Stefnt að sérhæfingu í kornrækt í Drangshlíð

Í Bændablaðinu sem kemur út á morgun er rætt við ungan kornbónda undir Eyjafjöllum, Þórarinn Ólafsson í Drangshlíð 2. Þar er rekið myndarlegt kornræktarbú, Drangshlíðarbúið ehf., í eigu hjónanna Ólafs S. Gunnarssonar og Önnu Jóhönnu Þórarinsdóttur, auk sonar þeirra Þórarins. Það eru feðgarnir Ólafur og Þórarinn sem saman standa að rekstrinum og er markmið þeirra að Drangshlíð 2 verði fyrsta sérhæfða kornræktarbýli landsins.

Sumarið sem leið var fyrsta sumarið sem þeirra eigin þreskivél var notuð við kornskurðinn og að auki reis nú síðsumars á landi Ólafs og Önnu ein fullkomnasta kornþurrkstöð á Íslandi.
„Það er ekki búið að halda reisugildi en við tókum á móti fólki hérna á dögunum þegar málþing var haldið í sveitinni um átaksverkefni í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu,“ segir Þórarinn Ólafsson, 25 ára kornbóndi, aðspurður hvort búið sé formlega að vígja nýju kornþurrkstöðina þar á bæ. „Við tókum þurrkstöðina í notkun í haust og hún telst mjög hagkvæm hvað varðar rekstrarkostnað – auk þess sem hún þurrkar korn á mjög heilnæman hátt. Hún þurrkar við 80-95 gráðu hita og notar heitt loft til þess. Þetta er því fyrsta flokks þurrkun eins og gengur og gerist hjá öðrum Norðurlandaþjóðum.“


Korn ræktað á um 140 ha lands
Líklega er Drangshlíð 2 með stærstu kornræktararbýlum landsins – ef ekki það stærsta – enda segist Þórarinn ekki vita um neitt annað býli sem noti yfir 100 ha lands til kornræktar. „Það er svo alltaf spurning hvaða magn menn fá út úr ræktarlöndum sínum, en landrýmið sem við notum mælist 139 ha hjá Pétri Halldórssyni, ráðunauti hjá Búnaðarsambandi Suðurlands.“
Þórarinn segir að sl. kornræktarsumar hafi komið ágætlega út hjá þeim í Drangshlíð. „Við rétt náðum landsmeðaltali fyrri ára eða um þremur tonnum á ha – geri ég ráð fyrir. Það er reyndar mjög gott miðað við að þetta er okkar fyrsta ár með þurrkstöð og svo féllum við eiginlega á tíma með að hafa hana klára fyrir vertíðina. Við hefðum getað verið byrjaðir talsvert fyrr að þreskja og þurrka. Svo lentum við líka í vandræðum í votviðrinu eins og aðrir núna í september.“ Þórarinn er nokkuð bjartsýnn á framtíðina í kornræktinni í Drangshlíð. „Næst verða hlutirnir gerðir með enn meiri krafti og hver einasti klukkutími nýttur þegar færi gefst, enda vorum við komnir út í þau vinnubrögð í haust.“


Þórarinn er stórhuga og segir að nú standi þeir frammi fyrir því að annað hvort stækka sjálfir við sig kornræktarland eða auka þurrkun og þreskingu fyrir aðra  – og hallast hann fremur að fyrrnefnda kostinum.


Lesa má meira í Bændablaðinu  á morgun um kornræktarbýlið Drangshlíð 2 og áform þeirra, m.a. í fóðurframleiðslu.


back to top