Skýrsluhald í hrossarækt rafrænt og pappírslaust

Athygli skýrsluhaldara á Íslandi er vakin á því að í haust var ákveðið að senda ekki skýrsluhald í hrossarækt á pappír og pósti eins og verið hefur. Skref í átt að þessu var stigið hálfa leið á síðasta ári og núna til fulls. Í heimaréttinni undir „Skýrsluhald“ má finna upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig skuli gengið frá skýrsluhaldinu með rafrænum hætti.

Hróður Mókollu berst út fyrir landsteinana

Mókolla 230 frá Kirkjulæk í Fljótshlíð er orðin þekkt utan landsteinanna en eins og við sögðum frá fyrir skömmu sló hún Íslandsmetið í æviafurðum í nóvember s.l. Þá hafði hún mjólkað 111.354 kg á 14 árum og er enn að. Hún bætir því metið með hverjum degi sem líður.
Á bandaríska fréttavefnum UPI er fjallað um afrek Mókollu og m.a. sagt frá farsælli ævi Mókollu og því að hún er fædd 7. apríl 1996 og því á sínum 17. vetri.

Fóðurblandan hækkar verð á kjarnfóðri um 1-4%

Fóðurblandan hefur tilkynnt um hækkun á kjarnfóðri um 1-4% sem taka mun gildi mánudaginn 17. desember n.k. Hækkunin er misjöfn eftir tegundum. Í tilkynningu frá Fóðurblöndunni segir að ástæðan hækkunarinnar sé hækkun á verði aðfanga á erlendum hráefnamörkuðum og veiking íslensku krónunnar.

Meðalnytin nánast sú sama og í október

Búið er að birta niðurstöður afurðaskýrslna nautgriparæktinnar við lok nóvemer 2012. Þegar yfirlitið var búið til, á miðnætti hinn 11. desember, höfðu borist skýrslur frá 94% þeirra 594 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið.
Niðurstöðurnar eru þær helstar að 21.949,1 árskýr mjólkaði að meðaltali 5.628 kg sl. 12 mánuði, sem er 10 kg lægri nyt en reiknaðist í síðasta uppgjöri.

Mókolla 230 setur nýtt Íslandsmet í æviafurðum

Mókolla 230 á Kirkjulæk í Fljótshlíð hefur nú slegið Íslandsmet Hrafnhettu 153 í Hólmum í A-Landeyjum. Mókolla sem enn er að hafði nú í lok nóvember mjólkað samtals 111.354 kg mjólkur eða 151 kg meira en Hrafnhetta gerði á sínum tíma.
Mókolla 230 hefur verið ákaflega farsæl kýr, hún er fædd 7. apríl 1996, dóttir Snarfara 93018, og er því á sínum 17. vetri. Langlífið og afurðirnar á Mókolla því kannski ekki langt að sækja því amma hennar, Snegla 231 í Hjálmholti, móðir Snarfara, varð 17 vetra og mjólkaði samtals 100.736 kg á sinni ævi.

Búnaðarþing 2013

Nú styttist óðum í að búnaðarþingsfulltrúar okkar Sunnlendinga þurfa að skila inn málum fyrir næsta búnaðarþing. Nú er lag að heyra frá grasrótinni ef þið hafið mál sem þið viljið að tekin verða upp á þeim vetvangi. Vinsamlegast sendið erindi fyrir lok desember á skrifstofu BSSL að Austurvegi 1 á Selfossi eða á netfangið bssl@bssl.is merkt „Búnaðarþing 2013“. Einnig er velkomið að hafa samband við einhvern af fulltrúunum.

Breytingar á stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi

Þórir Jónsson formaður Félags kúabænda á Suðurlandi hefur látið af störfum  sem formaður félagsins af heilsufarsástæðum. Ritari félagsins og varaformaður, Samúel U. Eyjólfsson í Bryðjuholti, mun gegna störfum formanns fram að aðalfundi félagsins sem haldinn verður væntanlega í lok janúar nk. en þá verður  kosinn nýr formaður.

Lífland hækkar verð á kjarnfóðri um 1,5-4%

Lífland hefur tilkynnt um hækkun á kjarnfóðri sem taka mun gildi á morgun, 4. desember 2012. Hækkunin er á bilinu 1,5-4%, mismunandi eftir tegundum. Ástæða hækkunarinnar er samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins hækkun á verði nokkurra helstu hrávara og að íslenska krónan hafi veikst nokkuð á sama tíma.

