Mikill þróttur í sveitunum

Fjölmennur hópur fólks sem búsett er í sveitum Suðurlands og við Húnaflóa hefur undanfarna mánuði verið þátttakendur í verkefninu „Vaxtarsprotum“. Þátttakendur vinna allir að ákveðnum viðfangsefnum sem lúta að atvinnusköpun í sveitum. Um er að ræða fjölbreytt viðfangsefni á sviði iðnaðar, ferðaþjónustu og annarrar þjónustu.

Vaxtarsprotar er heildstætt stuðningsverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í sveitum. Verkefnið er á vegum Impru – Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Verkefninu var ýtt úr vör á tveimur svæðum á þessu ári þ.e. á Suðurlandi og við Húnaflóa en stefnt er að framhaldi á öðrum svæðum á árinu 2008 og 2009. Þátttakendum í verkefninu hefur staðið til boða margvíslegur stuðningur. Boðið hefur verið upp á námskeið, einstaklingsbundna handleiðslu og ráðgjöf, auk þess sem ýmsir styrkjamöguleikar hafa verið kynntir.
 
Framkvæmd verkefnisins var unnin í samvinnu við búnaðarsambönd og atvinnuþróunarfélög á þeim svæðum sem um ræðir. Samstarfsaðilarnir eru eftirfarandi: Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Búnaðarsamband Suðurlands, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Atvinnuráðgjöf Samtaka sveitarfélaga á Norðurandi vestra og Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda.


Áhugi fyrir verkefninu var strax í upphafi mjög mikill og aðsókn mjög góð á námskeið og aðra viðburði á vegum verkefnisins. Yfir 60 einstaklingar hafa nú lokið námskeiðunum og mun fleiri hafa nýtt sér hluta þeirra, auk handleiðslu starfsmanna verkefnisins. Mörgum þeirra atvinnuskapandi verkefna sem þátttakendur hafa unnið að á tímabilinu hefur nú þegar verið ýtt úr vör en önnur eru enn á undirbúningsstigi. Ennfremur hafa margir forsvarsmenn starfandi fyrirtækja nýtt sér Vaxtarsprotaverkefnið til frekari framþróunar á sinni starfsemi.


Í byrjun nóvember verða haldnar veglegar uppskeruhátíðir á vegum Vaxtarsprotaverkefnisins. Markmið hátíðanna er að skapa formlega umgjörð um lok verkefnisferlisins, að hefja vinnu þátttakenda til vegs og virðingar og vekja athygli á verkefnum þeirra. Hátíðirnar verða haldnar að Staðarflöt í Hrútafirði þann 1. nóvember og í Félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli þann 2. nóvember.


back to top