á bændum auk þess sem björgunarsveitir og sjálfboðaliðar hafa lagt fram mikla vinnu við að aðstoða bændur frá gosbyrjun.

Stýrihópur um vöktun flúors birtir leiðbeiningar um sýnatökur

Landbúnaðarháskólinn hefur fengið styrk fyrir sumarstarfsmanni til vöktunar flúors og áburðarefna (Ca, Mg, K, P, S) í ösku, jarðvegi, plöntum og drykkjarvatni búpenings á öskufallssvæðinu undir Eyjafjöllum sumarið 2010. Einnig hefur fengist styrkur til kaupa á tækjabúnaði til flúormælinga á rannsóknastofunni á Hvanneyri. Styrkurinn er veittur frá Vinnumálastofnun og iðnaðarráðuneytinu.

Fóðurblandan lækkar verð á kjarnfóðri um allt að 4%

Fóðurblandan hefur sent frá sér tilkynningu um lækkun á húsdýrafóðri um allt að 4%. Lækkunin tekur gildi í dag, föstudaginn 21. maí. Í tilkynningunni segir að lækkunin sé tilkomin vegna styrkingar á gengi íslensku krónunnar.

Skráningar á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum

Enn er allt í óvissu hvort Landsmóti verði frestað eða ekki. Búnaðarsambandið hefur því ákveðið að framlengja skráningarfrestinn á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum til þriðjudagsins 25. maí. Vonandi verður þá búið að taka ákvörðun um hvort og hvenær Landsmót verður. Hollaröðun mun að öllu óbreyttu ekki verða birt fyrr en föstudaginn 28. maí. Röðin verður birt á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands www.bssl.is . Búast má við breytinum á hollum dag frá degi, því fram að þessu hefur verið mikið um afskráningar á kynbótasýningar hér sunnanlands.

BÍ mótmæla aðferðum við breytingar á reglugerð um viðskipti með mjókurkvóta

Reglugerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti á greiðslumarki mjólkur, tók gildi við birtingu hennar þann 17. maí sl. Í henni felst að komið verður á fót markaði með mjólkurkvóta sem Matvælastofnun starfræki. Verður markaðurinn starfræktur tvisvar á ári, 1. júní og 1. desember, og í fyrsta sinn 1. desesmber nk. Nokkur óánægja hefur risið meðal bænda vegna breytinganna. Telja þeir t.a.m. að þær eigi sér stað án nægilegs fyrirvara.

Dregið hefur úr gosvirkni

Dregið hefur úr virkni gossins í Eyjafjallajökli og gosmökkurinn hefur lækkað undanfarna daga. Það bendir til þess að verulega hafi dregið úr kvikuflæði miðað við lok síðustu viku. Mökkurinn náði í gær upp í um fimm kílómetra hæð og er kvikuflæðið talið vera vel undir 50 tonnum á sekúndu, að því er kom fram í stöðuskýrslu Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar HÍ í gær. Þar sagði jafnframt að enn mætti búast við sveiflum í gosvirkninni með breytilegu gjóskufalli. Í gær féll töluverð aska innst í Fljótshlíð, einkum í Fljótsdal.

Fólk í atvinnuleit til hreinsunarstarfa

Fólk í atvinnuleit verður fengnið til aðstoðar á því svæði þar sem mestar búsifjar hafa orðið vegna öskufalls frá eldgossinu í Eyjafjallajökli.

Íbúafundur á Hvolsvelli í kvöld

Íbúafundur verður haldinn í íþróttahúsinu á Hvolsvelli í kvöld , fimmtudaginn 20. maí 2010 kl. 20.30. Farið verður yfir þróun eldgossins í Eyjafjallajökli, afleiðingar þess og stöðuna í dag. Þar munu eftirtaldir aðilar halda framsöguerindi og svara spurningum íbúa:

Gosvirkni hefur heldur minkað

Gosvirkni í Eyjafjallajökli hefur heldur minnkað undanfarna daga sem getur bent til þess að kraftur í gosinu fari minnkandi. Þetta sagði Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, á stöðufundi í morgun. Steinunn sagði að þar sem skyggni hefur verið slæmt sé erfiðara að segja til um gang gossins þó sjá megi á radarmyndum frá Landhelgisgæslu Íslands, að gosmökkurinn sé töluvert minni en að undanförnu. Samkvæmt þeim hafi hann farið niður í þrjá kílómetra í gær, þó svo hann hafi farið upp í sex til sjö kílómetra hæð.

Ert þú aflögufær um hey?

Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli hefur skapast óvissa um fóðuröflun á öskufallssvæðinu í sumar. Fyrirsjáanlegt er að talsvert viðbótarhey þarf inn á svæðið og því er nauðsynlegt að tryggja nægar heybirgðir fyrir haustið.
Sveitarstjórnir Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps hafa falið Bændasamtökum Íslands og Búnaðarsambandi Suðurlands að afla upplýsinga um þá bændur sem eru viljugir til þess að selja gæðahey inn á áhrifasvæði eldgossins.

Margir kúabændur óánægðir með viðskiptabann á mjólkurkvóta til 1. des.

