Hagnaður SS 186 milljónir kr. á síðasta ári

Á síðasta ári nam hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands, þ.e. Sláturfélags Suðurlands og Reykjagarðs hf., 186 milljónum kr. samanborið við 412 milljonir kr. árið áður. Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2010 voru 5.620 milljónir kr. og eiginfjárhlutfall 28% og hefur hækkað milli ára en það nam 23% árið áður.
Aðalfundur félagsins verður haldinn 25. mars n.k. og þar mun stjórn félagsins leggja til að hvorki verði greiddur arður af B-deild né reiknaðir vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs. Hins vegar hefur komið fram krafa um útgreiðslu arðs af eigendum yfir 10% hluta í B-deild stofnsjóðs. Hámarks arðgreiðsla getur þó ekki orðið hærri en 14.344 þúsund króna en það er óráðstafað eigið fé 31. desember 2010.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu eru rekstrarskilyrði tekin að batna með minni verðbólgu, styrkingu krónu og lægra vaxtastigi sem hafði jákvæð áhrif á fjármagnsliði á árinu 2010. Kaupmáttur heimila er nú tekinn að vaxa að nýju eftir mikinn samdrátt sem á að leiða til bættra skilyrða. Aðgerðir til að bæta rekstur félagsins á árinu skiluðu bættri afkomu en EBITDA jókst um 77 mkr. frá fyrra ári.


Sláturfélagið hefur komist að samkomulagi við viðskiptabanka sinn að hefja viðræður um fjárhagslega endurskipulagningu og er áætlað að henni sé lokið fyrir 30. júní 2011. Viðræðurnar felast m.a. í því að lán félagsins verði endurfjármögnuð og afborganir þeirra verði betur aðlagaðar að greiðslugetu félagsins til lengri tíma með jafnari afborgunum.


Aukinn útflutningur og betra verð á útflutningsmörkuðum fyrir lambakjöt hefur haft jákvæð áhrif á rekstur afurðahluta félagsins. Staða á erlendum mörkuðum fyrir lambakjöt er góð eins og nú horfir.


back to top