Haustfundur HS 2008

Fundargerð
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka SuðurlandsHaustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn í Þingborg, kl 20:00 þann 16. október 2008.


Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Skýrsla formanns, Sveinn Steinarsson
3. Eignarhald á stóðhestum, Hreggviður Þorsteinsson
4. Ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
Kaffihlé
5. Umræður og önnur mál


1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og sagði: „Ágætu félagar og gestir. Velkomin til árlegs haustfundar Hrossaræktarsamtaka Suðurlands. Gott er að hittast á haustdögum og fara yfir ræktunarárangur sumarsins. Að venju höfum við fengið landsráðunautinn til þess að fara yfir kynbótaárið og býð ég Guðlaug Antonsson velkominn til fundar. Annan gest ætla ég að kynna til leiks en það er Hreggviður Þorsteinsson endurskoðandi. Hann ætlar að fjalla um ýmis eignarform á stóðhestum. Báðir þessir gestir verða með framsögu og svara síðan fyrirspurnum fundarmanna. Ég vona að við komum til með að eiga bæði góðan og gagnlegan fund hér í kvöld.
 Fundinn segi ég settan og geri tillögu um að Kári Arnórsson verði fundarstjóri og Halla Eygló Sveinsdóttir fundarritari“.


2. Skýrsla formanns, Sveinn Steinarsson
Síðast liðið sumar var gott uppskerusumar fyrir okkur hrossaræktendur. Hrossin okkar eru örugglega að verða betri, jafnbetur þjálfuð og undirbúin. Það er sífellt erfiðara að standa upp úr með einstaka hross, enda næstu hross sem á eftir koma skammt undan og er það vel.
 Á landsmótsári stendur jafnan meira til en á árinu milli landsmóta og er það afar eðlilegt þar sem það er bæði góður árangur og kynning að koma kynbótahrossi inn á landsmót. Fjöldi þeirra hrossa sem ná inn á landsmót er mikill þrátt fyrir hækkandi lágmörk. Á kynbótasýningunum í sumar fannst mörgum þrátt fyrir hækkun lágmarka í öllum flokkum að hugsanlegur fjöldi á landsmóti væri farinn að hafa áhrif á einkunnagjöf á tímabili þ.e.a.s. að sá fjöldi sem þá þegar hafði náð landsmótslágmörkum væri orðinn of mikill og hross væru jafnvel að fá lægri einkunn en þau fengju í annan tíma. Það er ekki gott ef sú tilfinning grípur um sig hjá aðstandendum hrossanna ef sú er raunin. Kynbótadómarar þurfa að vera yfir þennan vafa hafnir, því hrossin þurfa einfaldlega að fá sinn rétta dóm á hverjum tíma hvort sem um landsmótsár er að ræða eða ekki. Til þess að eyða þessum efasemdum mætti skoða þann möguleika að ákveða fyrirfram fjölda kynbótahrossa á landsmót, með því að hafa ákveðinn fjölda í hverjum flokki. Fjöldinn gæti verið breytilegur milli aldursflokka, efstu 15-20 hrossin í hverjum flokki ættu þátttökurétt.
 Umfang kynbótahrossa á landsmóti er mikið, rétt eins og umfang keppnishrossa og í þröngum tímaramma landsmóts má ekkert útaf bera svo að menn lendi ekki í tímaþröng varðandi framgöngu mótsins. Það sýndi sig glögglega í sumar þegar gekk yfir hálfgert gerningaveður á upphafsdögum landsmótsins og nánast ekkert svigrúm gafst til dagskrárbreytinga. Fagna ber þeirri umræðu sem þegar er farin af stað um skipulagningu landsmóta. Sú umræða þarf að eiga sér stað og vera fordómalaus. Það að fækka bæði keppnis- og kynbótahrossum á landsmóti gæti vel verið lausnin.
 Starfsemi HS hefur verið með þeim hætti þetta árið að samtökin voru með sína árlegu ungfolasýningu og síðan ræktunarsýninguna Ræktun 2008 og var leitast við að fá félaga sem víðast að á félagssvæðinu til að taka þátt og gekk sú sýning allvel.
