Ný Nautastöð á Hesti verður vígð á morgun
Ný Nautastöð Bændasamtaka Íslands verður vígð þriðjudaginn 10. febrúar að Hesti í Borgarfirði. Húsið verður opið bændum og öllu áhugafólki um íslenska nautgriparækt á milli kl. 13 og 17. Klukkan 14:00 fer vígslan fram auk þess sem boðið verður upp á tónlistaratriði, fyrirlestra og að sjálfsögðu veitingar.
Landbúnarráðherra hefur áhyggjur af stöðu bænda
Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra landbánaðarmála, óttast að margir bændur þurfi að bregða búi vegna fjárhagserfiðleika. Hann mun á næstunni ræða við bændaforystuna um möguleg úrræði.
Ráðherrann segist ekki aðeins hafa áhyggjur af stöðu kúabænda, heldur bændastéttinni í heild.
Ekki hagur ESB að þurrka út landbúnaðinn
Innganga í ESB er ekki gerð til fimm heldur 50 ára í hið minnsta. Þið verðið því að komast af til lengri tíma hvað efnahagsmál og matvælabirgðir varðar. Þegar Finnar gengu í ESB var það markmið stjórnvalda að finna lausn til að styrkur finnsks landbúnaðar yrði tryggður við inngönguna. Hefði það ekki verið gert værum við nú illa stödd sem landbúnaðarsamfélag,“ sagði Pekka Pesonen, finnskur framkvæmdastjóri evrópsku bændasamtakanna COPA-Cogeca á hádegisfundi Samfylkingarinnar í gær.
Hvað kostar að týna nótu?
Umhirðu um nótur þarf að vanda, því það er dýrt að týna nótu. Kostnaður við að týna nótu í einstaklingsrekstri er um 50% af upphæð nótunnar, að teknu tilliti til tapaðs innskatts, tekjuskatts og útsvars. Ef nóta fyrir keyptum búaðföngum upp á 25.000 kr. tapast er raunverulegur kostnaður búsins til viðbótar af þessum búaðföngum ekki aðeins virðisaukaskattsupphæðin, 4.920 kr. eins og sumir gætu haldið, heldur 12.426 kr. auk 25.000 kallsins sem greiddur var í upphafi. Nóta sem ekki kemur til frádráttar í búrekstrinum virkar einfaldlega sem tekjuaukning bóndans sem greiða þarf skatta af. Góð umhirða um nótur búsins er því peningur beint í vasann!
Nýr starfsmaður á BSSL
Nýr starfsmaður hefur verið ráðinn í fjármálaráðgjöf BSSL í samvinnu við Bændasamtök Íslands. Um tímabundna ráðningu er að ræða til eins árs í fæðingarorlofi Margrétar Ingjaldsdóttur. Nýi starfsmaðurinn heitir Eggert Þröstur Þórarinsson og er ættaður frá Hraungerði í Álftaveri.
Skynsamlegt að vera með tveggja mánaða vsk.-skil
Endurgreiddur virðisaukaskattur er ekki lottóvinningur! Fáir þú endurgreiddan virðisaukaskatt aftur og aftur er afar líklegt að verulegt tap sé búinu því það þýðir einfaldlega að innskatturinn er meiri en útskatturinn, þ.e. útgjöldin meiri en tekjurnar. Það er hvoru tveggja bæði afar óheppilegt og afar óeðlilegt í hvaða rekstri sem er.
Ríkissjórn Íslands er fallin
Á fréttamannafundi um kl. 13 í dag tilkynnit Geir H. Haarde forsætisráðherra á ríkissjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar væri fallin. Hann mun síðar í dag ganga á fund forseta Íslands og biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.
