Andstaða við aðild að ESB ítrekuð

Búnaðarþingi lauk í gærkvöldi og meðal síðustu mála sem afgreidd voru þar var ályktun þar sem andstaða við aðild að Evrópusambandinu var ítrekuð. Ályktun Búnaðarþings sem lýsir vel og ítarlega afstöðu bænda og Bændasamtakanna gagnvert umsókn Íslands um aðild að ESB fer hér á eftir:

Aðild Íslands að ESB – afstaða BÍ


Búnaðarþing 2011 ítrekar andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu. Miklir atvinnuhagsmunir bændastéttarinnar eru í húfi og telur þingið þessum hagsmunum betur borgið utan þess. Hagsmunir og afkoma bænda tengjast ótvírætt hagsmunum íslenskra neytenda og byggðum landsins. Búnaðarþing telur að fæðuöryggi þjóðarinnar verði því aðeins tryggt að fullu með því að Ísland standi utan sambandsins.


Þrátt fyrir algjöra andstöðu Bændasamtakanna við aðild að Evrópusambandinu hafa þau frá upphafi dregið sérstakar varnarlínur sem þau telja að feli í sér lágmarkskröfur í yfirstandandi samningaviðræðum við Evrópusambandið. Bændasamtökin telja mikilvægt að hagsmunir íslensks landbúnaðar verði tryggðir, komi til aðildar og að hagsmunir bændastéttarinnar verði metnir í heild með hliðsjón af byggðasjónarmiðum, neytendamálum og fæðuöryggi. Þeim árangri er að mati Bændasamtakanna aðeins hægt að ná sé varnarlínum samtakanna fylgt. Bændasamtökunum er ljóst að markmið varnarlínanna falla misvel að grunnreglum Evrópusambandsins og erfitt getur verið að ná þeim fram. Bændasamtökin hafa margoft áður sett þessa afstöðu fram.


Til þess að gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar er það afdráttarlaus krafa Bændasamtaka Íslands að stjórnvöld leiti aðstoðar óháðra sérfræðinga utan stofnana Evrópusambandsins. Í varnarlínum samtakanna kemur fram krafa um varanlegar undanþágur frá landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins. Varanlegar undanþágur þýða að mati Bændasamtakanna að viðeigandi ákvæði í aðildarsamningnum gangi framar ákvæðum samningsins um starfsemi Evrópusambandsins og gerðum settum samkvæmt honum. Tímabundnar undanþágur nægja ekki að mati Bændasamtakanna til þess að tryggja framtíðarhagsmuni íslensks landbúnaðar. Allar varnarlínurnar varða sameiginlega hagsmuni landbúnaðar á Íslandi til lengri tíma litið. Það kostar verulega rannsóknarvinnu og gagnaöflun að takast á hendur þetta verkefni af fullum krafti. Stjórnvöld þurfa að tryggja pólitískan stuðning og nauðsynlegar fjárveitingar til þeirrar vinnu.


Búnaðarþing 2011 leggur áherslu á eftirtalin atriði:
– Að varnarlínur Bændasamtakanna og greining á lagaumhverfi landbúnaðar í Evrópusambandinu liggja nú fyrir búnaðarþingi. Búnaðarþing felur stjórn Bændasamtaka Íslands að fullvinna þessi gögn. Þau verði síðan kynnt bændum og send aðildarfélögum.


– Að með varnarlínum Bændasamtakanna hafa bændur sett fram lágmarkskröfur í landbúnaðarmálum vegna hugsanlegs aðildarsamnings.


– Að stjórn Bændasamtakanna fylgi varnarlínunum eftir við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í því skyni að koma þeim á framfæri við ríkisstjórn.


– Að stjórnvöld kanni nú þegar afstöðu Evrópusambandsins til varnarlína Bændasamtakanna sé það ætlun þeirra að standa vörð um íslenskan landbúnað.


– Að Bændasamtökin taki ekki þátt í undirbúningi eða aðlögunarstarfi sem leiðir beint eða óbeint af yfirstandandi samningaferli s.s. vinnu við að útfæra sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins fyrir íslenskar aðstæður.


– Að allar umræður sem leiða af sér grundvallarbreytingar á ríkisstuðningi-, tolla- og stofnanaumhverfi íslensks landbúnaðar verði að bíða þar til yfirstandandi samningaferli lýkur.


– Að Bændasamtökin ræki áfram skyldur sínar gagnvart stjórnvöldum með því að veita upplýsingar og ráðgjöf um landbúnaðarmál.


Greinargerð – Varnarlínur BÍ


1. Áfram verði byggt á 13. grein EES-samningsins um rétt Íslands til verndar heilsu manna og dýra.