 Samtökin tóku þátt í afmælissýningu Búnaðarsambands Suðurlands sem haldin var á Hellu í ágúst og var sú þátttaka bæði fróðleg og skemmtileg. Samtökin voru með stóðhestinn Goða frá Þóroddsstöðum til sýnis og Jón Vilmundarson fékk hann til afnota við að lýsa byggingadómum á hrossum. Hulda Gústafsdóttir var með mjög vel útfærða gangtegundasýningu sem vakti mikla athygli.
 Vetrardagskráin okkar hefst með árlegri folaldasýningu þann 25. október, þ.e.a.s. fyrsta vetrardag og er þegar farið að auglýsa eftir þátttöku á sýninguna. Óðinn Örn Jóhannsson sér um að taka við skráningum á sýninguna. Síðan verða ungfolasýningin og ræktunarsýningin á svipuðum tíma og þær hafa verið.
 Í samvinnu við Landbúnaðarskóla Íslands á Hvanneyri verða tvö námskeið í hæfileikadómum 14. og 15. febrúar og eitt námskeið í byggingardómum 21. febrúar. Námskeiðin verða haldin í Ölfushöllinni og kennarar verða þeir Jón Vilmundarson og Eyþór Einarsson kynbótadómarar. Þessi námskeið verða niðurgreidd til félagsmanna en eru öllum opin og vonumst við eftir góðum viðtökum en námskeiðin eru kynnt með fyrirvara um þátttöku. Hægt er að skrá sig á námskeiðin nú þegar á Hvanneyri.
 Í tilefni af afmælisári Búnaðarsambands Suðurlands var ákveðið af hálfu Búnaðarsambandsins að kann vilja hjá einstökum búgreinum innan þess að fara í fræðslu eða skemmtiferð erlendis á afmælisárinu. Höfum við hjá HS kannað vilja okkar fólks með því að búa til ferðapakka til Stokkhólms þann 27. nóvember með Sigurð Sæmundsson sem fararstjóra og sjá þar meðal annars hestasýningu í Globenhöllinni ásamt því að heimsækja nokkra hestabúgarða. Það leit vel út með þessa ferð og útlit fyrir fína þátttöku en því miður sökum fjármálahamfara hér á Fróni höfum við ákveðið að fresta þessari ferð til betri tíma. Vonandi getum við slegið til á næsta ári.
 Ágætu félagar mér heyrist vera gott rennsli í hrossaviðskiptum þessa dagana og er ástæða þess að hluta til trúlega sú einkennilega staða sem gjaldmiðill okkar er í þessa dagana. Það eru greinilega góð kauptækifæri fyrir útlendinga á þessum tímapunkti sem ætti að koma sér vel fyrir hrossabúskap í landinu. Takk fyrir.


3. Eignarhald á stóðhestum, Hreggviður Þorsteinsson
Hreggviður fjallaði um sína reynslu og hugleiðingar varðandi eignarhald á stóðhestum. Fyrstu félögin sem hann hefði heyrt af hefðu verið stofnuð í kringum Pilt frá Sperðli og Orra frá Þúfu. Árið 1998 hefði hann fyrst komið að því að aðstoða við stofnun á félagi í kringum stóðhest en það hefði verið Sær frá Bakkakoti. Síðan hefði komið Dynur frá Hvammi. Hann væri búinn að koma að stofnun og umsýslu á 15-20 félögum síðan.
Af hverju stofna menn félög? Ekki allir sem geta keypt stóðhesta , hesturinn fær hugsanlega meiri notkun, ræktendur kaupa hlut í félögum til að tryggja sér notkun. Oftast eru félögin stofnuð um hátt dæmda stóðhesta en einnig um ósýnda hesta undan þekktum foreldrum. Hluturinn oft seldur á andvirði 3-5 folatolla.
Nokkur form eru til varðandi félög. Sameignarfélag er sjálfstæður skattaðili, ekki gott að eigendur séu mjög margir í slíku félagi. Allir eru ábyrgir. Samlagsfélög, þar er einn aðaleigandi og sameigendur eru með takmarkaða ábyrgð. Einkahlutafélög algengasta formið. Félögin eru misvirk. Sumstaðar eru aðeins haldnir stofnfundir og síðan ekki söguna meir. Félög með metnaðarfulla stjórnendur halda reglulega fundi. Það er mikil vinna og ábyrgð að halda stóðhest. Best að allt regluverk sé skýrt.  Heilmikið bókhald í kringum þetta sem borgar sig að hafa í lagi.


