Námskeið á Stóra-Ármóti

Á Stóra-Ármóti eru ýmis námskeið í gangi og síðastliðinn fimmtudag var haldið námskeið í hagkvæmni nautakjötsframleiðslu.  Kennari var Þóroddur Sveinsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Jóna Þórunn Ragnarsdóttir og Hrafnhildur Baldursdóttir hjá Ráðgjarfarmiðstöð landbúnaðarins sóttu námskeiðið sem var mjög vel sótt og í alla staði fróðlegt og skemmtilegt.Eftir páska verður svo Vinnuverndar- og réttindanámskeið fyrir bændur, það  Continue Reading »

Fréttir af tilraunastarfinu

Niðurfelling með rýgresisfræi
Undanfarin ár hefur megnið af skítnum verið felldur niður. Vísindamenn eru ekki á einu máli um ágæti þeirrar aðferðar umfram hefðbundinnar ábreiðslu. Okkur hefur líkað niðurfellingin vel og teljun ekki síst jákvæð áhrif í þurru árferði. Í vor var gerð tilraun með að blanda rýgresisfræi og vallarfoxgrasfræi í mykjuna í þeim tilgangi að lengja líftíma eldri túna og draga þannig úr endurræktunarþörf. Spennandi verður að fylgjast með því hvaða árangur þetta ber.

Fyrri slætti að segja má lokið

Sláttur hófst á Stóra Ármóti 14. júní og má segja að fyrri slætti hafi lokið 19. júní. Hey voru með ágætum þó var uppskera mjög breytileg og hafði ásókn álfta og gæsa þar mest áhrif. 48 ha voru slegnir og af þeim fengust 662 rúllur, sem skiptast í um 475 rúllur með um 35% þ.e. ætlaðar í heilfóðrun mjólkurkúa og 190 rúllur með ca. 65% þ.e. ætlaðar í geldkýr og geldneyti.

Ársskýrsla 2011 komin á vefinn

Ársskýrsla Stóra-Ármóts er komin á vefinn hjá okkur. Hana er að finna undir „Um Stóra Ármót“ í valröndinni hér vinstra megin. Hlekkur á Ársskýrsluna birtist þá í „Áhugavert“ hægra megin á síðunni.

Líf og fjör á Stóra Ármóti

Það er líf og fjör á Stóra Ármóti þessa dagana og fyrirlestrarsalurinn á staðnum vel nýttur. Í dag eru 26 manns á gæðastýringarnámskeiði í sauðfjárrækt og á föstudaginn verður opinn dagur þar sem starfsemi tilraunabúsins, Búnaðarsambandsins, Landbúnaðarháskólans og ýmissa þjónustufyrirtækja landbúnaðarins verður kynnt. Auk þess verða sýndir búfjárdómar, klaufskurður, rúningur o.fl.

Viðunandi kornuppskera í haust

Kornslætti lauk á Stóra Ármóti í byrjun október en alls voru þresktir 16,5 ha. Uppskera var viðunandi eða 3,8 tonn/ha. miðað við 85% þurrefni. Heildaruppskera nam því 62,7 tonnum af 85% þurru byggi.
Kornið var allt sýruverkað og reyndist kostnaður á hvert kg korns vera 35 kr. Stærstu einstöku kostnaðarliðirnir eru sýra til íblöndunar sem kostar rúmar 9 kr/kg korns, áburður og skeljasandur 8,2 kr/kg korns og sáðkorn 7,7 kr/kg korns. Þær 10 kr/kg sem eftir standa fara síðan að mestu í jarðvinnslu og þreskingu.

Fallþungi 0,3 kg minni en í fyrra – fitan mun minni

Í gær var síðustu lömbunum á Stóra Ármóti lógað þetta haustið. Að þessu sinni voru send 20 lömb í SS á Selfossi og reyndist meðalfallþungi þeirra vera 14,2 kg, meðaleinkunn fyrir gerð 8,30 og fyrir fitu 6,20. Í haust er því alls búið að farga 88 lömbum og er meðalfallþungi þeirra 15,7 kg sem er 0,3 kg minni fallþungi en í fyrra.