Landsmarkaskrá komin á vefinn

Landsmarkaskrá er kominn á vefinn á slóðinni www.landsmarkaskra.is. Hún inniheldur um 14.700 mörk að frostmörkum meðtöldum. Auk markanna er ýmiss konar annar fróðleikur í skránni varðandi fjallskil og notkun marka, þar með um liti plötumerkja að ógleymdum öllum bæjarnúmerum í landinu.
Óhætt er að hrósa þessu löngu tímabæra framtaki því nú á tímum snjallsíma og spjaldtölva eru menn nettengdir nánast hvar sem og er og af hverju ekki í réttum þar sem ekki hvað síst er flett upp á mörkum.

Litir á eyrnamerkjum sauðfjár og geita breytast um næstu áramót

Um næstu áramót ganga í gildi nýjar reglur um litamerkingar sauðfjár og geita sem rétt er að menn hafi í huga. Þetta mun snerta sauðfjárbændur hér á Suðurlandi verulega en litir eyrnamerkja hér munu taka verulegum breytingum.

– Í Húnahólfi verður notaður gulur litur, var áður brúnn.
– Í Suðausturlandshólfi austan Hornafjarðarfljóts verður notaður gulur litur, var áður blár.
– Í Eyjafjalla- og Vestur-Skaftafellssýsluhólfi verður hvítur litur milli Markarfljóts og Jökulsár á Sólheimasandi, var áður grænn.
– Í Grímsnes- og Laugardalshólfi verður fjólublár litur var áður blár.
– Í Biskupstungnahólfi verður grænn litur var áður blár.
– Syðst í Norðausturlandshólfi í Jökulsárhlíð og Jökuldal norðan Jökulsár að undanskildum Möðrudal verður gulur litur, en þar var fjólublár litur.

Hugið að aldri og skráningu nautgripa fyrir slátrun

Matvælastofnun hefur birt á heimasíðu sinni ábendingu til bænda um að gæta að aldursmörkum nautgripa varðandi kjötmat. Einkum á þetta við um ungneytakjöt, þ.e. af nautum, uxum og kvígum á aldrinum 12-30 mánaða, en einnig um kýr.
Í ábendingunni er minnt á að samkvæmt kjötmatsreglugerðinni (nr. 882/2010) flokkast naut og uxar, eldri en 30 mánaða, sem bolakjöt (merktir Vinnslukjöt N) og kvígur sem kýr (KI U: vel holdfylltir skrokkar af 30-48 mánaða gömlum kúm eða í K-flokka eftir holdfyllingu og fitu).

Opið hús hjá Fóðurblöndunni

Fóðurblandan verður með opið hús í verslunum sínum á Selfossi miðvikudaginn 28 nóvember og Hvolsvelli fimmtudaginn 29 nóvember. Opið verður til 21:30 báða dagana og boðið verður upp á léttar veitingar og skemmtilega stund.
Meðal annars munu Chris King sérfræðingur í landbúnaðarvörum frá Rumenco og Nettex og Erlendur Jóhannsson fóðurfræðingur Fóðurblöndunnar veita fóðurráðgjöf. Bændur eru hvattir til að hafa niðurstöður heysýna meðferðis.

Neytendasamtökin sökuð um að brjóta trúnað

Neytendasamtökin voru sökuð um að brjóta trúnað á Alþingi í dag en þau birtu í gær frétt um að fulltrúar bænda hefðu gengið út af fundi starfshóps sem er að móta samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðum við ESB um landbúnaðarmál. Neytendasamtökin hafa sent frá yfirlýsingu vegna þessa þar sem segir:„Neytendasamtökin rufu ekki trúnað því frétt þessa efnis birtist á vef Evrópuvaktarinnar nú á þriðjudaginn og því voru þessi mótmæli þegar orðin opinber. Alþingismenn verða að kynna sér málin betur áður en þeir fara fram með tilhæfulausar ásakanir.“

Breytingar á sauðfjársamningi samþykktar af sauðfjárbændum

Tilkynnt hefur verið um niðurstöður í almennri kosningu meðal sauðfjárbænda um breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar. Á kjörskrá voru 2.755, greidd atkvæði voru 891 og var þátttaka í atkvæðagreiðslunni því 32,3%. Atkvæði féllu þannig: Já sögðu 812, eða 91,1%. Nei sögðu 60, eða 6,7%. Auðir seðlar voru 19, eða 2,1%.