3. Hugleiðingar um ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
Guðlaugur þakkaði boðið á fundinn, það væri ómetanlegt að fá að tækifæri til að heyra í ræktendum. Hér í Þingborg væri iðulega vel mætt.

Sýningar ársins
Fjöldi uppkveðinna dóma á árinu voru 2059 sem er klárlega metþátttaka. Dæmd hross voru 1509 það þýðir að endurdómar hafa verið um 30%. Byggingadómar voru látnir standa í 59 skipti. Áverkar fundust á 17% hrossa en 10% í fyrra, þessi aukning er ekki ásættanleg.
 Dreifing einkunna var meiri á hæfileikum heldur en byggingadómum rétt eins og í fyrra. Athyglisvert að skoða hlutfall með 8 eða hærra í aðaleinkunn. Árið 1990 voru það 13% dæmdra hrossa en í ár var þetta 38,6%, í fyrra 28,6%. Hlutfall undir 7,5 var árið 1990 var 35% en í ár 6,8%. Þetta er gríðarleg breyting á tæpum 20 árum.
Nokkur umræða hefur orðið um að dómar hafi legið lægra á sumum sýningum en öðrum. Staðreyndin hins vegar sú að ef sýningarnar eru skoðaðar í heild sinni eru einkunnir jafnar á öllum sýningunum nema Víðidalssýningunni, þar liggja dómar ívið hærra. Skýringin á því sennilega sú að þangað hafa menn mætt með þau hross sem þeir hafa talið nokkuð örugg inn á landsmót. Nokkrir knapar skrifuðu nafn sitt undir bréf um að þeir teldu dóma á Hellu út úr kortinu. Fagráð er búið að senda þessum knöpum bréf þar sem þeim er boðið að senda tvo menn á næsta fagráðsfund til að ræða þessi mál.
 LM 2008 var fjölmennasta landsmót frá upphafi. Dagskráin gekk vel miðað við veður og hestakostur var frábær. Mótið hefur fengið mjög jákvæða umfjöllun erlendis. Það sem ekki var í lagi voru tjaldstæða- og hreinlætismál og verða þau mál skoðuð fyrir næsta landsmót. Miðað var við að 200 kynbótahross yrðu á LM2008 en 238 náðu lágmörkum og 218 mættu á mótið. Af þeim lækkuðu 122 hross eða 56% en 96 hækkuðu eða stóðu í stað þ.e.a.s. 44%. Afkvæmahross voru 8 á þessu móti en voru 15 árið 2006. Það er alveg ljóst að hrossin eru orðin of mörg á landsmótum og það verður að fækka þeim eitthvað til að létta dagskránna. Það hefur komið upp sú hugmynd að kynbótahrossum verði fækkað í 150. Til þess að það verði þarf að hækka lágmörkin inn á LM verulega. LH þarf líka að taka til hjá sér. Það ættu að vera einkunnalágmörk í gæðingakeppni, aðeins bestu hrossin eiga erindi á landsmót. Til hvers þarf forkeppni? Væri ekki einfaldara að hafa einn hest frá hverju félagi og síðan lágmörk? Eiga að vera landsmót á hverju ári? Um að gera að fara strax að ræða um hvernig við viljum sjá næsta landsmót.
Sýningargjöld munu hækka á næsta ári, það hefur verið rætt um að hækka þau um 1000 kr og yrði sú hækkun látin ganga alfarið til búnaðarsambandanna. Þetta er þó ekki ákveðið.