Jaðarkot en ekki Jaðar
Í nýútkomnu fréttabréfi BSSL (1.tbl. 2009) var ranglega sagt að Sigmar Aðalsteinsson byggi á Jaðri í Flóahreppi. Hið rétta er að hann býr í Jaðarkoti. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum. Eftir sem áður tekur hann á móti pöntunum um klaufsnyrtingu í síma 696-8653. Sömuleiðis tekur félagi hans og frændi, Þorsteinn Logi Einarsson, á móti pöntunum í síma 867-4104.
Dauðadómar vegna mjólkurhneykslis
Kínverskur dómstóll hefur kveðið upp dauðadóma yfir tveimur mönnum sem fundnir voru sekir í tengslum við mjólkurhneykslið þegar melamínmenguð mjólk fór á markað. Að minnsta kosti sex ungbörn létust og um 300 þúsund veiktust vegna mjólkurblöndunnar.
Millidómstóll alþýðunnar í Shijiazhuang kvað upp dauðadóminn yfir Zhang Yujun í gær. Hann var fundinn sekur um að hafa rekið verksmiðju sem talin er hafa verið helsta uppspretta melamíns í Kína. Melamíni var blandað í mjólk sem skaðaði heilsu margra barna og olli einnig dauðsföllum.
Klaufsnyrting bætir líðan mjólkurkúnna
Búvísindamenn og þeir bændur sem hafa af því reynslu telja góða klaufhirðu mjög mikilvæga fyrir mjólkurkýr. Góð klaufhirða bætir almenna líðan kúnna, eykur nyt og beiðsliseinkenni og þar með frjósemi. Danskar rannsóknir sýna t.d. að góð klaufhirða bæti nyt um allt að 5% og þar í landi telja menn engan vafa leika á fjárhagslegum ávinningi af reglulegri klaufsnyrtingu. Öfugt við það sem menn gætu haldið er ekki minni þörf á klaufsnyrtingum í lausagöngufjósum en í básafjósum. Reglulegar heimsóknir klaufsnyrtingarmanna, t.d. tvisvar á ári ætti að vera regla fremur en undantekning. Aldrei er hægt að taka allar kýrnar í sömu ferðinni, t.d. er ekki sérlega sniðugt að snyrta klaufir á kúm sem komnar eru nálægt burði eða eru enn að jafna sig eftir burð.
Myndir frá nýju nautastöðinni á Hesti
Á vef nautaskráarinnar, www.nautaskra.net, eru komnar myndir frá nýju nautastöðinni á Hesti. Þar er nú unnið að lokafrágangi fyrir flutning sem stefnt er að um miðjan febrúar. Þar með lýkur starfsemi í gömlu stöðinni á Hvanneyri og uppeldisstöðinni í Þorleifskoti.
Mjólk vissulega góð en staðan víða slæm
Hamrað hefur verið á því mörg undangengin ár í auglýsingum að mjólk sé góð og fáir andmæla því. En það kostar sitt að galdra fram þetta hvítagull sveitanna; uppbygging hefur verið töluverð í greininni, margir bændur hafa fjárfest mikið síðustu ár og erfitt ástand í þjóðfélaginu bitnar ekki síður á þeim en öðrum. Nú er svo komið að þriðjungur kúabúa hér á landi er talinn í verulegum fjárhagserfiðleikum. Ekkert bú hefur enn lagt upp laupana og svo virðist sem menn séu nokkuð bjartsýnir á að til þess þurfi ekki að koma á næstunni þrátt fyrir svo slæma fjárhagsstöðu sumra að þau séu í raun mjög nálægt því að komast í þrot.
Nýi Framsóknarflokkurinn vill standa vörð um íslenskan landbúnað
Algjör endurnýjun varð í forystusveit Framsóknarflokksins á flokksþingi hans helgina 16. til 18. janúar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var þar kjörinn nýr formaður flokksins, Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður og Eygló Harðardóttir velti Sæunni Stefánsdóttur úr stól ritara. Fyrir þinginu lá gríðarlegur fjöldi ályktanadraga til samþykktar en mesta athygli hlýtur að vekja samþykkt ályktunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í ályktuninni kemur fram að hefja skuli aðildarviðræður við sambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi og að í þeim samningum skuli hagsmunir almennings og atvinnulífs tryggðir. Sérstaklega er tekið fram að tryggja skuli hagsmuni sjávarútvegs og landbúnaðar.
