Hagnaður MS á síðasti ári 293 millj. króna

Aðalfundur Mjólkursamsölunnar (MS) var haldinn síðastliðinn föstudag, en félagið er að langstærstum hluta í eigu kúabænda (93%) á móti 7% Kaupfélags Skagfirðinga. Reksturinn síðasta árs var góður og nam hagnaður af starfseminni 293 milljónum eftir skatta sem er mikill viðsnúningur frá árinu 2009. Heildarvelta fyrirtækisins var 18,6 milljarðar króna sem er 4% aukning frá árinu 2009 og nærri 47% aukning frá árinu 2007.
Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir meginástæður rekstrarbatans þær að félaginu tókst að lækka söfnunar-, vinnslu- og afsetningarkostnað um 200 milljónir króna frá árinu 2009 þrátt fyrir margvíslegar kostnaðarhækkanir. Þá skipti verðhækkun á seinni helmingi árs 2009 verulegu máli. Jafnframt séu hagræðingaraðgerðir fyrri ára að skila sér inn í rekstrarniðurstöður fyrirtækisins. Þrátt fyrir góðan árangur varðandi rekstur MS er hagnaðurinn þó aðeins um 1,6% af veltu félagsins.

N1 hefur áhuga á ræktun repju til olíuframleiðslu

Í baksviðsgrein í Morgunblaðinu í gær er fjallað um áhuga N1 á samstarfi við bændur um ræktun á repju eða nepju til olíuframleiðslu, þ.e. lífdísil. Meða l þess sem fram kemur í greininni er að fyrirtækið telur að arðbær hreinsistöð þurfi að geta framleitt um 8 þúsund tonn á ári. Til þess þarf ræktun á 8 þúsund hekturum eða tvöföldu því landsvæði ef miðað er við að landið nýtist til þessarar ræktunar annað hvert ár.
„Við erum að líta til orkuöryggis þjóðarinnar til langs tíma. Jarðolíuöldinni mun ljúka á þessari öld og þá þarf eitthvað annað að koma í staðinn,“ segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1.

Hagnaður SS 186 milljónir kr. á síðasta ári

Á síðasta ári nam hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands, þ.e. Sláturfélags Suðurlands og Reykjagarðs hf., 186 milljónum kr. samanborið við 412 milljonir kr. árið áður. Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2010 voru 5.620 milljónir kr. og eiginfjárhlutfall 28% og hefur hækkað milli ára en það nam 23% árið áður.
Aðalfundur félagsins verður haldinn 25. mars n.k. og þar mun stjórn félagsins leggja til að hvorki verði greiddur arður af B-deild né reiknaðir vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs. Hins vegar hefur komið fram krafa um útgreiðslu arðs af eigendum yfir 10% hluta í B-deild stofnsjóðs. Hámarks arðgreiðsla getur þó ekki orðið hærri en 14.344 þúsund króna en það er óráðstafað eigið fé 31. desember 2010.

Mjólkurgæði hafa aldrei verið meiri

Á aðalfundi SAM, sem haldinn var í dag, föstudaginn 11. mars, var Erlingur Teitsson kjörinn stjórnarformaður í stað Rögnvaldar Ólafssonar sem kjörinn var varaformaður. Á fundinum kom fram að 1 millj. kr. tap varð á rekstri SAM og námu tekjur félagsins 124,9 millj. kr. Stærsti einstaki gjaldaliður SAM eru laun og annar starfsmannakostnaður sem námu 71 millj. kr.

Eldgosið virðist ekki hafa haft mikil áhrif á heilsufar búfjár

Rannsóknir, sem gerðar voru í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli á síðasta ári, benda ekki til þess að öskufallið úr jöklinum hafi haft veruleg áhrif á heislufar búfjár. Í skýrslu sem Matvælastofnun hefur tekið saman og kynnt var á Fræðaþingi landbúnaðarins í gær segir að ekki sé ástæða til að óttast mikil áhrif af flúor í fóðrinu og ekki virðist vera alvarleg uppsöfnun af járni í búfé. Full ástæða er þó talin til þess að hafa sérstaka vöktun á heilsufari búfjár á stóru svæði á Suðurlandi og fylgjast með hvort einhver langtímaáhrif verða af öskufalli og öskufoki.

