Riða komin upp í Álftagerði í Skagafirði

Riða hefur fundist á bænum Álftagerði í Skagafirði og ljóst er að skera þarf niður allan fjárstofninn á bænum, ríflega fjögur hundruð fjár. Gísli Pétursson bóndi í Álftagerði segir þetta mikið áfall. „Við fórum að taka eftir óeðlilegri hegðun í nokkrum kindum þegar við fórum að hýsa núna í haust. Það hafa verið ríflega tíu tvævetlur sem að voru að haga sér óeðlilega og við kölluðum auðvitað bara á dýralækni. Hann tók sýni úr þeim sem var sent í ræktun. Niðurstaðan kom í gær og var með þessum hætti, því miður.“

Gísli segir að enn sé ekki ákveðið hvenær verður hafist handa við niðurskurð. Yfirdýralæknir og héraðsdýralæknir muni koma til fundar við þau og ákvörðunin verði tekin í framhaldi af því. Ekki má taka fé í Álftagerði næstu tvö ár en Gísli segir að stefnan sé sú að hefja aftur búskap að þeim tíma liðnum. „Eins og staðan er í dag held ég að það verði lendingin. Það þýðir ekkert að leggja árar í bát og gefast upp á þessu. Tjónið er auðvitað tilfinnanlegt enda maður búinn að standa í þessari ræktun á undnaförnum árum. Næst á dagskrá er bara að takast á við þessi verkefni sem framundna eru, skera stofninn og þrífa húsin. Svo verður maður bara að vona það besta.“


back to top