Stór dagur fyrir Rangæinga

Sigurður Karlsson og Árni Jóhannsson, upphafsmenn hestamannafélagsins Geysis, tóku fyrstu skóflustunguna að reiðhöll á Gaddstaðaflötum. Ef allt gengur eftir verður ein stærsta reiðhöll landsins vígð þar næsta sumar.

„Þetta var stór dagur fyrir okkur hestamenn og raunar alla í sveitarfélaginu,“ segir Ómar Diðriksson, formaður Geysis, en um er að ræða um 160 milljón króna framkvæmd. Höllin rís beint á móti stóðhestahúsinu og verður 24×79 metrar að stærð.

„Það verður sérstaklega ánægjulegt að geta tekið reiðhöllina í notkun næsta sumar með tveimur stórviðburðum. Fyrst landsmóti hestamanna og síðan landbúnaðarsýningunni á Suðurlandi,“ segir Ómar ennfremur.


Á meðfylgjandi mynd af fyrstu skóflustungunni má sjá frá vinstri: Kristinn Guðnason, stjórnarformaður Rangárhallarinnar ehf, Þröstur Sigurðsson, stjórnarmaður í Rangárhöllinni, Anna Margrét Þrastardóttir, Ómar Diðriksson, formaður Geysis, Svavar Ólafsson, varaformaður Geysis, Sveinn Viðarsson, deildarformaður Helludeildar Geysis og loks stofnfélagarnir og sveitahöfðingjarnir Sigurður Karlsson og Árni Jóhannsson.


back to top