Seinagangur við úrlausn skuldamála harðlega átalinn

Búnaðarþing, sem lauk í vikunni, samþykkti m.a. ályktun þar seinagangur við úrlausn skuldamála bænda er harðlega átalinn og þær lánastofnanir sem ekki hafa hafist handa við endurútreikning á gengistryggðum lánum gagnrýndar. Jafnframt er þess krafist að lánastofnanir hraði úrlausnum á skuldamálum bænda og að verðmæti rekstrarins verði lagt til grundvallar þeim úrlausnum. Áréttað er að lánastofnanir gæti samræmis við úrvinnslu þessara mála.

Lífeyrissjóður bænda býður upp á óverðtryggð lán

Lífeyrissjóður bænda hefur ákveðið að bjóða upp á óverðtryggð lán og er þar með fyrsti lífeyrissjóðurinn til þess að gera slíkt. Þetta var tilkynnt á aðalfundi sjóðsins sem haldinn var í gær. Um verður að ræða veðlán sem mest geta numið 10 milljónum króna með fimm ára lánstíma. Vestir munu fylgja vaxtaákvörðunum Seðlabankans, þ.e. almennum óverðtryggðum vöxtum að viðbættu álagi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Það álag er nú 3% og lánsvextir því 8,25% á þessari stundu. Lánin verða veitt til tækjakaupa eða framkvæmda og munu standa öllum sjóðsfélögum til boða.

Markaðsdögum fyrir mjólkurkvóta verði fjölgað

Meðal þeirra ályktana sem samþykktar voru á Búnaðarþingi er ályktun um að beina því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kvótamarkaður fyrir mjólk verði haldinn fjórum sinnum á ári. Í ályktuninni er lögð áhersla á að markaðsdögum fyrir greiðslumark í mjólk verði fjölgað í samráði við BÍ og LK.

Andstaða við aðild að ESB ítrekuð

Búnaðarþingi lauk í gærkvöldi og meðal síðustu mála sem afgreidd voru þar var ályktun þar sem andstaða við aðild að Evrópusambandinu var ítrekuð. Ályktun Búnaðarþings sem lýsir vel og ítarlega afstöðu bænda og Bændasamtakanna gagnvert umsókn Íslands um aðild að ESB fer hér á eftir:

Matvælaframleiðsla á krossgötum – MYNDBAND

Á setningu Búnaðarþings 2011 var frumsýnt stutt myndband um matvælaframleiðslu í heiminum og þróun hennar. Ágúst Sigurðsson, rektor LbhÍ, og hagfræðingarnir Daði Már Kristófersson og Erna Bjarnadóttir fjalla þar öll um misjöfn áhrif fólksfjölgunar, skort á ræktunarlandi og breytt loftslags- og ræktunarskilyrði á matvælaframleiðslu. Fjórir bændur koma fram í myndbandinu sem lýsa sinni sýn á þróun mála, þau Arnheiður Hjörleifsdóttir á Bjarteyjarsandi, Stefán Geirsson í Gerðum, Georg Ottósson hjá Flúðasveppum og Sif Jónsdóttir á Laxamýri.

Fóðureftirlit hjá bændum

Matvælastofnun mun nú í mars hefja eftirlit með fóðri og fóðrun hjá bændum í Ölfushreppi, Ásahreppi og Rangárþingi eystra. Eftirlitið er í samræmi við reglugerð nr. 107/2010, en þar er innleidd reglugerð EB nr. 183/2005 um kröfur er varða hollustu fóðurs. Kröfur til bænda og annarra frumframleiðenda fóðurs koma fyrst og fremst fram í I. og III. viðauka reglugerðarinnar. Reglugerðina má finna á heimasíðu MAST undir Lög og reglur/Fóður. Búfjáreftirlitsmenn munu sjá um eftirlitið samhliða árlegri vorskoðun.

Ábúðarskylda á eigendur bújarða?