Skýrsluhald
Nýjungar í WorldFeng nú á næstunni eru þær að inn í hann kemur svokölluð heimarétt en þar geta ræktendur haft eigendaskipti, miðað við að hrossið sé í 100% eign viðkomandi, breytt afdrifum sinna hrossa og sett inn athugsemdir. Þetta er fyrsta skrefið í að koma á rafrænni skráningu hjá skýrsluhöldurum. Heimaréttin er bundin kennitölu og því er mikilvægt að menn gefi ekki upp leyniorðið sitt inn í WF.
Búið er að fella valpörunarforritið hans Þorvaldar inn í WF og Sportfengur verður felldur inn í WF á haustdögum. Ljósmyndum í WF hefur fjölgað um 400 eftir sumarið og nafnabanki kemur í WF fljótlega. WorldFengur er orðin eina ættbókin í Svíþjóð og Danmörku. 

 Árleg ráðstefna hrossaræktarinnar verður 8. nóvember næstkomandi á Hótel Sögu. Þar verður farið yfir hrossaræktarárið 2008, nýtt kynbótamat kynnt og tilnefningar til ræktunarverðlauna. Fagráð hefur tilnefnt eftirfarandi bú; Auðsholtshjáleigu, Fet, Hákot, Ketilsstaði, Lundar II, Skipaskaga, Strandarhjáleigu og Þúfur/Stangarholt.
Erindi á ráðstefnunni verða væntanlega eftirfarandi:
Húsvist hrossa
Forval í kynbótadómi –hve mörg hross mæta undan stóðhestum.
Breytingar á vægistuðlum dómstigans
Breytt sýningarfyrirkomulag kynbótahrossa
-hvað er hægt að gera til að gera þær áhorfendavænni, hestvænni..


5. Umræður og önnur mál
Hreggviður var spurður að því hvort einstaklingur sem ekki er með rekstur ætti að leggja vsk á folatoll sem hann selur. Hreggviður sagði að svo væri.

Kristinn Guðnason spurði hvort það ætti að greiða vsk af beitargjaldi. Hann velti líka fyrir sér kostum og göllum á því að hafa fastan fjölda af kynbótahrossum á landsmótum. Hann væri heldur á móti því en það væri sjálfsagt að kanna hug ræktanda varðandi þetta. Hreggviður sagði að leiga á landi væri undanþegin virðisaukaskatti en sala á beit til einstaklings væri þjónusta og því virðisaukaskattskyld.

Svanhildur Hall spurði hvaða knapar væru boðnir á næsta fagráðsfund. Einnig spurði hún Guðlaug að því hvort hann hefði skoðað ákveðna sýningu í Þýskalandi en dómar þar hefðu þótt ansi háir.
Guðlaugur sagði að það hefðu 10-12 knapar fengið bréfið sent en hann vissi ekki hvaða knapar yrðu sendir inn á fundinn það væri ekki hans að ákveða það. Guðlaugur sagðist vita um þessa sýningu í Þýskalandi en hann hefði ekki verið á staðnum og gæti því ekki lagt mat á það hvort dómar þar hefðu verið óeðlilega háir. Það hefði verið einn íslenskur dómari á sýningunni en hann hefði ekki verið með í ráðum hver færi þangað, það hefði verið haft beint samband við viðkomandi dómara.

Ólafur Hafsteinn Einarsson sagði að það ætti að vera hægt að skoða þessa sýningu í Þýskalandi. Það þyrfti einnig að skoða dóma á Hellu fyrri vikuna. Er það eitthvert leyndarmál fagráðs hvaða breytingar er verið að ræða varðandi dómstigann. Hann hefði mikinn áhuga á að vita hvaða breytingar væri verið að hugsa um. Sjálfsagt að kanna hver er vilji ræktanda varðandi það að vera með fastan fjölda kynbótahrossa inn á landsmót. Það myndi eyða þeirri tilfinningu manna að dómarar væru að hugsa um hve mörg hross væru komin inn á landsmót og hugsanlega að láta það hafa áhrif á sín dómstörf.