Meginatriði: Komi til aðildar verði innflutningsheimildir óbreyttar frá því sem þær verða þegar að lög nr. 143/2009 um innleiðingu á matvælalöggjöf ESB hafa öðlast gildi að fullu. Jafnframt verði heimilt að halda takmörkunum á plöntuinnflutningi óbreyttum. Íslenskum stjórnvöldum verði enn fremur heimilt að grípa til sérstakra aðgerða til að vernda og verja innlendu búfjárkynin Varanleg ákvæði þessa efnis verði hluti af aðildarsamningi.2. Ísland og íslensk stjórnvöld hafi fullt frelsi frá reglum og stefnu ESB til að ríkisstyrkja landbúnað og innlendan úrvinnsluiðnað.


Meginatriði: Komi til aðildar verði fullt tillit tekið til sérstöðu landsins í aðildarsamningi, án tillits til fyrri fordæma. Svigrúm verði til þess að tryggja stöðu byggða sem byggja á landbúnaði og úrvinnslu afurða hans þannig að hún verði ekki verri en fyrir aðild. Þannig er lágmarkskrafa að ríkisstyrkir verði a.m.k. með sama hætti og fyrir aðild. Nægilegt og skýrt svigrúm verði til að styðja við framleiðslu skilgreindra sóknarafurða sem hafa skírskotun til íslenskra framleiðsluaðstæðna. Svigrúm verði fyrir sérstakar aðgerðir til að verja íslenska búvöruframleiðslu vegna smæðar innlenda markaðarins.


3. Áfram verði heimilt að leggja tolla á búvöru frá löndum ESB.


Meginatriði: Komi til aðildar hafi íslensk stjórnvöld áfram heimild til að leggja tolla á búvörur frá ESB löndum allt að því sem heimildir til að leggja á tolla samkvæmt skuldbindingum okkar innan WTO gefa svigrúm til. Verði breytingar á reglum WTO þannig að heimildir til álagningar tolla verði skertar þarf að bæta það með öðrum hætti. Hagsmuna íslensks landbúnaðar verði gætt í hvívetna vegna smæðar markaðarins og fjarlægðar frá hinum eiginlega innri markaði ESB.


4. Félagsleg staða og afkoma bænda verði tryggð.


Meginatriði: Komi til aðildar verði tryggt að bændum verði bætt tjón vegna fjárfestinga sem ljóst er að verði verðlitlar eða verðlausar við aðild. Samtökum bænda verði jafnframt tryggð sambærileg staða og nú. Þetta þýðir að heimila verður og tryggja innlenda ríkisstyrki nægilega til þess að ná þessum markmiðum.


5. Svæðaskipting landsins með tilliti til landbúnaðar kemur ekki til álita. Sérstakt tillit verður að taka til veðuraðstæðna og ríkra krafna til aðbúnaðar búfjár og vinnuverndar.


Meginatriði: Komi til aðildar verði sömu heimildir til að styðja við landbúnað óháð því hvar á landinu starfsemin er. Lágmarkskrafan er að landið verði skilgreint sem eitt svæði með tilliti til ríkisstyrkja og styrkja úr Evrópska tryggingarsjóðnum fyrir landbúnað Á ensku: European Agricultural Guarantee Fund (skammstafað EAGF), sem fjármagnar markaðsskipulagið og Evrópska landbúnaðarsjóðnum til þróunar landbúnaðarhéraða European Agricultural Fund for Rural Development (skammstafað EAFRD) og að hér verði um að ræða varanlegt ákvæði í aðildarsamningi.


6. Réttur til sjálfbærrar nýtingar hlunninda og eðlilegra varna gegn rándýrum og meindýrum.


Meginatriði: Komi til aðildar verði ekki settar skorður á hefðbundna hlunnindanýtingu eða aðgerðir gegn meindýrum, hvort sem þau eru flokkuð sem meindýr innan ESB eða ekki. Lágmarkskrafa er að varanleg ákvæði vegna þessa verði hluti af aðildarsamningi.


7. Samningurinn raski ekki eignaréttarlegri stöðu bænda og landeigenda. Tryggt verði að erlent fjármagn, ótengt landbúnaði raski ekki aðstöðu til framleiðslu landbúnaðarafurða.


Meginatriði: Komi til aðildar hafi stjórnvöld fullt svigrúm til að skilgreina ákveðin landsvæði sem landbúnaðarland sem ekki megi taka til annarra nota. Varanlegt ákvæði í aðildarsamningi verði sett til að tryggja þetta.


 


back to top