Guðni Ágústsson heiðraður

Félag hrossabænda heiðraði Guðna Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, fyrir vel unnin störf fyrir hestamenn í landinu þann tíma sem hann var landbúnaðarráðherra. Á fundi sínum í dag færði stjórn félagsins Guðna málverk að gjöf og er þar um að ræða mynd af honum með tvo til reiðar. Myndin af Guðna er góð en hann sagði hestana minna sig á hest sem hann steig á bak á í Mongólíu um árið.


,,Þessi góða gjöf kom mér ekki mikið á óvart. Ég held að hestamönnum þyki vænt um mig rétt eins og mér þykir vænt um þá. Ég tel að ég hafi skilið hestamenn í landinu í góðri stöðu þegar ég lét af ráðherradómi. Þegar ég tók við landbúnaðarráðuneytinu var mikil kreppa í greininni. Sumarexembið var í algleymingi, deilur um skattamál og erfiðleikar í landinu. Í samvinnu við hestamenn og ríkisstjórnina tókst mér að verða  að liði og fyrir það er ég þakklátur. Nú er hestamennskan á þeirri fljúgandi ferð sem skiptir hverja atvinnugrein og íþróttagrein svo miklu og það veitir mér mikla ánægju,“ sagði Guðni Ágústsson.


back to top