Ábúðarskylda verður lögð á eigendur bújarða á Íslandi, verði frumvarp sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra til nýrra jarðalaga, samþykkt á Alþingi. Frumvarpið, sem verður lagt fram á næstunni, byggir á vinnu starfshóps um endurskoðun jarðalaga sem skilaði af sér um síðustu áramót. Vinnuhópurinn taldi meðal annars að sjónarmið sem höfð voru til grundvallar við lagasetningu árið 2003, væru úrelt, einkum það að landbúnaðarnot eigi ekki að hafa forgang. Nú þurfi hinsvegar, með lagasetningu, að vernda land sem henti til landbúnaðarframleiðslu til að treysta fæðuöryggi landsmanna.

Bændasamtökin úr Bændahöllinni?

Eitt af þeim málum sem nú eru til umfjöllunar á Búnaðarþingi er erindi Landssambands kúabænda um að leitað verði leiða til að auka, eftir því sem unnt er, nýtingu og arðsemi þeirra fjármuna Bændasamtaka Íslands sem bundnir eru í Bændahöllinni. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni er verið að ræða um hvort Bændasamtökin flytji úr Bændahöllinni og það rými sem nú hýsir BÍ verði tekið undir hótelrekstur. Fyrir nokkrum árum var sá möguleiki ræddur að selja hótelið, en ekkert varð af því. 

Framtíð norræns landbúnaðar björt

Nils T. Bjørke, formaður norsku bændasamtakanna, ávarpaði Búnaðarþing við setningu þess í gær og sagði framtíð matvælaframleiðslu á Norðurlöndunum vera sérlega bjarta og í raun yrði norrænn landbúnaðar mikilvægari en áður, ekki síst út frá hnattrænu sjónarmiði. Bjørke lagði áherslu á að Noregur og Ísland ættu það sameiginlegt að eiga auðlindir sem aðrar þjóðir þarfnist. Loftlagsbreytingar í heiminum gætu komið betur út hjá Norðurlöndum en öðrum þjóðum, þar sem hækkandi hitastig gæti veitt norrænni landbúnaðarframleiðslu tækifæri til að rækta fleiri tegundir en áður og þannig öðlast aukið mikilvægi þegar kæmi að fæðuöryggi.
Framtíð landbúnaðar á Norðurlöndum væri því björt enda nóg af vatni og góðri jörð sem byðu enn upp á möguleika til framleiðsluaukningar. Mikilvægi eigin matvælaframleiðslu kæmi einnig enn skýrar í ljós þegar horft væri til hækkandi heimsmarkaðsverðs á matvöru.

Bændur og landbúnaðarráðherra leggjast gegn ESB-aðild

Búnaðarþing var sett í gær og í máli Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, við setninguna kom fram að sterk og almenn andstaða er hjá bændum við aðild að ESB en nýleg könnun sýnir að 92% þeirra leggjast gegn aðild. Haraldur sagði niðurstöðuna sýna að ekki væri gjá á milli bænda og forystu þeirra en um 10% úr félagatali samtakanna voru spurðir álits í könnuninni.
Haraldur sagði mikil tækifæri vera í útflutningi landbúnaðarafurða og hvatti bændur til að huga meira að útflutningi en gert er í dag Hann benti um leið á að í dag miðaðist framleiðslustefna flestra greina eingöngu við að metta innanlandsmarkað.Staðrreyndin væri hins vegar sú að mun hærra verð fengist fyrir íslenskt lambakjöt á mörgum útflutningsmörkuðum heldur en hér heima. Sem dæmi væru útflutningsverðmæti frá hverju meðalsauðfjárbúi í landinu um 2,3 milljónir króna. Þá hafi loðdýrabændur aldrei fengið hærra verð fyrir loðskinn.

