Verð á rafmagni hækkar í dreifbýli

RARIK hækkaði verðskrá sína fyrir dreifingu og flutning raforku í dreifbýli um 8% nú um áramótin, áður en tekið er tillit til dreifbýlisframlags. Verðskrá í þéttbýli verður hins vegar óbreytt fyrir alla almenna notkun. Fastagjald fyrir ótryggða orku hækkar bæði í þéttbýli og dreifbýli í samræmi við aukinn tilkostnað vegna viðskiptavina sem nýta ótryggða orku. Þá hækka þjónustugjöld um 5%.
Ef ekki verður breyting á dreifbýlisframlagi á fjárlögum fyrir árið 2013 munu greiðslur viðskiptavina í dreifbýli hækka heldur meira en sem nemur hækkun RARIK.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir jafnframt að RARIK hafi að mestu nýtt sér tekjuheimildir í þéttbýli, en vegna mikils verðmunar á milli dreifbýlis og þéttbýlis, sem ekki hefur verið jafnaður eins og lög heimila, hefur fyrirtækið haldið aftur af gjaldskrárhækkunum í dreifbýli á undanförnum árum.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að RARIK muni á næstu árum þurfa að hækka gjaldskrá í dreifbýli umfram verðlag, ef fyrirtækið á að geta sinnt nauðsynlegri endurnýjun dreifikerfisins, en áætlanir RARIK gera ráð fyrir að henni verði lokið árið 2035. Þess má geta að dreifikerfi RARIK í dreifbýli er 10-20 sinnum stærra að umfangi en dreifikerfi í þéttbýli, þrátt fyrir að um það fari heldur minna orkumagn, en flutnings- og dreifikostnaður fyrir venjulegt heimili í dreifbýli var á árinu 2012 um 40% hærri en í þéttbýli. Gera má ráð fyrir að þessi munur aukist á næstu árum, en það ræðst af því hve miklum fjármunum verður varið á fjárlögum í niðurgreiðslur til húshitunar og til verðjöfnunar milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Sjá nánar:
Verðskrá fyrir dreifingu og flutning raforku (nr. 18 – útg. 01.01.13)


back to top