Landbúnaðarstofnun fær á sig stjórnsýslukæru
Á aðalfundi LK árið 2006 var samþykkt ályktun þess efnis að skora á Landbúnaðarstofnun „að birta ætið upplýsingar um þær áburðar- og fóðurtegundir sem ekki standast kröfur hennar og upplýsa hvernig þeim er ráðstafað“. Tillögunni fylgdi greinargerð þar sem vísað var til þess að á heimasíðu Aðfangaeftirlitsins kæmi fram að 8 af 31 sýni sem tekin voru 2004 stæðust ekki kröfur sem og 10 af 45 sýnum sem tekin voru árið 2005. Engar frekari upplýsingnar komu fram um hvaða áburðartegundir þetta væru eða frá hvaða innflutningsaðilum.
Aðalfundur BSSL 2006 tók undir tillögu LK nokkrum dögum síðar var tillagan samþykkt samhljóða á báðum stöðum.
Stór dagur fyrir Rangæinga
Sigurður Karlsson og Árni Jóhannsson, upphafsmenn hestamannafélagsins Geysis, tóku fyrstu skóflustunguna að reiðhöll á Gaddstaðaflötum. Ef allt gengur eftir verður ein stærsta reiðhöll landsins vígð þar næsta sumar.
Eignarhald á jörðum
Birkir J. Jónsson, alþm., hefur lagt fram eftirfarandi fyrirspurn á Alþingi til landbúnaðarráðherra um eignarhald á jörðum:
Úrslit í ljósmyndakeppni BSSL og TRS 2007
Í dag voru afhent verðlaun fyrir bestu ljósmyndirnar í ljósmyndakeppni BSSL og TRS 2007. Fyrstu verðlaun hlaut Jóhanna S. Hannesdóttir í Stóru-Sandvík fyrir myndina „Skuggaleg Skjalda“. Í öðru sæti lenti Magnús Hlynur Hreiðarsson á Selfossi og í þriðja sæti Jónas Erlendsson í Fagradal.
Stærsti skrokkur í sögu Norðlenska
Í fyrradag var felld kýr úr Hleiðargarði í Eyjafjarðarsveit í sláturhúsi Norðlenska á Akureyri, sem ekki er í frásögur færandi nema fyrir það að skrokkurinn reyndist vera sá þyngsti sem sögur fara af hjá Norðlenska – hvorki meira né minna en 526 kg! Þegar skrokkurinn var færður á vigtina í Norðlenska í gær þurftu menn að nudda augun til þess að fullvissa sig um að talan væri rétt. En ekki var um að villast – vel yfir hálft tonn!
Nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands
Stjórn Bændasamtaka Íslands hefur ráðið Eirík Blöndal sem framkvæmdastjóra samtakanna frá og með 1. janúar nk. Eiríkur hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Búnaðarsamtaka Vesturlands frá árinu 2001. Sigurgeir Þorgeirsson lætur af starfi framkvæmdastjóra BÍ á sama tíma en hann var nýlega skipaður ráðuneytisstjóri sameinaðs ráðuneytis landbúnaðar og sjávarútvegs.
Barnabók úr sveitinni
Guðjón Ragnar Jónasson kennari og fyrrum bóndi hefur sent frá sér nýja barnabók sem ber nafnið „Með hetjur á heilanum“. Bókin gerist í Fljótshlíðinni þar sem að Guðjón var bóndi um skeið.
Mikill þróttur í sveitunum
Fjölmennur hópur fólks sem búsett er í sveitum Suðurlands og við Húnaflóa hefur undanfarna mánuði verið þátttakendur í verkefninu „Vaxtarsprotum“. Þátttakendur vinna allir að ákveðnum viðfangsefnum sem lúta að atvinnusköpun í sveitum. Um er að ræða fjölbreytt viðfangsefni á sviði iðnaðar, ferðaþjónustu og annarrar þjónustu.
Rannsókn: Bændur fá síður krabbamein
Bændastéttin er mun betur stödd en aðrar stéttir hér á landi hvað varðar krabbamein. Miklu minni líkur eru á því að bændur, bæði karlar og konur, fái krabbamein en karlar og konur í öðrum stéttum.
Ný matvælastofnun – Matvælaeftirlitið
Forsætisráðherra hefur á Alþingi mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að lögum um Landbúnaðarstofnun verði breytt þannig að hún verði að matvælastofnun, sem skv. frumvarpinu heiti Matvælaeftirlitið.
