Eyjafjallajökull hefur spúið um 300 milljón rúmmetrum af gjósku

Um 150 manns komu á íbúafund á Hvolsvelli í gærkvöldi. Þar var farið yfir ýmis málefni tengd gosinu í Eyjafjallajökli. Magnús Tumi Guðmundsson frá Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands fór yfir þróun gossins og var með nýjar tölur um magn gjósku í gosinu. Nú hafa komið um 300 milljón rúmmetrar af gjósku frá Eyjafjallajökli og til viðmiðunar má nefna að í Kötlugosinu 1918 komu 700 milljón rúmmetra af gjósku frá því gosi.
Hreinn Haraldsson vegamálstjóri gerði grein fyrir skemmdum á vegum  og varnargörðum , jafnfram því sem hann kynnti famkvæmdaáætlun Vegagerðarinnar um lagfæringu, uppbyggingu og styrkingu á vegum á svæðinu. Við Svaðbælisá er vinna hafin í farvegi árinnar og búið að hanna endurbætur á varnargörðum. Í júlí er fyrirhugað að komið verði bundið slitlag á þjóðveg 1,  þar sem vegurinn var rofinn vegna flóðanna í kjölfar eldgossins. Næstu verkefni verða styrkingar  varnargarða við Markarfljót og hefst vinna við það í næstu viku.

Ása Atladóttir og Þórólfur Guðnason frá sóttvarnalækni fjölluðu um áhrif öskufalls á heilsu og notkun hlífðarbúnaðar. Þar kom fram að aska sem er á jörðinni hefur meiri áhrif á börn en fullorðna.  Þorsteinn Jóhannsson frá Umhverfisstofnun fjallaði um svifryksmengunina á öskufallssvæðinu og gaf einfaldar viðmiðanir um notkun hlífarbúnaðar og leiðbeiningar um þrif á ösku innanhúss.
Flestir sem tóku til máls eftir framsöguerindin lýstu yfir ánægju með fundinn og töldu gagnlegt að halda fund sem þennan.

Þá var upplýsingafundur á pólsku fyrr um daginn,  þar sem sérfræðingar fluttu erindi og svöruðu spurningum en meðal þess sem spurt var um voru rýmingar, flóð og áhrif ösku á heilsufar. Á fundinn mættu um 40 manns.

Fréttatilkynning frá Almannavörnum


back to top