Stuðningsyfirlýsing frá norrænum bændasamtökum

Bændasamtökum Íslands hefur borist stuðningsyfirlýsing frá norrænum systurhreyfingum þess. Í yfirlýsingunni lýsa bændasamtök Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands og Noregs sérstakri samstöðu með íslensku bændastéttinni í þeim erfiðu efnahagsaðstæðum sem nú eru uppi í íslensku þjóðfélagi. Í yfirlýsingunni skora formenn norrænu bændasamtakanna á íslensk stjórnvöld að tryggja framtíð íslensks landbúnaðar með öllum ráðum.

Bent er á mikilvægi íslensks landbúnaðar til að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar og þá staðreynd að innlend landbúnaðarframleiðsla sé afar mikilvægur þáttur í þeirri uppbyggingu sem óhjákvæmileg er í íslensku samfélagi. Til að svo megi verða þurfi að tryggja greininni fjármagn og stöðugt rekstrarumhverfi til framtíðar, segir í yfirlýsingunni.



Yfirlýsing norrænu bændasamtakanna:


Staða íslenskra bænda
Stéttarsystkin íslenskra bænda í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi hafa fylgst náið með framvindu efnahagsniðursveiflunnar sem orðin er á Íslandi. Við sjáum að áhrifin bitna á öllu samfélaginu og að erfiðir tímar eru framundan.


Við viljum því lýsa yfir sérstakri samstöðu með íslenskum bændum og leggjum áherslu á hið nána og góða samstarf sem að við eigum innan miðstjórnar norrænu bændasamtakanna, NBC. Á erfiðum tímum er samstaða sérstaklega mikilvæg til að unnt sé að hafa nauðsynleg áhrif á stjórnvöld, þannig að baráttan skili sem mestum árangri. Við viljum einkum benda á eftirfarandi atriði sem við teljum nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld leggi áherslu á:


Við þær aðstæður sem nú ríkja hefur það úrslitaþýðingu að tryggja íslenskum bændum nauðsynlegt tímabundið rekstrarfé en einnig þarf að tryggja langtíma fjármögnun svo hægt sé að halda uppi matvælaframleiðslu og að eigin búvöruframleiðsla Íslendinga, sem er takmörkuð fyrir, skerðist hvorki né skaðist.
Undirstrika þarf nauðsyn þess að íslenskir bændur geti haldið uppi framleiðslu til að tryggja atvinnusköpun í mikilvægum hluta atvinnulífsins sem verður að halda gangandi óháð sveiflum í efnahagslífinu. Íslenski bóndinn og innlend matvælaframleiðsla geta gegnt mikilvægu hlutverki fyrir íslenskt samfélag í því uppbyggingarstarfi sem framundan er.
Við skorum á íslensku ríkisstjórnina að skapa traustar aðstæður til framtíðar fyrir bændur og landbúnaðinn sem tryggi matvælaöryggi þjóðarinnar. Greinin verður að fá nægjanlegt fjármagn til að komast í gegnum yfirstandandi kreppu.
Norrænir bændur vonast til að íslenska ríkisstjórnin fylgi tilmælum okkar og sjái til þess að Ísland eigi traustan og lifandi landbúnað í framtíðinni. Landbúnaðurinn er mikilvægur og órjúfanlegur þáttur sameiginlegrar norrænnar landbúnaðararfleifðar og hefðar.


 Með kveðju,


 F.h. Landbrugsraadet, Peter Gæmelke
(dönsku bændasamtökin)
 
F.h. MTK, Michael Hornborg
(finnsku bændasamtökin)


F.h. LRF, Lars-Göran Petterson Pål Haugstad
(sænsku bændasamtökin) 


F.h Norges Bondelag, Pål Haugstad
(norsku bændasamtökin)


F.h SLC, Holger Falck
(samtök sænskumælandi bænda í Finnlandi)


back to top