Framkvæmd Landsmóts í óvissu

Í gær var haldinn fjölmennur fundur hjá hestamannafélaginu Fáki um kvefpestina sem nú herjar á íslenska hrossastofninn. Fundurinn var haldinn í reiðhöllinni í Víðidal og framsögumenn voru dýralæknarnir Sigríður Björnsdóttir og Vilhjálmur Svansson. Greinilegt er að hestamenn eru mjög áhyggjufullir yfir stöðu mála, einkum og sér í lagi er framkvæmd Landsmóts hestamanna í óvissu. Í dag munu hagsmunahópar í hestamennsku eiga fund með landbúnaðarráðherra og ráðuneytismönnum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.
„Við teljum að þetta byrji með fremur vægri verusýkingu sem okkur hefur þó ekki tekist að greina. Einkenni og faraldsfræði benda til að í byrjun sé þetta veirusýking sem hrossastofninn virðist í heild næmur fyrir og teljum því vera nýtt smitefni hér á landi,“ er haft eftir Sigríði Björnsdóttur dýralækni á mbl.is.

„Síðan virðist fremur algengt að í kjölfarið komi bakteríusýkingar, einkum streptokokkar. Bakteríusýkingarnar er hægt að meðhöndla með fúkkalyfjum. Veirusýkingarnar getum við ekki meðhöndlað,“ segir Sigríður.


„Þessar kjölfarssýkingar sem við köllum svo eru mjög mikið tengdar húsvistinni og erum við að vona að það losni um þetta þegar hrossin fara meira út. Hvenær það verður er misjafnt. Og í öðru lagi vegna þess að faraldurinn er langt genginn meðal reiðhesta landsins.“


Sigríður segir erfitt að spá fyrir um framhaldið.


„Það er erfitt að spá fyrir um hver endirinn verður á þessum faraldri vegna þess að bæði er meðgöngutíminn langur og svo er breytilegt hversu lengi hrossin eru með einkenni. Þess vegna treysti ég mér ekki til að setja endapunktinn á það.“



 


back to top