Rýnifundi um byggðamál lokið

Rýnifundi um 22. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, byggðastefnu ESB og samræmingu uppbyggingarsjóða, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, formaður samningahópsins.
Byggðamál standa utan EES-samningsins og þarf að semja um þau frá grunni. Markmið byggðastefnu ESB er að efla atvinnulíf og efnahagsstarfsemi innan svæða sambandsins. Markmiðunum til stuðnings eru þrír sjóðir, Samheldnisjóður, Félagsmálasjóður og Byggðaþróunarsjóður. Ákveðin stjórnsýsla vegna umsýslu með áætlunum, verkefnum og fjármunum þarf að vera til staðar í aðildarríkjunum, en eins og kemur fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar kunna að skapast ný tækifæri til endurskipulagningar á byggðastefnu íslenskra stjórnvalda á grunni nýrrar hugmyndafræði.

Á fundinum kynntu íslenskir sérfræðingar núverandi löggjöf, framkvæmd og stjórnsýslu í samhengi við byggðastefnu ESB. Af Íslands hálfu var lögð áhersla á sérstöðu landsins, s.s. mannfæð, strjálbýli og einangrun, sem hefur hamlandi áhrif á efnahag og samfélagsþróun. Mikilvægt væri að á grundvelli slíkra viðmiða yrði samið um framlög úr uppbyggingarsjóðum sambandsins. Finnland og Svíþjóð hafa til að mynda notið sérstaks stuðnings vegna strjálbýlla svæða á grundvelli ákvæðis í aðildarsamningi þeirra.


Á meðal annarra þátta sem lögð var sérstök áhersla á af Íslands hálfu á rýnifundunum má nefna:


* Breytta efnahagsstöðu þjóðarinnar.

* Hvernig núverandi sérlausnir einstakra aðildarríkja og útvarða sambandsins geti átt við um Ísland.
* Að stjórnsýsla byggðamála verði með sem einföldustum hætti svo ekki fari óeðlilega hátt hlutfall framlaga í umsýslukostnað.

* Áætlanagerð og stofnanaumgjörð.

Greinargerð samningahópsins sem fjallar um byggðamál hefur verið birt á heimasíðunni esb.utn.is en í henni er að finna nánari útlistun á viðfangsefni kaflans.

Greinargerð samningahóps um byggðamál


back to top