HÍ og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hugsanlega sameinaðir

Til greina kemur að sameina Háskóla Íslands og Landbúnaðarskólann á Hvanneyri. Þetta kemur fram í bréfi sem menntamálaráðuneytið sendi stjórnendum skólanna um miðjan febrúar.
Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við HÍ, segir að í bréfinu sé óskað eftir því að báðir skólar skoði fýsileika þess að sameina Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. „Okkur finnst áhugavert að skoða þetta betur, en það á eftir að fara yfir málið,“ segir Jón Atli. Hann bendir á að sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands hafi lokið á síðasta ári og það yrði væntanlega notuð svipuð aðferðarfræði við þessa sameiningu. Jón Atli segir að samkvæmt ósk menntamálaráðuneytis verði skipaður hópur sem muni skoða hvort sameiningin sé æskileg. Sá hópur skili af sér í mars.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að hugmyndin um sameiningu hafi vissulega komið til tals. Hún segist hins vegar ekkert vilja gera í málinu á yfirstandandi þingi og ekki fyrr en hún sé búin að kynna sér málið til hlítar og ræða við aðila beggja skóla. Verði stjórnendur og starfsfólk beggja skólanna ánægðir með hugmyndina að þá sé hún tilbúin til að skoða sameiningu. „En ég hef hvorki tekið afstöðu með eða móti,“ segir Katrín.


Aðspurð segir Katrín að það sé ekki krafa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að fækka skólum. Það sé hins vegar krafa um sparnað. „Og við verðum að spyrja okkur hvar við viljum að sparnaðurinn komi niður. Á hann að koma niður á gæðum náms og kennslu? Á hann að koma niður á rannsóknum eða er hægt að spara í yfirstjórn?“ Katrín ítrekar hins vegar að ekkert verði gert í að fækka skólum nema að baki liggi fagleg vinna.


back to top