Skráningar á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum

Enn er allt í óvissu hvort Landsmóti verði frestað eða ekki. Búnaðarsambandið hefur því ákveðið að framlengja skráningarfrestinn á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum til þriðjudagsins 25. maí. Vonandi verður þá búið að taka ákvörðun um hvort og hvenær Landsmót verður. Hollaröðun mun að öllu óbreyttu ekki verða birt fyrr en föstudaginn 28. maí. Röðin verður birt á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands www.bssl.is . Búast má við breytinum á hollum dag frá degi, því fram að þessu hefur verið mikið um afskráningar á kynbótasýningar hér sunnanlands.
Vegna fyrirspurna um hvernig endurgreiðslum verður háttað vegna kynbótasýninga er rétt að taka það fram að til að eiga rétt á endurgreiðslu verður að afskrá hrossið í síðasta lagi degi áður en það er skráð í tíma. Tekið er við afskráningum í síma 480-1800 einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið www.bssl@bssl.is , nauðsynlegt er að gefa upp reikningsnúmer sem hægt er að leggja inn á. Ef hross forfallast á sýningardegi kemur endurgreiðsla einungis til greina ef læknisvottorði er framvísað. Vegna þessara sérstöku aðstæðna verður um fulla endurgreiðslu að ræða. Nú er það oft svo að á meðan á sýningum stendur er í miklu að snúast hjá knöpunum og hætt við að þeir muni ef til vill ekki eftir að tilkynna forföll einstakra hrossa. Eigendur ættu því að fylgjast vel með líðan sinna hrossa og tilkynna strax um forföll og ljóst er að viðkomandi hross geti ekki mætt til sýningar. Hafi læknisvottorð ekki borist fyrir 30. júni verða sýningargjöld ekki endurgreidd.

Búnaðarsamband Suðurlands


back to top