Margir kúabændur eru ekki alls kostar ánægðir með það ákvæði nýrrar reglugerðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem bannar viðskipti með mjólkurkvóta fram til 1. desember n.k. Þeir kúabændur sem Búnaðarsambandið hefur rætt við telja þetta bann til þess fallið byggja upp spennu á kvótamarkaði sem leiði til hærra verðs á komandi kvótamarkaði. Þá komi þetta sér afar illa fyrir þá bændur sem sjá fram að að framleiða umfram greiðslumark á þessu verðlagsári sem er óvenju langt eða 16 mánuðir. Margir þeirra hafi hugsað sér að reyna að bæta við greiðslumark sitt vegna þess hve lágt verð fæst fyrir umframmjólk núna. Þá bindi þetta hednur þeirra sem ef til vill hafi hugsað sér að bregða búi eða hafa aðilaskipti á greiðslumarki. Margir vilja einnig meina að það að  heimila aðeins viðskipti með greiðslumark tvisvar á ári sé of lítið og kvótamarkað þyrfti að halda ársfjórðungslega.

Niðurstöður úr gróðursýnum

Búið er að setja niðurstöður úr efnagreiningum á gróðursýnum teknum 10.-13. maí s.l. á vefinn hjá okkur. Flúorstyrkur var í öllum tilfellum hærri en þolmörk nautgripa og hesta og ofan við þolmörk sauðfjár í nokkrum sýnum. Hins vegar er bæði athyglisvert og ánægjulegt að útskolun ösku og flúors eftir 12 tíma rigningu er mjög mikil. Hins vegar er flúorminnkun á Raufarfelli frá fyrstu sýnatöku (2.400 mg/kg þurrefnis þann 3. maí) til þeirrar næstu (957 mg/kg þurrefnis þann 11. maí) að hluta vegna útþynningar því töluverð spretta var þessa viku en lítil úrkoma.

Eðjuflóð í Svaðbælisá í morgun

Svaðbælisá, sem rennur rétt við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, flæddi yfir bakka sína í morgun. Í samtali við ruv.is segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, að eðjuflóð hafi byrjað um kl. 9 í morgun, en farvegurinn var fullur af aur eftir fyrsta fljóðið í upphafi goss. Ekki hafa orðið teljandi skemmdir á vegamannvirkjum en að sögn almannavarnadeilda ríkislögreglustjóra fór vatn yfir varnagarða á 150 metra kafla.
Talið er að aurflóðið megi rekja til þess að gjóska, sem legið hefur á jöklinum neðan 1200-1300 metra hæðar, hafi flotið fram og hreinsast af 4-5 km2 svæði. Við úrkomuna í nótt hefur gjóskan orðið vatnsósa, fengið eiginleika vökva og flætt fram sem grautur af ösku og vatni.

Byrjað er að flytja fé af öskufallssvæðinu

Fyrstu skipulögðu fjárflutningarnir af öskufallssvæðinu fóru fram í dag þegar fé var flutt af fjórum bæjum undir Eyjafjöllum austur að Þverá í Skaftárhreppi. Um 110 ær með lömbum voru fluttar í girðingar sem Búnaðarsambandið hefur fengið til umráða til þessara nota. Fleira sauðfé verður flutt á næstu dögum en undir Eyjafjöllum og í Mýrdal eru rúmlega 10 þús. fjár á vetrarfóðrum.

Hollaröð á héraðssýningu kynbótahrossa á Sörlastöðum

Hollaröð á héraðssýningu kynbótahrossa á Sörlastöðum sem fram fer 25.-27. maí n.k. er komin á vefinn hjá okkur. Hægt er að skoða hana á upplýsingasíðunni um kynbótasýningarnar 2010 sem velja má hérna hægra megin á forsíðuni. Einnig er hægt nota tenglana hér fyrir neðan.

Breytingar á búvörulögum og og lögum um Bjargráðasjóð vegna náttúruhamfara samþykktar

Breytingar á lögum um Bjargráðasjóð og búvörulögum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli voru samþykktar með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi nú fyrir skemmstu. Frumvarp þess efnis var lagt fram í síðustu viku og hlaut það flýtimeðferð í þinginu. Full samstaða var um málið í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og sömuleiðis í þinginu. Enginn kvaddi sér hljóðs um frumvarpið í annarri og þriðju umræðu utan Atli Gíslason sem kvaddi sér hljóðs um atkvæðagreiðsluna. Atli þakkaði þar fyrir þá miklu samstöðu sem um málið skapaðist og fyrir það hversu fljótt var hægt að afgreiða málið en beita þurfti afbrigðum við þingsköp til þess. Þá þakkaði Atli fyrir þann samhug sem fólki á áhrifasvæði gossins væri sýnd.

Kvótamarkaður með greiðslumark í mjólk

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti á greiðslumarki mjólkur á lögbýlum (kvótamarkað) og einnig reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 648/2009, um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda frá 1. september 2009 til 31. desember 2010. Samkvæmt reglugerðinni er Matvælastofnun falið að starfrækja kvótamarkað með greiðslumark mjólkur, sem á að halda tvisvar á ári, 1. júní og þann 1. desember ár hvert. Þá eru viðskipti með greiðslumark nú stöðvuð tímabundið eða fram til 1. desember n.k.

Íbúafundur á Heimalandi í kvöld kl. 20:30

Þjónustumiðstöðin að Heimalandi vill minna á áður auglýstan fund í kvöld kl. 20:30 fyrir íbúa í Rangárþingi eystra á vegum sveitarfélagsins í félagsheimilinu Heimalandi. Fjallað verður um stöðu mála vegan eldgossins og úrræði rædd.
Þjónustumiðstöðin að Heimalandi er opin milli kl. 11:30 og 13:30 mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Þjónustumiðstöðin í Vík í Mýrdal er opin milli kl. 11:30 og 13:30.

back to top