Ræktunarjörð, auðlindin mesta

Eitt helsta átak Íslendinga til að varðveita og auka verðmæti íslenskrar náttúru er starf  Sandgræðslunnar og arftaka hennar, Landgræðslunnar, í hundrað ár að stöðva landeyðingu og græða land. Með þessu átaki hefur ein mikilvægasta auðlind jarðar, gróðurmold, aukist verulega hér á landi. Önnur starfsemi, sem einnig eykur þjóðarauðinn, er skógræktin sem hefur fengið byr í seglin á seinustu árum. Hvor tveggja þessi starfsemi hefur færst að töluverðu leyti úr því horfi að vera opinber starfsemi í að vera verkefni bænda, þ.e. eiginlegur landbúnaður, „bændur græða landið“ og bændaskógar.Verðmæti þessara auðlinda er ekki auðvelt að meta. Þær eru varasjóður sem er tiltækur í framtíðinni þegar þeirra verður þörf.

Land sem brjóta má til ræktunar, ræktunarjörð, er verðmætasta gróðurmoldin. Eitt sinn var talið að 15% landsins mætti taka til ræktunar, en nú þykir 6% líklegra mat á góðu ræktunarlandi. Af landi undir 400 m (43% landsins), þar sem byggðin er, eru þetta tæp 15%. Um 1,2% landsins hafa þegar verið ræktuð og sakvæmt þessu mætti fimmfalda ræktað land á Íslandi. Að auki eru stór landsvæði nýtt til beitar.

Miðað við þróunina undanfarna áratugi virðast ekki miklar líkur á aukinni ræktun lands á Íslandi og lítið hefur verið hirt um að varðveita þá auðlind sem óræktað en ræktanlegt land er. En það eru blikur á lofti, annars vegar aukin gróðurhúsaáhrif, hins vegar ásókn í að taka besta landið undir mannvirki.
Hækkandi hiti á jörðinni mun valda því að ræktunarbelti flytjast til og á Íslandi munu skilyrði til ræktunar batna. Sums staðar verður uppskera minni og ótryggari vegna hita og þurrka. Jafnframt eykst eftirspurn eftir matvælum vegna fólksfjölgunar og vegna þess að vonir standa til að milljarðar jarðarbúa geti átt kost á auknum lífsgæðum. Til að bregðast við gróðurhúsaáhrifum og þverrandi birgðum jarðefnaeldsneytis eru ýmsar tegundir jarðargróða í auknum mæli notaðar sem orkugjafi. Nýtt er sú sólarorka sem grænukornin í plöntunum binda nú í stað þess að eyða þeim forða sem bundinn var fyrir hundruðum milljóna ára og hfur varðveist djúpt í jörðu. Þótt lífmassi muni ekki koma í stað olíu nema að hluta eykst við þetta eftirspurn eftir afurðum af ræktuðu landi. Fréttir hafa borist af hækkandi verðlagi á matvælum. Þótt einnig valdi uppskerubrestur vegna erfiðs árferðis er líklegt að verð haldi áfram að hækka.

Á sama tíma er jafnt og þétt gengið á ræktanlegt land með framkvæmdum. Gufunes, Korpúlfsstaðir og Blikastaðir fara undir borgarbyggð. Vegir skera sundur ræktarlönd og annað fer undir golfvelli og flugvelli. Sumarbústaðir eða frístundabyggð er einkum á landi sem ekki er vel fallið til ræktunar, en vaxandi ásókn er í ræktanlegt land, t.d. undir sk. búgarða. Spurning er hvort uppkaup auðmanna á jörðum muni torvelda hagnýtingu þeirra seinna. Með stuðningi í ákvæðum jarðalaga geta sveitarstjórnir staðið gegn því að sumarbústaðabyggð gangi á verðmætasta landið, en allt mun það illa skilgreint, enda lögin talin þau frjálslegustu (ónýtustu?) í Evrópu. Athygli hefur hins vegar hlotið sú stefna sem kemur fram í aðalskipulagi Hrunam nnahrepps.

Þegar auðlindir þjóðarinnar verða lýstar þjóðareign þarf gróðurmoldin, ræktunarjörðin, að vera þar efst á blaði, sú auðlind sem framar öðrum er undirstaða mannlífs á jörðu. Yfirvöldum verði skylt að sjá til þess að landeigendur geti ekki að eigin geðþótta spillt verðmætu landi svo að það nýtist ekki komandi kynslóðum til ræktunar. Það þarf líka að beina skógrækt á land sem ekki er hentugt til ræktunar. Vandinn er einkum sá að víða liggur vel við að leggja gott ræktunarland undir byggð og samgöngumannvirki. Þegar afstaða er tekin til slíkra áætlana er gott að hafa í huga að líklega munu aðeins um 15% lands undir 400 m hæð falla í verðmætasta flokkinn. Því ætti víðast að vera völ á nógu öðru landi til framkvæmda þótt einnig skuli fara varlega í að spilla því. Hitt er svo annað mál að sums staðar getur ræktanlegt land legið þannig eða það haft sérstakt gildi svo að ekki þyki rétt að taka það til ræktunar. Má til dæmis nefna land við árósa og sumt votlendi.

Í upphafi vék ég að því að landgræðsla og skórækt hefur á undanförnum árum verðið að nálgast það æ meir að verða eiginlegur landbúnaður. Til landbúnaðar telst einnig ferðaþjónusta og veiði í ám og vötnum, og ýmsa þætti náttúruverndar ásamt skipulagi lands er eðlilegt að telja til landbúnaðar. Í samræmi við þennan skilning á því hvað er landbúnaður eru öll þessi svið viðfangsefni kennslu og rannsókna í Landbúnaðarháskóla Íslands og í Hólaskóla. Það er því tímaskekkja að nú skuli stefnt að því að flytja landgræðslu og skógrækt frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Ekki er ástæða til að draga í efa að þessum málaflokkum verði vel sinnt eftir vistaskiptin. Hins vegar getur verið hætta á að þeir slitni við það úr sínu eðlilega samhengi. Við skulum vona að með góðum vilja og opnum huga verði komist hjá því. Hins vegar sýna þessi áform að þeir stjórnmálamenn, sem ráða málum, skynja ekki hvert stefnir.

Hólmgeir Björnsson er fyrrverandi starfsmaður Landbúnaðarháskóla Íslands.


back to top