Bylting í nautgriparækt!

Í fréttabréfi Dansk kvæg sem kom út þann 14. nóvember sl., segir frá byltingarkenndri tækni sem búið er að taka í notkun í ræktunarstarfinu þar í landi. Frá því í sumar hefur Viking Genetics valið nautkálfa til notkunar á grunni erfðaprófa, í stað afkvæmaprófa sem tíðkast hafa í áratugi. Er það mat manna, að þessi tækni eigi eftir að valda svipaðri byltingu á ræktunarstarfinu og þegar sæðingar komu til sögunnar fyrir tæpum 70 árum.

Fyrstu mjólkurkýrnar undan þessum nautkálfum munu koma í framleiðslu að u.þ.b. þremur árum liðnum. Erfðaprófin eru gerð á nautkálfunum þegar þeir eru nokkurra vikna gamlir. Þá þegar liggur fyrir hversu áhugaverðir þeir kunna að vera til frekari notkunar í ræktunarstarfinu. Skipulögð notkun þeirra getur því hafist um leið og þeir ná kynþroskaaldri, ca. 10-12 mánaða gamlir. Ekki þarf að bíða í 4-6 ár eftir að niðurstöður afkvæmaprófana liggi fyrir. Sama gildir um nautsmæðurnar, beita má sömu prófum á þær til að kanna hvaða kýr kunni að vera áhugaverðar sem slíkar. Það liggur því fyrir að hér er hægt að stytta ættliðabilið í nautgriparæktinni um mörg ár.

Það er mat forsvarsmanna verkefnisins að það eigi eftir að auka erfðaframfarir um 50%. Nyt aukist um nokkur kg á dag, m.v. sömu fóðrun, búist er við fækkun júgurbólgutilfella um 25% og að frjósemin batni um 10-15%. Annað mjög mikilvægt atriði í þessu samhengi er að með þessum aðferðum er að talsverðu leyti hægt að losna við einn mesta dragbít sem ræktunarstarfið hefur átt við að etja á undanförnum árum og áratugum, sem er hið neikvæða erfðasamhengi sem er á milli afkastagetu annars vegar og eiginleika á borð við heilsufar og frjósemi hins vegar. Aukin áhersla sem lögð hefur verið á heilsufar, júgurhreysti sérstaklega, hefur skilað hraustari gripum en hefur bitnað á aukningu í afkastagetu. Auðveldara verður nú að kynbæta fyrir hvoru tvegga í einu en áður var.

En í hverju felast erfðaprófin?
Erfðaprófin ganga út á að ákveða kynbótagildi einstaklinganna, varðandi alla eiginleika í ræktunarmarkmiði stofnsins. Með því að kortleggja samhengi 54.000 erfðamarka á litningum og kynbótaeinkunna reyndra nauta, er hægt að finna út kynbótagildi þeirra. Til þess að framkvæma prófið þarf einungis blóðprufu eða vefsýni, eins og gildir um önnur DNA próf. Þetta gerir semsé mögulegt að finna út kynbótagildi gripa, óháð kyni og aldri. Prófin, sem eru enn í þróun, eru afurð umfangsmikillar, norrænnar samvinnu; Aarhus Universitet, Det Jordbrugsvidenskablige Fakultet við Danmarks Jordbrugsforskning á Foulum í Danmörku og nautgriparæktarfélaganna í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku.


Með þessum prófum er hægt að kveðja hugtök á borð við ungnaut, biðnaut og reynd naut, í framtíðinni verða bestu nautin – óháð aldri – verða notuð. Þar munu yngstu nautin að öllu öðru jöfnu standa sterkast að vígi.


Nú eru erfðaprófuð naut af SDM-Dansk Holstein stofni í boði, en í byrjun næsta árs verður hægt að fá sæði úr erfðaprófuðum nautum af Jersey og RDM.


Eins og Jan Duicwaider, kúabóndi og stjórnarmaður í Dansk kvæg, bendir á í fréttabréfinu þá hafa hér opnast ótrúlegir möguleikar. Jafnframt er þetta enn ein staðfesting á því hversu geysilega öflugt nautgriparæktarstarfið á Norðurlöndunum er.


Fréttabréf Dansk kvæg í heild sinni.
 
www.naut.is / BHB
 


back to top