Bilaður olíuhitari drap 3.500 fugla

Talið er að bilun í olíuhitara hafi orsakað brunann í eldissal á Ásmundarstöðum í Rangárvallasýslu í gærkvöldi. Í salnum voru 7.800 kjúklingar og drápust um 3.500 af þeim, flestir vegna reyksins en eldur var ekki mikill. Lögreglan rannsakaði eldissalinn í morgun og að rannsókninni lokinni tók við hreinsunarstarf.

Eldur í alifuglabúi

Eldur kviknaði í húsi í alifuglabúinu Ásmundarstöðum í Ásahreppi í Rangárvallasýslu á níunda tímanum í gærkvöldi. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var búið að slökkva eldinn áður en slökkvilið bar að garði. Eldurinn var ekki mikill, en mikill hiti og reykur myndaðist í búinu. Um tíu þúsund, 26 daga gamlir ungar voru í húsinu og var hluti þeirra dauður þegar að var komið.

Glitnir vill sinna landbúnaðinum vel til framtíðar

Síðastliðinn miðvikudag, 5. nóvember, áttu fulltrúar Bændasamtaka Íslands fund með Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs Nýja Glitnis, og Birgi Runólfssyni frá lánaeftirliti bankans. Fundarefnið var sú staða sem nú er uppi í fjármálaheiminum og hvernig hún kemur við landbúnaðinn.

Tekjur bænda standa ekki undir lánunum

Margir bændur eiga í stórkostlegum rekstrarerfiðleikum þar sem lán þeirra í erlendum gjaldmiðlum hafa hækkað mikið að undanförnu. Er nú svo komið að tekjur vegna afurðasölu og beingreiðslur frá ríkinu standa ekki undir afborgunum af lánum sumra.
Vandinn er mestur meðal kúabænda og einkum þeirra sem hafa reist fjós eða ráðist í annars konar fjárfestingar á síðustu misserum og árum.
Sem dæmi má nefna að mánaðarlegar afborganir af lánum tiltekins kúabús á Suðvesturlandi hafa hækkað um 700 þúsund krónur. Verðhækkanir á erlendum aðföngum á borð við olíu, kjarnfóður og áburð hlaupa svo á tugum prósenta.

Var rangt að taka erlend lán?

Þetta er trúlega sú spurning sem margir eru að spyrja sig að þessa dagana. Töluverður fjöldi bænda hefur fjármagnað sig með erlendum lánum á undanförnum misserum og á liðnu ári og allt fram á þetta ár skuldbreyttu allnokkrir eldri íslenskum lánum í erlend lán í þeim tilgangi að lækka hjá sér greiðslubyrðina. Til að reyna að svara spurningunni er trúlega best að taka raunverulegt dæmi…

Hagsmunir bankans felast ekki í því að ganga hart fram

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands ásamt ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytisins áttu í vikunni fund með Finni Sveinbjörnssyni bankastjóra Nýja Kaupþings og Bjarka Diego framkvæmdastjóra, um horfur í landbúnaði og stöðu bænda. Líkt og á fundi með stjórnendum NBI-banka (nýja Landsbankans) var lögð megináhersla á það markmið að rekstur búa sé tryggður til lengri og skemmri tíma.

Skaftárhlaup eyðileggur

Ljóst er af myndum sem teknar hafa verið að Skaftárhlaupið hefur valdið miklum skaða á gróðurlendi en fulltrúar Landgræðslunnar hafa verið á svæðinu undanfarið að meta skemmdir síðasta flóðs. Skaftá ber með sér ógrynni af jökulleir og sandi. Þegar áin flæðir yfir bakka sína situr eftir mikið magn framburðarefna sem kaffærir gróður. Síðan fýkur af þessum svæðum á aðliggjandi gróðurlendi og sverfur gróður og kaffærir stundum varanlega.

Rúningsmeistari Íslands

Rúningsmeistari Íslands var krýndur í gær. Tíu keppendur víðs vegar að af landinu tóku þátt í meistaramótinu og voru vel studdir af hátt á annað hundrað áhorfendum. Mótið fór þannig fram að hver keppandi rúði þrjár ær á einu bretti en umferðirnar voru tvær. Tíminn gilti hinsvegar ekki nema 40% en gæði rúningsins 60% og voru rúningsmenn dæmdir niður m.a.fyrir að klippa í reyfið eða í skinn.

Fullur vilji til að hjálpa viðskiptamönnum eins og kostur er

Í gær áttu formaður og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna ásamt ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fund með Elínu Sigfúsdóttur bankastjóra Nýja Landsbankans. Farið var yfir það hvernig efnahagskreppan horfir við landbúnaði og mikilvægi þess að hægt verði að tryggja áframhaldandi rekstur búa til skemmri og lengri tíma. Rætt var um rekstrargrundvöll, dýravelferð, matvælaöryggi og sérstöðu landbúnaðar. Fulltrúar BÍ fóru yfir hvað samtökin geta í samvinnu við búnaðarsamböndin boðið upp á varðandi ráðgjöf.

Frysting lána gjaldfrí

Kaupþing hefur ákveðið að hætta að taka gjald fyrir skilmálabreytingu vegna frystingar erlendra lána. Í stað þess að borga 11.350 krónur fyrir breytinguna greiða lántakendur því nú eingöngu 1.350 króna þinglýsingargjald.

