Skaftárhlaup eyðileggur

Ljóst er af myndum sem teknar hafa verið að Skaftárhlaupið hefur valdið miklum skaða á gróðurlendi en fulltrúar Landgræðslunnar hafa verið á svæðinu undanfarið að meta skemmdir síðasta flóðs. Skaftá ber með sér ógrynni af jökulleir og sandi. Þegar áin flæðir yfir bakka sína situr eftir mikið magn framburðarefna sem kaffærir gróður. Síðan fýkur af þessum svæðum á aðliggjandi gróðurlendi og sverfur gróður og kaffærir stundum varanlega.

Síðan Skaftárhlaup hófust fyrir u.þ.b. hálfri öld hafa þúsundir hektara gróins lands orðið sandinum og jökulleirnum að bráð, inn á fjöllum og í byggð, einkum í Eldhrauni á Út Síðu. Melgresi nemur þó land í Eldhrauni, en það er friðað fyrir beit.


Landgræðslan hefur að undanförnu unnið að heildarúttekt á þessum vanda að beiðni umhverfisráðuneytisins og verður skýrsla þar að lútandi birt fljótlega.

Fleiri myndir af Skaftárhlaupinu í október má sjá á vef Landgræðslunnar


back to top