Þungu fargi létt af bændum

Svo virðist sem eldgosinu í Eyjafjallajökli sé lokið, a.m.k. í bili. Menn hafa varann á sér en gosið 1821 til 1823 lét stundum ekkert á sér kræla svo mánuðum skipti en tók sig svo upp aftur af tvíefldum krafti. Það er hins vegar vonandi að slíkt gerist ekki nú.
Bændur á öskufallssvæðinu eru þegar teknir til við hreinsunarstörf og þau vorverk sem hafa orðið að bíða vegna gossins.
Óljóst er hins vegar með nýtingu heyja af þeim túnum sem hafa orðið fyrir öskufalli. Þá er ljóst að sauðfé verður ekki sett á heiðar og afrétti sem orðið hafa fyrir öskufalli. Þetta raskar að sjálfsögðu mjög skipulagi hjá bændum á svæðinu en mun auðveldara er að skipuleggja viðbrögð og aðgerðir þegar öskufall vofir ekki lengur yfir.
Áfram verður fylgst með framvindu gróðurs á svæðinu og tekin sýni til þess að fylgjast með efnainnihaldi.


back to top