Stjórn BSSL leggur áherslu á að starfsmaður Bjargráðasjóðs verði staðsettur á áhrifasvæði gossins

Stjórn Búnaðarsambandsins fundaði í morgun og fór yfir stöðu mála varðandi vinnu Búnaðarsambandsins varðandi afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli. Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri, fór yfir stöðuna á búfjárflutningum af svæðinu. Fram kom að farið hafi verið í þrjár skipulagðar heimsóknir ráðunauta á þá bæi sem verst urðu úti. Bændasamtökin og önnur búnaðarsambönd hafa lagt okkur lið og er Búnaðarsamband Suðurlands þeim þakklátt fyrir þeirra framlag. Nú eru ráðunautar m.a. að meta fóðurþörf á svæðinu og að gera ráðstafanir í samráði við bændur, viðkomandi sveitarfélög og Bjargráðasjóð um framhaldið.
Þó að í það minnsta sé hlé á gosinu þá er mikið vandamál varðandi fok á ösku á svæðinu.

Rædd var aðkoma Bjargráðasjóðs að málinu og nauðsyn þess að starfsmaður sjóðsins væri staðsettur á svæðinu. Vísað var til fordæmis þess og góðrar reynslu þegar Viðlagatrygging starfaði á hamfarasvæðum í kjölfar jarðskálftanna á Suðurlandi. Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands leggur ríka áherslu á að starfsmaður Bjargráðasjóðs verði staðsettur miðsvæðis á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli.


Stjórn Búnaðarsambans Suðurlands færir starfsmönnum sínum þakkir fyrir þau ómetanlegu og óeigingjörnu störf við að aðstoða bændur á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli. Ljóst er að sú mikla vinna sem lögð er í þetta risavaxna verkefni hefur haft áhrif á aðra þjónustu búnaðarsambandssins og er það von stjórnar að því verði sýndur skilningur.


back to top