Bændasamtökin brutu samkeppnislög

Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Bændasamtök Íslands (BÍ) hafi brotið gegn samkeppnislögum með aðgerðum sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum.
Snýr brotið að búvörum sem ekki lúta opinberri verðlagningu skv. búvörulögum, s.s. kjúklingum, eggjum, grænmeti og svínakjöti. Vegna þessa brots er BÍ gert að greiða 10 milljónir króna stjórnvaldssekt og lagt fyrir þau að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að samskonar brot verði endurtekin.

Upphaf málsins má rekja til þess að 7. mars 2008 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Sátt um hækkanir nauðsyn“. Í fréttinni var fjallað um Búnaðarþing ársins 2008 sem þá var nýlokið. Á þinginu hafi komið fram að verðhækkun á matvöru hjá búvöruframleiðendum væri óumflýjanleg. Í kjölfar þessa hóf Samkeppniseftirlitið rannsókn sem lauk með ákvörðun þeirri sem birt er í dag.


Bændasamtök Íslands falla undir samkeppnislög
Í málinu héldu samtökin því fram að aðgerðir þeirra falli ekki undir ákvæði samkeppnislaga og segja samtökin að fráleitt sé að gera þá kröfu að samkeppni ríki milli búvöruframleiðenda. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er fjallað um þessi sjónarmið BÍ.


„Bent er á að búvörur séu annars vegar verðlagðar með aðferðum sem búvörulög mæla fyrir um, þ.e að verð á afurðum þeirra sé ákveðið af opinberri nefnd, verðlagsnefnd búvara.


Hins vegar eru aðrar búvörur verðlagðar utan verðlagningarkerfis búvörulaga, en þá eiga samkeppnislög að öllu leyti við. Verðlagning á mikilvægum búvörum eins og kjúklingum, eggjum, grænmeti og svínakjöti er frjáls og heyrir því alfarið undir ákvæði samkeppnislaga.


Í þessum tilvikum er samkeppni ætlað að vernda hagsmuni neytenda og stuðla að sanngjörnu verði. Er gert ráð fyrir þessu bæði í búvörulögum og samkeppnislögum.


Framleiðendur á þessum búvörum, sem sumir hverjir eiga í öflugum vinnslu- og dreifingarfyrirtækjum búvara, falla því eins og önnur íslensk fyrirtæki undir bann samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði. Hið sama gildir um samtök þeirra, BÍ. Framangreind túlkun á samkeppnislögum hefur verið staðfest, t.d. í svonefndu grænmetismáli frá 2001 sem varðaði m.a. ólögmætt samráð grænmetisframleiðenda,“ að því er segir á vef Samkeppniseftirlitsins.


Brot tengd matvörumarkaði mikið áhyggjuefni
Að mati Samkeppniseftirlitsins eru endurtekin brot samtaka fyrirtækja sem tengjast matvörumarkaði eftirlitinu mikið áhyggjuefni. Í febrúar 2008 lagði Samkeppniseftirlitið sektir á Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu vegna aðgerða sem stuðluðu að verðsamráði á matvöru. Um miðjan síðasta mánuð voru lagðar sektir á Félag íslenskra stórkaupmanna vegna m.a. umræðu um þörf á hækkun á verði matvæla.  Samkeppniseftirlitið mun taka af festu á öllum frekari brotum samtaka fyrirtækja af þessu tagi, að því er segir á vef Samkeppniseftirlitsins.


Sjá nánar á vef Samkeppniseftirlitsins


back to top