Alíslenskt heilhveiti frá Þorvaldseyri

Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, kynnir í dag alíslenskt heilhveiti sem hann hefur ræktað. Ólafur nýtir jarðvarma til að rækta vetrarhveitið. Hann kynnir heilhveitið í heilsubúðinni „Góð heilsa gulli betri“ og býður upp á nýbakað brauð og vöfflur úr hveitinu.

Allt frá árinu 1960 hafa tilraunir með kornrækt verið stundaðar á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Kornrækt er á 45 hekturum á Þorvaldseyri, en þar af hveiti á 5 hekturum lands. Sáð var í lok júlí á liðnu ári, en um er að ræða sérstakt hveiti sem þolir veturinn. Uppskorið var síðastliðinn október, en eftir að hveitið er þreskt er það þurrkað með heitu vatni úr hver á bóndabænum sjálfum.

Loks er kornið hreinsað og malað með sérstakri steinkvörn. Þessi sjálfbæra ræktun hefur gengið mjög vel en auk heilhveitis er einnig framleitt byggmjöl. Hveitinu er svo pakkað í 2 kg umbúðir og er selt á aðeins 750 krónur hver pakki.


back to top