Úrræði vegna erlendra lána

Greiðendur erlendra húsnæðislána gætu séð fram á léttari greiðslubyrði næstu misseri verði ný greiðslujöfnunarleið Íslandsbanka á þessum lánum almenn. Bankinn ætlar strax í næstu viku að opna fyrir umsóknir viðskiptavina sinna um þetta úrræði. Um er að ræða eins konar teygjulán sem taka mið af greiðslubyrðinni eins og hún var 1. maí 2008 og breytast afborganir í samræmi við greiðslujöfnunarvísitölu, en ekki neysluvísitölu.

Haukur Skúlason, sérfræðingur í áhættustýringu hjá bankanum, segir að grunnupphæð afborgana af slíku teygjuláni sé miðuð við 1. maí 2008, enda sé það greiðslubyrði sem flestir ættu að ráða við, hafi aðstæður ekki breyst þeim mun meira hjá þeim síðan. »Þetta er hærri greiðsla en þegar viðkomandi tók lánið en á hinn bóginn hafa afborganir af verðtryggðum innlendum lánum líka hækkað,« segir hann.


Gæti styst í láninu
Í framhaldinu er stuðst við svokallaða greiðslujöfnunarvísitölu sem tekur m.a. mið af atvinnustigi í stað hefðbundinnar neysluvísitölu. Eftir því sem atvinnuleysi eykst breikkar bilið milli greiðslujöfnunarvísitölunnar og neysluvísitölunnar. Í dag munar um 10% á afborgunum eftir því við hvora vísitöluna er miðað en að sögn Hauks er ekki ólíklegt að munurinn muni aukast á næstu mánuðum.


Afborganirnar breytast því samkvæmt ofangreindri vísitölu en mismunurinn á greiðslunni og því sem viðkomandi hefði átt að borga samkvæmt gengistryggða láninu bætist aftan við lánið og lengir þannig í því. Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, segir að þeir gjalddagar sem bætist við lánið verði sömu upphæðar og síðasti áætlaði gjalddagi lánsins.


Birna Einarsdóttir bankastjóri bendir þó á að ekki sé víst að lánið muni lengjast. »Það eru miklar vangaveltur um hver afgangsupphæðin í lok lánstímans verður en við erum að vona að lánið geti allt eins teygst í hina áttina – að gengi krónunnar styrkist það mikið að á einhverjum tímapunkti sé viðkomandi að borga meira en hann hefði verið að gera.«


Haukur útskýrir þetta betur: »Þá saxast á þá uppsöfnuðu fjárhæð sem er frestað að greiða þegar illa árar enda hækkar greiðslubyrði sem miðuð er við greiðslujöfnunarvísitöluna smám saman yfir langan tíma. Það gæti því jafnvel farið svo að viðkomandi losnaði við lánið fyrr en upphaflega var áætlað.«


Í stað almennra frystinga
Aðspurð segir Birna bankann búinn að reikna út hvaða áhrif greiðslujöfnunin hafi á lausafjárstöðu bankans. »Hún hefur verið ágæt þannig að við ráðum vel við þetta. Með þessu erum við að fá inn greiðslur sem við höfum ekki fengið á þeim lánum sem hafa verið í frystingu hjá okkur, og þar með eykst lánageta okkar til annarra.« Una tekur undir þetta. »Aðalhugmyndafræðin er að þetta komi í staðinn fyrir almennar frystingar gengistryggðra lána, sem voru veittar óháð fjárhagsstöðu þeirra sem tóku lánin, eins og gildandi tilmæli ríkisstjórnarinnar kveða á um.« Þær geti aldrei orðið annað en skammtímalausn. Báðar undirstrika þær þó að þessi lausn henti ekki fyrir þá sem verst eru settir, t.a.m. þá sem hafa misst vinnu og þar með tekjur. Fyrir þann hóp verði áfram sértækar lausnir í boði.


Um 17% húsnæðislána Íslandsbanka í erlendri mynt að þeirra sögn og Una tekur fram að margir lántakendanna hafi ekki valið að frysta lán sín heldur greiði af þeim samkvæmt upphaflegri áætlun. Þá segja þau að hægt verði hvenær sem er að snúa aftur yfir í erlendu greiðsluáætlunina og muni þá sá hluti lánsins, sem hefur verið frestað eða jafnvel safnast upp, dreifast yfir á þá gjalddaga sem eftir eru af láninu.


Þau segja sérfræðinga bankans hafa þróað þessa lausn og að bankinn hafi átt í nánu samstarfi við aðrar bankastofnanir sem og við stjórnvöld.Í HNOTSKURN
Afborganir erlendra lána hafa þróast mismunandi eftir stöðu gjaldmiðlanna. Afborganir lána sem tekin voru í svissneskum frönkum og jenum hafa t.a.m. hækkað meira en lán sem voru tekin í pundum, dollurum og evrum.


Undanfarið hafa afborganir erlendra lána lækkað í samræmi við lækkun vaxta ytra. Búast má þó við að vextirnir hækki hratt þegar verðbólga eykst á myntsvæðunum.

Morgunblaðið 6. mars 2009
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur ben@mbl.is


back to top