Markmið að þróa ódýra aðferð við mjólkurgjöf sem uppfyllir markmið um vöxt og þroska

Á Stóra Ármóti hefur ætíð verið lögð áhersla á hagnýtar rannsóknir og jafnan valin viðfangsefni sem tengjast vandamálum eða verkefnum nautgriparæktarinnar hverju sinni. Síðasta áratuginn má m.a. nefna verkefni tengd efnainnihaldi mjólkur, efnaskiptasjúkdómum og fóðrun um burð, fóðrun með miklu byggi og uppeldisrannsóknir.
Jarðræktarrannsóknir hafa einnig jafnan skipað veglegan sess í starfi Stóra Ármóts. Ríkharð Brynjólfsson hefur unnið að rannsóknum á nýtingu búfjáráburðar undanfarin ár og Guðni Þorvaldsson hefur verið með umfangsmiklar samanburðarrannsóknir á lífsþrótti hinna ýmsu grastegunda og yrkja. Það markverðasta úr rannsóknunum 2011 er að öll yrki vallarfoxgrass, sem voru skoðuð, þrífast vel á Stóra Ármóti á meðan fjölært rýgresi á mjög í vök að verjast.

Gott gengi í fjósinu

Vel hefur gengið í fjósinu undanfarið ár. Afurðir eftir árskú liggja í um 6.800 kg og efnahlutfall hefur verið gott bæði hvað varðar fitu og prótein, sjá töflu. Ársnytin er um 1.500 kg meiri á árskú á Stóra Ármóti en á meðalbúi, sem skilar auknum tekjum upp á tæpar 5 milljónir á ári m.v. 42 árskýr. Afurðastöðvarverð miðast við efnainnihald og eru tekjur Stóra Ármóts vegna þess um 850 þús. krónur umfram bú með sömu framleiðslu en með efnainnihald skv. meðaltali samlags. Flokkun mjólkur hefur einnig verið mjög góð fyrstu 8 mánuði ársins.

Mun minni uppskera en í fyrra

Sláttur hófst nokkru seinna í ár en undanfarin ár eða 26. júní. Mun minna var á og skýrist það að hluta af árferði og nýræktum sem ekki eru komnar í full afköst, en ekki síður af auknum ágangi álfta og gæsa í túnin, sjá töflu. Þegar þetta er skrifað er eftir að slá 13,5 ha nýrækt og má áætla að 70 rúllur fáist af henni. Fyrstu niðurstöður heyefnagreininga gefa til kynna að um einsleitan og góðan heyfeng sé að ræða og betri en reiknað var með. Sáð var korni í um 17 ha. Kornið er greinilega seinna í ár en við höfum mátt venjast og því nokkur óvissa um uppskeru þegar þetta er skrifað.

Niðurstöður áburðartilrauna 2010

Niðurstöður áburðartilrauna og athugunar með niðurfellingur mykju 2010 eru nú komnar á vefinn undir „Tilraunir > Niðurstöður tilrauna“. Um var að ræða tilraun með mismundandi dreifingartíma mykju og mismunandi áburðarskammta á tún.

Fallþungi ívið meiri en í fyrra

Í síðustu viku, nánar tiltekið þann 7. sept., fóru 68 lömb frá Stóra Ármóti í sláturhús. Flokkun var með ágætum og fallþungi sömuleiðis miðað við að þetta er frekar snemmt og lömbin höfðu ekki verið bötuð á grænfóðri. Meðalfallþungi reyndist vera 16,2 kg samanborið við 15,99 kg á sama tíma í fyrra. Einkunn fyrir gerð var þrátt fyrir ívið meiri fallþunga heldur lakari en í fyrra. Þannig var gerðareinkunn nú 8,88 en 9,03 í fyrra. Hins vegar var fitan mun minni en í fyrra og reyndist og einkunn fyrir fitu vera 5,65 samanborið 6,08 í fyrra.

Stóra Ármót afurðahæst í félaginu á árinu 2010

Aðalfundur Nautgriparæktarfélags Hraungerðishr. og Ölfuss var haldinn á Stóra Ármóti í dag. Fundurinn var með hefðbundnu sniði. Bjarni Stefánsson, formaður, fór yfir störf félagsins á liðnu ári en að því loknu fór Guðmundur Jóhannesson, nautgriparæktarráðunautur Búnaðarsambandsins, yfir niðurstöður skýrsluhalds liðins árs og ýmsa þætti í nautgriparæktarstarfinu.
Á fundinum voru afhent verðlaun fyrir afurðahæsta búið og kúna í félaginu. Afurðahæsta búið var Tilraunabúið á Stóra Ármóti með 6.972 kg mjólkur á árskú og 532 kg verðefna. Þetta er áttunda árið í röð sem búið á Stóra Ármóti státar af mestum afurðum í félaginu.

