Seinagangur við úrlausn skuldamála harðlega átalinn

Búnaðarþing, sem lauk í vikunni, samþykkti m.a. ályktun þar seinagangur við úrlausn skuldamála bænda er harðlega átalinn og þær lánastofnanir sem ekki hafa hafist handa við endurútreikning á gengistryggðum lánum gagnrýndar. Jafnframt er þess krafist að lánastofnanir hraði úrlausnum á skuldamálum bænda og að verðmæti rekstrarins verði lagt til grundvallar þeim úrlausnum. Áréttað er að lánastofnanir gæti samræmis við úrvinnslu þessara mála.
Bændasamtök Íslands fari fram á samkomulag um úrvinnslu skuldamála bænda við Samtök fjármálafyrirtækja eða lánastofnanir, er taki tillit til sérstöðu búrekstrar, í takt við hliðstætt samkomulag Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fjármálafyrirtækja. Í ályktuninni segir jafnframt að við mótun þess þarf m.a. að taka tillit til eftirtalinna atriða:  • Komist verði að samkomulagi um aðferðir við mat á bújörðum er taki mið af núverandi starfsemi og ástandi jarðarinnar.

  • Búrekstraráætlanir er taki tillit til eðlilegrar afkomu bænda og endurnýjunar rekstrar- og fastafjármuna verði lagðar til grundvallar við lausnir.

  • Lausnir verði sniðnar að mismunandi rekstrareiningum þannig að boðið verði upp á framtíðarlausnir í lánamálum óháð bústærð.

  • Skilmálar fjármálagjörninga verði skýrir, skerði ekki réttindi sem kunna að skapast við seinni tíma úrskurði og/eða dóma. Gera verður kröfu um að fjárhagsleg endurskipulagning sé til lengri tíma og meðhöndlun biðlána skýr.


back to top