Íslenska kýrin: Sérstakt erfðavísasafn
Hvað er svona sérstakt við íslensku kúna? er spurning sem margir hafa velt fyrir sér eftir að umræðan um innflutning á erlendu kúakyni til kynbóta þess íslenska fór aftur á fullt skrið í síðustu viku. Eins og með íslenska hestinn og sauðféð hefur þetta kyn haldist nánast óblandað frá landnámi en kýrin kom með landnámsmönnum frá Noregi fyrir rúmum 1.100 árum.
Landskeppni Smalahundafélags Íslands
Við minnum á landskeppni Smalahundafélags Íslands sem haldin verður á Hvítárbakka í Borgarfirði um helgina, eða dagana 27. og 28. október. Enskur dómari, Glyn Jones að nafni, mun dæma keppnina. .
Æ fleiri danskar kýr ná gríðarmiklum æviafurðum
Sex danskar svartskjöldóttar kýr hafa náð yfir 150.000 kg æviafurðum og sú sem mjólkað hefur mest nálgast nú 160.000 kg að því er fram kom á ársfundi Dansk Holstein fyrir skömmu. Fari allt eins og til er ætlast mun hún bera í vor og mun því væntanlega bæta enn meira við sig.
Samband íslenskra sveitarfélaga vill leggja niður Bjargráðasjóð
Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var sl. föstudag var lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra um Bjargráðasjóð. Að lokinni umræðu um minnisblaðið var samþykkt ályktun um að réttast væri að leysa sveitarfélögin undan skyldum sínum við sjóðinn og skipta eigum hans milli eigendanna.
Náttúruöflin gera vart við sig á Suðurlandi
Mikil úrkoma hefur verið á Suðurlandi að undanförnu og telja íbúar í uppsveitum Árnessýslu einsýnt að ár þar flæði yfir bakka sína en allir skurðir eru þegar orðnir fullir og vatn er að safnast upp við ármótin þar sem Stóra-Laxá, Litla-Laxá og Tungufljót renna í Hvítá að því er fram kemur á mbl.is. Í desember á síðasta ári varð mikið flóð á þessum slóðum, einnig vegna mikillar úrkomu.
Hæstu landbúnaðarstyrkirnir á Íslandi að mati OECD
Heldur dró úr landbúnaðarstyrkjum í aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, á síðasta ári en þeir námu samt samtals yfir 270 milljörðum dala á því ári, jafnvirði 16.500 milljarða króna. OECD segir, að hæsta hlutfall styrkja sé á Íslandi, þar sem yfir 60% af tekjum greinarinnar komi úr opinberum sjóðum. Hlutfallið er einnig yfir 60% í Noregi, Kóreu og Sviss.
Vill fá erlenda kúakynið til landsins
„Ég reikna með að við munum láta reyna á innflutning í vetur þó að við séum ekki búin að taka formlega ákvörðun um það,“ sagði Jón Gíslason, bóndi á Lundi í Lundarreykjadal og formaður Nautgriparæktarfélags Íslands, þegar leitað var eftir viðbrögðum hans við skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands sem sýnir að verulegur fjárhagslegur ávinningur er að því að flytja inn fósturvísa til að kynbæta íslenskt kúakyn að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Hönnun fjósa hefur engum endapunkti náð
Tveir ráðunautar BSSL, þau Jóhannes og Margrét, sóttu námskeiðið Legubásafjós, ný og notuð sem Snorri Sigurðsson, forstöðumaður búrekstrarsviðs á Hvanneyri hélt í gær. Námskeiðið var ágætlega sótt af bændum af Suður-, Vestur-, og Norðurlandi.
Engin kúvending orðið
„Það hefur engin kúvending orðið,“ sagði Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra þegar hann var spurður hvort afstaða stjórnvalda hefði breyst til innflutnings mjólkurkúa af erlendu kyni.
Ábending til ábúenda á lögbýlum
Eigendum og ábúendum lögbýla er bent á að það er þeirra hagur að tryggja að skráning sé rétt í lögbýlaskrá. Ef margir eigendur eru að lögbýli þarf að gera skriflegan samning (byggingabréf) við væntanlega ábúendur sem jafnframt þurfa að hafa lögheimili á jörðinni. Þinglýsa þarf byggingabréfi og senda afrit til lögbýlaskrár. Ef eigandi er sjálfur ábúandi þarf samt sem áður að senda tilkynningu um það til lögbýlaskrár.