Eldgosið virðist ekki hafa haft mikil áhrif á heilsufar búfjár

Rannsóknir, sem gerðar voru í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli á síðasta ári, benda ekki til þess að öskufallið úr jöklinum hafi haft veruleg áhrif á heislufar búfjár. Í skýrslu sem Matvælastofnun hefur tekið saman og kynnt var á Fræðaþingi landbúnaðarins í gær segir að ekki sé ástæða til að óttast mikil áhrif af flúor í fóðrinu og ekki virðist vera alvarleg uppsöfnun af járni í búfé. Full ástæða er þó talin til þess að hafa sérstaka vöktun á heilsufari búfjár á stóru svæði á Suðurlandi og fylgjast með hvort einhver langtímaáhrif verða af öskufalli og öskufoki.

Á vef Matvælastofnunar er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsókna á áhrifum eldgossins á búfé og búfjárafurðir. Segir þar, að dýralæknum sem fóru um öskufallssvæðið fyrstu tvo dagana, hafi verið verulega brugðið og þeir hefðu óttast að hross og annar búfénaður, sem var úti mundi falla eða veikjast á næstu dögum. Sá ótti reyndist ástæðulaus og bárust ekki neinar fréttir af dýrum sem drápust vegna gossins á fyrstu dögum þess.


Sýni voru tekin úr tankmjólk á fyrstu dögum gossins en engin mengun var mælanleg. Fleiri mjólkursýni voru tekin í haust og eru nú í vinnslu.


Þá hafa eftirlitsdýralæknar fylgst náið með gripum sem koma í sláturhús, þá sérstaklega lungum. Ekkert grunsamlegt hefur fundist og engin stórsæ ummerki um ösku í lungum jafnvel þótt dýrin væru að koma beint úr mekkinum. Þó er tekið fram að nokkrar kindur hafa drepist úr lungnapest í vetur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Lungnapestarsýklarnir finnast oft í efri öndunarfærum sauðfjár. Ekki er hægt að útiloka að áreiti frá öskunni hafi veikt mótstöðu einhverra kinda og gert lungun viðkvæmari fyrir lungnapestarsýklum.


Eldgos í Eyjafjallajökli: Áhrif á búfénað og búfjárafurðir


 


back to top