Páfinn fær afhenta nýja New Holland dráttarvél

Þann 3.nóvember s.l. afhenti framkvæmdastjóri Fiat Group, Sergio Marchionne, Benedikt XVI páfa lykla að einstakri dráttarvél sem New Holland gefur páfanum, en fyrirtækið er í eigu Fiat Group sem er jafnframt markaðsleiðandi framleiðandi í landbúnaðargeiranum.

Þessi einstaka dráttarvél er hvít á litinn af gerðinni T7050 og er skjaldamerki páfagarðs á vélarhlífinni. Vélin verður m.a. notuð til að draga og koma fyrir gríðarstórum palli á Sánkti Péturstorginu í Róm á hverjum miðvikudegi þegar páfinn heldur þar vikulega messu sína fyrir almenning.

“ Það er okkur mikill heiður“ segir Sergio Marchionne , “ að fá þetta tækifæri til að færa páfanum að gjöf þessa dráttarvél sem tákn um aðdáun og virðingu. Fiat Group er þekkt fyrir áreiðanlega framleiðslu og tæknilega yfirburði í framþróun véla og endurspeglar þessi afhending það fyllilega“

Þess má í lokin geta að stór hópur íslenskra bænda fer um miðjan nóvembermánuð á Agritechnica landbúnaðarsýninguna í Hannover, og gefst þeim tækifæri að skoða nýju dráttarvél Benedikts XVI páfa þar.


Á meðfylgjandi mynd eru f.v. Carlo Lambro frá New Holland í Evrópu, Sergio Marchionne frá Fiat Group og Benedikt XVI páfi ásamt aðstoðarmanni.



 


back to top