Guðlaugur sagðist ekki hafa neina lögsögu yfir Þýskalandssýningunni. Varðandi bréfið frá knöpunum í sumar sagði hann að sér fyndist ekki rétt að skrifa opinbert bréf án þess að færa nokkur rök fyrir sínu máli. Það bara gengi ekki upp. Breytingar á vægi einkunna eru búnar að vera í umræðunni síðustu tvö ár. Fagráð væri ekki á einu máli í þeim efnum. Það verður örugglega fjallað um þessi mál á ráðstefnunni í nóvember. Varðandi könnun meðal ræktenda á viðhorfi þeirra til þess að vera með fastan fjölda kynbótahrossa á landsmóti er það góð hugmynd en hvernig á framkvæmdin að vera?

Sigurður Sigurðarson vakti máls á því að það væri ótraustvekjandi þegar verið væri að breyta byggingadómum verulega á stuttum tíma. Sér fyndist að dómarar ættu að reyna að láta byggingardóma halda sér sem mest milli sýninga. Þegar miklar breytingar yrðu á skömmum tíma virkaði það eins og dómarar væru ekki starfi sínu vaxnir.

Viðar Halldórsson sagðist ekki skilja hvers vegna menn hefðu svona langt á milli einkunna. Það væri verulegur munur á einkunn 7,5 eða 8,0. Af hverju væri ekki dæmt í brotum.

Guðlaugur svari því til að tölfræðingar teldu engan ávinning af því að dæma á þrengra bili. Það væri ekki hægt að dæma huglæga eiginleika með svo mikilli nákvæmni.
Jens Einarsson sagðist halda að það væri ekki gott að vera með fastan fjölda kynbótahrossa á landsmótum. Kynbótahrossin hefðu mest aðdráttarafl. Það væri réttara að vera með sér landsmót fyrir börn og unglinga. Hann sagðist hafa verið mjög óánægður með þá útreið sem kynbótahrossin hefðu fengið á sunnudeginum. Jens sagðist einnig óánægður með að íslenskir og erlendir dómarar væru ekki með sömu menntunarkröfur. Það væri óréttlátt. Guðlaugur svaraði því til að erlendir dómarar hefðu ekki réttindi hér á landi einmitt vegna þess að menntunarkröfur væru meiri hérlendis.

Ólafur Hafsteinn Einarsson sagðist vera sammála Jens um að það væri óréttlátt að ekki væru sömu menntunarkröfur hjá íslenskum og erlendum kynbótadómurum.
Kristinn Guðnason sagði að bréf eins og þetta sem knapar sendu frá sér í vor væri tekið alvarlega af fagráði og menn yrðu að koma með rök. Hann sagði að kynbótadómarar væru ekki að halda hrossum frá landsmótum, enda væru það alveg eins þeir sem ættu hross sem hefðu aldrei átt séns á að komast inn á landsmót sem væru óánægðir með dóma.

Pétur Guðmundsson spurði hvort áverkar væru meiri á 4 vetra hrossum. Hann sagðist vera á móti því að fækka kynbótahrossum á landsmótum. Landsmót væru auglýsingagluggi ræktenda. Hann hefði ekki áhuga á að horfa á A- og B-flokk.

Guðlaugur sagðist halda að áverkar væru ekki meiri á yngri hrossunum en annars væri Pétur Halldórsson sérfræðingurinn í áverkum. Pétur Halldórsson sagðist halda að áverkar væru ekki meiri á 4 vetra hrossum en þyrði þó ekki að svara fyrir það.

Guðlaugur Antonsson sagðist alls ekki vilja að hætt yrði að sýna 4 vetra hross en vissulega væri aðeins hluti þeirra tilbúin til sýninga svo ung. Það hefði aldrei verið sýnt fram að þetta skaðaði þau.
Annað ekki tekið fyrir. Kári þakkaði mönnum góða fundarsetu. Fundi slitið kl. 22:20


/Halla Eygló Sveinsdóttir 


 


back to top