Tekjur bænda standa ekki undir lánunum

Margir bændur eiga í stórkostlegum rekstrarerfiðleikum þar sem lán þeirra í erlendum gjaldmiðlum hafa hækkað mikið að undanförnu. Er nú svo komið að tekjur vegna afurðasölu og beingreiðslur frá ríkinu standa ekki undir afborgunum af lánum sumra.
Vandinn er mestur meðal kúabænda og einkum þeirra sem hafa reist fjós eða ráðist í annars konar fjárfestingar á síðustu misserum og árum.
Sem dæmi má nefna að mánaðarlegar afborganir af lánum tiltekins kúabús á Suðvesturlandi hafa hækkað um 700 þúsund krónur. Verðhækkanir á erlendum aðföngum á borð við olíu, kjarnfóður og áburð hlaupa svo á tugum prósenta.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir ástandið mjög alvarlegt en óttast ekki fjöldagjaldþrot meðal bænda. Í bönkunum ríki skilningur á erfiðri stöðu. „Þeir segjast ekki ætla að ganga að neinum,“ segir Haraldur sem ræddi á dögunum við bankastjóra Kaupþings og Landsbankans. „Hins vegar er ljóst að þá skortir heimildir og vitneskju. Eigandinn hefur ekki sagt þeim hvað þeir megi og því ekki annað að gera en að setja allt í bið.“


Haraldur segir nauðsynlegt að verst stöddu bændurnir fái lán svo rekstur þeirra stöðvist ekki. Í framhaldinu þurfi að vinna í endurfjármögnun og, eftir atvikum, afskriftum skulda. Því ríði á að ríkið – sem eigandi bankanna – móti stefnuna.


Um sjö hundruð kúabú eru í landinu og telur Haraldur þau hlaupa á tugum sem standa verulega illa. Hann áætlar að um helmingur allra lána sé í erlendri mynt.


Bændur hafa reynt að hagræða í rekstrinum hjá sér en úrræðin eru fá. Fyrir ári höfðu margir möguleika á að selja parta úr jörðum sínum eða hluta mjólkurkvóta en hvorugt er söluvara nú. Enginn er til að kaupa. Þess í stað reyna nágrannar að samreka bú sín með einum vélakosti og selja til útlanda þau tæki sem ekki þarf að nota.


 


back to top