Glitnir vill sinna landbúnaðinum vel til framtíðar

Síðastliðinn miðvikudag, 5. nóvember, áttu fulltrúar Bændasamtaka Íslands fund með Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs Nýja Glitnis, og Birgi Runólfssyni frá lánaeftirliti bankans. Fundarefnið var sú staða sem nú er uppi í fjármálaheiminum og hvernig hún kemur við landbúnaðinn.

Fulltrúar BÍ lögðu áherslu á að leitað sé allra leiða til að tryggja rekstur búa til lengri og skemmri tíma. Lögð er áhersla á sérstöðu atvinnuvegarins, að yfirleitt sé búið jafnframt heimili fjölskyldunnar. Einnig var komið að þáttum eins og dýravelferð og mikilvægi þess að framleiðsla stoppi ekki vegna matvælaöryggis. Þá var farið yfir hvað samtök bænda, bæði BÍ og búnaðarsamböndin, bjóða viðskiptavinum sínum af ráðgjöf við fjárhagslega og faglega endurskipulagningu búrekstrar.


Fram kom hjá Glitni að landbúnaður er atvinnugrein sem þeim er umhugað um og vilja sinna vel til framtíðar. Reynt verður að stíga öll þau skref sem hæf eru til að koma til móts við rekstur sem á sér fjárhagslega möguleika til framtíðar. Þar verða allar færar leiðir skoðaðar. Ljóst er hins vegar að dragist efnahagskreppan á langinn blasi sársauki við í atvinnulífi landsins. Bankinn lagði ríka áherslu á að farið sé vel yfir einstök mál og að gott samstarf aðila vinnumarkaðarins, fjármálastofnana og stjórnvalda eigi sér stað.


Ljóst er almennur skilningur ríkir á mikilvægi landbúnaðar. Það er vilji Bændasamtanna að eiga gott samstarf við fjármálafyrirtæki og aðstoða við að greiða úr þeim erfiðleikum sem nú steðja að. Í framhaldi af fundunum með nýju viðskiptabönkunum verður leitað eftir fundum með fleiri fjármálastofnunum.


back to top