Breytingar á mjólkursamningi samþykktar af kúabændum

Tilkynnt hefur verið um niðurstöður í almennri kosningu meðal kúabænda um breytingar á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Á kjörskrá voru 1.229, greidd atkvæði voru 443 og var þátttaka í atkvæðagreiðslunni því 36%. Atkvæði féllu þannig: Já sögðu 386, eða 87,1%. Nei sögðu 49, eða 11,1%. Auðir seðlar voru 8, eða 1,8%.

Ullarskráning opin á ný

Ístex hefur opnað fyrir ullarskráningu á vef sínum að nýju. Fyrirtækið biður bændur velvirðingar á því að ekki hafi verið hægt að skrá ullarinnlegg á vef fyrirtækisins. Ástæðan er m.a. að ekki hafa náðst samningar við Bændasamtökin um óbreytt fyrirkomulag á ullarsöfnun. Þá er einnig ljóst að breytingar verða á fyrirkomulagi ullarniðurgreiðslna sem mun leiða til breytingar á uppgjöri vegna ullarviðskipta.

Fulltrúar bænda gengu út af fundi starfshópsins

Nýlega gengu fulltrúar bænda út af fundi starfshóps sem er að móta samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðum við ESB um landbúnaðarmál. Ástæðan er sú að formaður starfshópsins upplýsti að í samningsafstöðu Íslands verði ekki krafist áframhaldandi tollverndar fyrir landbúnaðarvörur frá ESB-löndum. Þetta kemur fram í frétt á vef Neytendasamtakanna.
„Það er öllum ljóst sem hafa tekið hafa þátt í þessari vinnu að krafa um áframhaldandi tollvernd landbúnaðarvara er með öllu óraunhæf. Finnar settu þetta inn í kröfugerð á sínum tíma en ekki kom til greina af hálfu ESB að fallast á þá kröfu þar sem hún gengur gegn grundvallarhugmyndum um tollabandalag ESB. Finnum var hinsvegar heimilað að styrkja landbúnað sem stundaður er norðan 62. breiddargráðu með eigin framlögum, auk stuðnings úr landbúnaðarsjóði ESB. Minnt er á að Ísland liggur allt norðan þessarar breiddargráðu,“ segir í fréttinni.

Fundur um korn og repjurækt föstudaginn 23. nóv. nk.

Kornræktarfélag Suðurlands boðar til fundar um korn og repjurækt föstudaginn 23. nóvember n.k. kl.13.30 á Hótel Hvolsvelli. Á fundinum mun Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri hjá LbhÍ, fjalla um korn og repjurækt á Suðurlandi, Ólafur Reykdal, verkefnastjóri hjá Matís, ræðir um gæði matkorns og Yngvi Eiríksson, rekstrarverkfræðingur hjá Verkfræðistofunni Mannvit, segir frá hagkvæmnisathugun á þurrkstöð fyrir korn á Suðurlandi.

Haustfundir sauðfjárræktarinnar á morgun og fimmtudag

Við minnum á hina árlegu haustfundi sauðfjárræktarinnar sem verða haldnir á morgun og fimmtudaginn, 21. og 22. nóvember nk. Á morgun verður fundað á á Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit kl. 13:30 og Hótel Kirkjubæjarklaustri kl. 20:00 .
Fimmtudaginn 22. nóvember verður svo fundað á Hótel Hvolsvelli kl. 14:30 og í félagsheimilinu Þingborg kl. 20:00.
Á fundunum verður farið yfir hauststörfin, hrútakostur Sauðfjársæðingastöðvar Suðurlands kynntur og farið yfir starfsemi stöðvarinnar. Endað verður á verðlaunaveitingum hrúta eftir kaffihlé.

Fræðslufundum um frjósemi og ræktun frestað

Því miður varð að fresta fræðslufundum um frjósemi og ræktun nautgripa sem vera áttu í gær á Klaustri og Hornafirði. Það sama er uppi á teningnum með fundinn sem vera átti á Hvolsvelli í dag. Nýr fundartími verður auglýstur síðar.

back to top