Olil og Bergur byggja reiðhöll

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa ráðist í byggingu reiðhallar. Framkvæmdir við grunn eru þegar hafnar. Húsið er frá Límtré og er 20×50 metrar að flatarmáli.

Olil og Bergur segja að skilyrði í hrossabúskapnum séu góð. Mikil sala sé í hrossum til útlanda. Aðstæður á byggingarmarkaði séu einnig orðnar hagstæðari og því ekki eftir neinu að bíða.

„Þetta hefur alltaf verið draumur hjá mér,“ segir Olil. „Mörgum þykir sjálfssagt að tamingafólk vinni úti alla daga ársins í hvaða veðri sem er. Það er úreltur hugsunarháttur og engan rétt á sér. Reiðhöll er einfaldlega sjálfssagður og nauðsynlegur hlutur við tamningu og þjálfun hrossa. Ekki síst hér á Íslandi.“


Bergur tekur í sama streng og segir að það verði mikil umskipti á vinnuaðstöðu að fá reiðhöllina. Framleiðsla sé þegar hafin hjá Límtré og stefnt sé að því að höllin verði tilbúin til notkunar í vetur. Það fari að sjálfssögðu eftir tíðarfarinu hvenær byggingunni verði lokið.


back to top