Beint frá býli og Ferðaþjónusta bænda hlutu Landbúnaðarverðlaunin

Búnaðarþing 2011 var sett við hátíðlega athöfn í Bændahöllinni í dag. Þingið mun starfa næstu þrjá daga, eða fram á miðvikudag. Þá veitti Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Landbúnaðarverðlaunin 2011 en að þessu sinni féllu þau í skaut Beint frá býli og Ferðaþjónustu bænda.
Í setningarræðu sinni vék Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, að þeim áskorunum sem að bændur um heim allan standa frammi fyrir nú um stundir. „Matur er mál málanna. Þar tengjast mörg viðfangsefni, orka, vatnsbúskapur, land, gróður, búfé, verslun, lífskjör fólks og þjóðfélagsskipulag. Við fyllum 7 milljarða íbúatölu heimsins á þessu ári. Á hinum svokallaða heimsmarkaði með mat, er í raun og veru ekki mikið magn. Eftirspurn og framboð eru óstöðug. Breytingar í heiminum eru ekki lengur í spádómsgreinum, þær eru raunverulegar,“ sagði Haraldur meðal annars í ræðu sinni. Ætla má að Búnaðarþingsfulltrúar taki þessi orð Haraldar með sér inn í fundahöld næstu daga en umræða um matvælaframleiðslu í heiminum hefur líklega aldrei verið brýnni.

Bestu naut 2002 og 2003 árg. verðlaunuð

Á nautgriparæktarfundi í Árhúsum á Hellu voru veittar viðurkenningar fyrir bestu naut úr 2002 og 2003 árgöngum nauta. Af nautum fæddum 2002 hlaut Lykill 02003 viðurkenningu sem besta naut árgangsins. Lykill var fæddur á Hæli 2 í Gnúpverjahreppi undan Kaðli 94017 og Skrá 267 Listadóttur 86002. Magnús B. Jónsson, landsráðunautur í nautgriparækt, fór nokkrum orðum um frammistöðu Lykils og m.a. kom fram hjá honum að Lykill gefur mjög mjólkurlagnar með sérlega hátt próteinhlutfall í mjólk. Dætur hans hafa jafnframt mjög vel gerða og vel setta spena auk þess sem mjaltir og skap eru með því besta sem gerist. Lykill hlaut því nafnbótina besta naut 2002 árgangs nauta og veittu ræktendur hans, þau Ari Einarsson og Þórdís Bjarnadóttir, henni viðtöku.

Nautgriparæktarfundur í dag!

Við minnum á nautgriparæktarfund BSSL og BÍ í Árhúsum á Hellu sem verður í dag, fimmtudaginn 3. mars, kl. 13.30. Á fundinum verður fjallað um niðurstöður skýrsluhaldsins 2010 og ræktunarstarfið almennt. Auk þess verða veittar viðurkenningar fyrir afurðir á árinu 2010 og bestu naut 2002 og 2003 árg. nauta.

Markaðsdagar verða 1. apríl og 1. nóvember

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út nýja reglugerð um viðskipti með greiðslumark í mjólk. Samkvæmt henni verða árlega haldnir tveir tilboðsmarkaðir með greiðslumark eins og eldri reglugerð kvað á um. Hins vegar eru dagsetningar færðar til þannig að markaðir verða 1. apríl og 1. nóvember. Þessi niðurstaða hlýtur að teljast mikil vonbrigði fyrir kúabændur en þeir hafa eindregið óskað eftir fjölgun markaðsdaga. Landssamband kúabænda hefur þegar lýst yfir gríðarlegum vonbrigðum með þetta atriði.
Í reglugerðinni er að finna nýtt ákvæði þess efnis að Matvælastofnun sé heimilt að staðfesta sölu á greiðslumarki frá einu lögbýli til annars lögbýlis innan sömu jarðatorfu, þ.e. tvíbýlis eða margbýlisjarðar, sbr. ákvæði landskiptalaga nr. 46/1941, enda sé salan til þess fallin að auðvelda kynslóðaskipti og að öðru leyti hagfelld.

Skeljungur hefur birt áburðarverð

Skeljungur hefur birt áburðarverðskrá fyrir vorið 2011 og þar með hafa allir áburðarsalar birt verðskrár, a.m.k. þeir sem voru á markaði í fyrra. Hjá Skeljungi hækka flestar tegundir um 12-14% milli ára en þó hækkar t.d. Sprettur 20-5-13 Avail mun meira eða 18,4%. Minnst er hækkunin á Spretti 27 og Spretti 26-13 eða 12,2%. Í töflunni hér að neðan má sjá samanburð á verði félagsins við fyrra ár, kr/tonn með staðgreiðsluafslætti.

back to top