Frysting myntkörfulána

Í ljósi frétta af frystingu erlendra lána vill ríkisstjórnin taka fram eftirfarandi: Viðskiptaráðuneytið hefur í dag rætt við alla bankastjóra hinna nýju ríkisbanka til að tryggja að þjónusta við viðskiptavini bankanna sé í samræmi við tilmæli ríkisstjórnarinnar um frystingu myntkörfulána.

Heimasvæði notenda í WorldFeng

Búið er að opna fyrir aðgang notenda Worldfengs að eigin heimasvæði sem kallað er Heimarétt. Í Heimaréttinni eiga að koma fram öll hross í eigu viðkomandi áskrifanda. Fjórar upplýsingasíður koma upp sem eru; hrossin mín, fargað, selt og útflutt. Allir eigendur sem eru áskrifendur að WorldFeng geta nú sjálfir skráð eigandaskipti, afdrif og bætt inn athugsemdum um sín hross með því að hafa aðgang að Heimaréttinni.

Grunaður um sölu á heimaslátruðu

Lögreglumenn á Hvolsvelli stöðvuðu ökumann á leið úr austurhluta umdæmisins í liðinni viku. Hann reyndist vera með 300 kíló af kindakjöti sem var heimaslátrað og ætlað til dreifingar. Kjötið var haldlagt og því eytt í samráði við Matvælastofnun eftir því sem segir í dagbók lögreglu.

Áhættufé á ystu nöf

Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöld birtist skemmtileg frétt um áhættufé í hlíðum Úlfarsfells en það er fyrsta skemmtilega fréttin sem birtist um fjármál í langan tíma. Svavar Halldórsson fréttamaður lýsti vanda ærinnar af stakri prýði og greinilegt er að það eru fleiri fréttamenn en Gísli Einarsson sem kunna að gera landbúnaðartengdar fréttir skemmtilegar.

Mjaltaþjónn í Hvanneyrarfjósið

Nú er verið að leggja lokahönd við á frágang á DeLaval mjaltaþjóni í fjósinu á Hvanneyri en hann verður tekinn í notkun í næstu viku. Básinn getur þjónað 65-70 kúm. Hér er um að ræða hefðbundinn mjaltaþjónn með frumuteljara. Snorri Sigurðsson framkvæmdastjóri búrekstrar LbhÍ sagði að seinna verði settur upp sérstakur búnaður sem getur gert fullkomnar efnamælingar á mjólkinni um leið og kýrnar eru mjólkaðar. Sá búnaður er í prófun erlendis og lofar góðu. Árleg framleiðsla Hvanneyrarbúsins er um 320 þúsund lítrar sem er áþekkt framleiðsluréttinum.

Upplýsingasíða vegna efnahagsþrenginga

Á vef Bændasamtakanna hefur verið opnuð upplýsingasíða um sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði og viðbrögð við þeim. Um er að ræða upplýsingar sem geta gagnast bændum og öðrum sem starfa við landbúnað. Þar er að finna tengla á vefsíður sem tengjast m.a. landbúnaði, hinu opinbera og lánastofnunum.

Hvítlaukur í kúafóðri minnkar gasið

Hollenskir vísindamenn hafa fundið leið til að minnka gaslosun kúa um allt að tuttugu prósent. Talið er að í heiminum sé hálfur annar milljarður nautgripa og fimmtungur allrar metanlosunar í andrúmslofti í heiminum sé af þeirra völdum.

Afborganir á myntkörfulánum verði frystar

Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins, f. h. skilanefndar Glitnis hf. og Kaupþings hf., og til stjórna Nýja Landsbankans hf. og Nýja Glitnis hf., að frystar verði afborganir skuldara á myntkörfulánum, sérstaklega vegna húsnæðislána, þar til ró kemst á gjaldeyrismarkaðinn.

Fjallalamb með upprunamerkingu sauðfjárafurða

Fjallalamb hf. og Strikamerki hf. hafa nú þróað upprunakerfi sem upplýsir neytendur hvaðan afurðir Fjallalambs koma.
Neytandinn kaupir 1/2 skrokk í kassa, les á merkimiða sem límdur hefur verið á kassann og getur síðan farið inn á www.fjallalamb.is smellt á upprunamerkingu og skoðað síðan mynd af bæ viðkomandi framleiðenda ásamt upplýsingum um ábúendur. Númer framleiðenda er fjögurra stafa númer sem kemur fram á miðanum. Einnig kemur fram á þessum miða einstaklingsnúmer lambsins ásamt sláturdagsetningu.

Bóndi er bústólpi!

Lánsfjárkreppan sem nú gengur yfir heiminn hefur heldur betur breytt fjármálaumhverfinu hér á landi. Væntanlega hefur enginn Íslendingur farið varhluta af því. Ekki nóg með að erfitt eða ómögulegt sé að fá lán til framkvæmda eða kaupa heldur hafa flestar eða allar vörur hækkað gríðarlega á undanförnum mánuðum. Kaupmátturinn hefur því rýrnað verulega að undanförnu og er sama hvar í stétt menn eru. Vandamálið er allra landsmanna!

back to top