Framsókn vill sækja um ESB-aðild með skilyrðum
Ályktun um að Ísland eigi að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á flokksþingi Framsóknarflokksins í gær. Áður hafði verið hafnað tillögu um að flokksþingið leggist eindregið gegn öllum hugmyndum um að Ísland gangi í Evrópusambandið.
Framsóknarmenn vilja þó að ýmsum skilyrðum verði fullnægt og það sem helst snýr að landbúnaði er að framsóknarmenn vilja að fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar. Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður. Þá verði framleiðsla og úrvinnsla íslenskra landbúnaðarafurða tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra landbúnaðarstofna.
Starfsmannabreytingar á BSSL
Um áramótin hætti Þorsteinn Ólafsson dýralæknir störfum hjá Búnaðarsambandinu eftir 22 ára starf en hann hefur tekið við af Sigurði Sigurðarsyni sem sérgreinadýralæknir nautgripa- og sauðfjársúkdóma hjá Matvælastofnun. Sömuleiðis hætti Bjarni Böðvarsson fyrir aldurs sakir hjá Kynbótastöðinni en hann hefur starfað þar sem frjótæknir frá árinu 1960. Hermann Árnason fv. sláturhússtjóri SS á Selfossi hefur verið ráðinn í hans stað.
Enn kemur upp riða
Riða hefur enn einu sinni greinst norðanlands, nú á tveimur bæjum. Svo undarlega vill til að báðir heita bæirnir Dæli og er annar í Sæmundarhlíð í Skagafirði en hinn í Skíðadal í Svarfaðardal. Þetta er í sjötta skipti sem riða kemur upp í Skagafirði á fjórum árum. Síðast kom upp riða í Svarfaðardal árið 2003 á bænum Urðum en þar hafði hennar ekki orðið vart í nokkur ár fram til þess tíma.
Bændur á baráttufund á Austurvelli nk. laugardag
Hópur bænda hefur komið sér saman um að mæta á stóra baráttufundinn sem haldinn verður á Austurvelli laugardaginn 10. jan kl. 15:00.
Nú hvetjum við alla bændur, starfsmenn afurðastöðva og allt landsbyggðarfólk að mæta á Austurvöll og sýna samstöðu gegn andvaraleysi ríkistjóranarinnar og spillingu í stjórnkerfinu.
Með baráttukveðju,
Baráttuhópur bænda
Sömu tekjur þó búið sé helmingi stærra
Finnski kornbóndinn Anders Winqvist hefur sömu tekjur og fyrir inngöngu landsins í Evrópusambandið, þrátt fyrir að 70 hektara býli hans sé 50 prósent stærra en fyrir inngönguna. Áður voru 10 bændur í nágrenninu, nú eru þeir aðeins þrír.
Að sögn Winqvist er skýringin einföld. Framlög Evróusambandsins til landbúnaðarins eru svo miklu lægri en opinberu styrkirnir áður að nauðsynlegt var að stækka býlin og helst að tvöfalda framleiðsluna til að fá sömu framlög og áður var.
Bændur sjá ekki ljósið
„Við höfum aldrei séð ljósið fyrir landbúnaðinn,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Samtökin hafi markvisst fylgst með þróun sambandsins og sérstaklega með endurskoðun á landbúnaðarstefnunni, aflað upplýsinga hjá norrænu bændasamtökunum og vegið og metið kostina. Niðurstaða bænda er Nei við ESB.
Fylgst með ferðum jólasveinsins
NORAD, loftvarnareftirlit Bandaríkjanna og Kanada, fylgist með ferðum jólasveinsins í kvöld og nótt með gervitunglum.
Smelltu á lesa meira til að sjá hvar jólasveinninn er staddur núna.