Meðalnytin nánast sú sama og í október

Búið er að birta niðurstöður afurðaskýrslna nautgriparæktinnar við lok nóvemer 2012. Þegar yfirlitið var búið til, á miðnætti hinn 11. desember, höfðu borist skýrslur frá 94% þeirra 594 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið.
Niðurstöðurnar eru þær helstar að 21.949,1 árskýr mjólkaði að meðaltali 5.628 kg sl. 12 mánuði, sem er 10 kg lægri nyt en reiknaðist í síðasta uppgjöri.

Hæsta meðalnytin á því 12 mánaða tímabili sem lauk um síðustu mánaðamót, var á búi Guðmundar og Svanborgar í Miðdal í Kjós, 7.977 kg á árskú og er það sama búið og var efst á listanum tvo síðastliðna mánuði. Næst á eftir kom bú Jóns og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði, þar reiknaðist meðalnytin 7.911 kg eftir árskú. Búið á Hóli var einnig nr. tvö í röðinni við lok síðasta mánaðar. Þriðja búið í röðinni var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal en meðalnytin þar reiknaðist 7.559 kg á árskú.


Á 20 búum fór meðalnytin í 7.000 kg eftir árskú og þar yfir og á 19 búum við uppgjörið í lok mánaðarins á undan.


Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Blúnda nr. 335 í Leirulækjarseli á Mýrum í Borgarbyggð, en hún mjólkaði 13.297 kg. og var einnig í fyrsta sæti í síðasta mánuði og í öðru sæti á uppgjörinu þar á undan. Önnur nythæsta kýrin við lok nóvember var Urður nr. 1229 á Hvanneyri í Borgarfirði og mjólkaði hún 13.059 kg á tímabilinu og var einnig í öðru sæti fyrir mánuði síðan. Hin þriðja á listanum í nóvemberlok 2012 var Marlyn nr. 579 í Hólmi í Austur-Landeyjum. Alls náðu 11 skýrslufærðar kýr að fara yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum en 14 í uppgjörinu við lok október. Af þessum 11 mjólkuðu 4 yfir 12.000 kg og tvær yfir 13.000 kg.


Sjá nánar:
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar 


back to top