Afurðir eftir árskú komnar yfir 7 þús. kg.

Búið er að gera upp afurðaaskýrslur nautgriparæktarinnar fyrir janúar og er Stóra Ármóts-búið nú komið yfir 7 þús. kg mjólkur eftir árskú, nánar tiltekið í 7.068 kg/árskú. Framleiðslan hefur gengið mjög vel undanfarin ár og afurðir hafa verið að aukast jafnt og þétt. Á sama tíma hefur tekist að halda efnainnihaldi mjólkurinnar háu enda keyrt eftir nákvæmu fóðrunarskipulagi.

Miklar og góðar afurðir á Stóra Ármóti á síðasta ári

Ársuppgjör nautgriparæktarinnar hefur nú verið birt og afurðir á síðasta ári á tilraunabúinu á Stóra Ármóti enduðu í 6.972 kg mjólkur eftir árskú sem eru mestu afurðir þar frá upphafi. Segja verður að mjólkurframleiðsla þar hafi gengið ákaflega vel undanfarin ár og afurðir hafa aukist jafnt og þétt. Að verulegum hluta má þakka það hve vel hefur tekist til með það fóðrunarkerfi sem notast er við. Þá hefur betra uppeldi kvígnanna skilað betur undirbúnum gripum fyrir sitt hlutverk sem mjólkurkýr. Ekki má gleyma því að frjósemin hefur verið með ágætum og hefur tekist að halda bili milli burða innan skikkanlegra marka. Bil milli burða reiknast nú 390 dagar á búinu og fanghlutfallið 50% hjá kúnum en 71-72% hjá 1. kálfs kvígum og kvígum.

Rannsóknaverkefni um áhrif bóluefnis á júgurheilbrigði

Nýtt rannsóknarverkefni hófst í september síðastliðnum á Stóra-Ármóti. Verkefnið er um áhrif Startvac® bóluefnis á júgurheilbrigði. Í marga áratugi hefur verið unnið án mikils árangurs að rannsóknum og þróun bóluefna gegn júgurbólgu. Nú er komið bóluefni Startvac® sem hefur fengið viðurkenningu Evrópusambandsins.

Ágæt flokkun sláturlamba í haust

Í síðustu viku fór 61 lamb frá Stóra Ármóti í sláturhús. Flokkun var með ágætum og fallþungi sömuleiðis miðað við að þetta er frekar snemmt og lömbin höfðu ekki verið bötuð á grænfóðri. Meðalfallþungi reyndist vera 15,99 kg, einkunn fyrir gerð var 9,03 og einkunn fyrir fitu 6,08.
Flokkun var eftirfarandi:

Jarðræktartilraunir á Stóra-Ármóti

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Búnaðarsamband Suðurlands eru í samstarfi með áburðartilraunir sem hér segir:

Dreifingartími á mykju:
Mánuðina október til maí er dreift mykju, venjulega fyrstu daga hvers mánaðar. Þrír reitir eru með hvern dreifingartíma. Til að meta áhrifin eru einnig reitir sem fá mismunandi tilbúinn áburð (mismunandi magn af N, P og K) á venjulegum tíma. Það er einkum N sem skiptir máli í þessu sambandi, og því eru viðmiðunarskammtar margir, 0, 25, 60, 100, 125 og 150 kg N/ha. Fyrir P og K eru annarsvegar reitir án þessara efna og hins vegar með 20 kg P/ha og 80 kg K/ha.

Stóra Ármót afurðahæsta búið í félaginu árið 2009

Aðalfundur Nautgriparæktarfélags Hraungerðishr. og Ölfuss var haldinn á Stóra Ármóti í gær. Fundurinn var með hefðbundnu sniði. Bjarni Stefánsson, formaður, fór yfir störf félagsins á liðnu ári en að því loknu fór Guðmundur Jóhannesson, nautgriparæktarráðunautur Búnaðarsambandsins, yfir niðurstöður skýrsluhalds liðins árs og reynd naut í notkun. Þá fór hann líka yfir hverning bændur getur nýtt sér niðurstöður úr tanksýnum. Hann fór svo að endingu yfir kúadóma en þá voru skoðaðar nokkrar kýr inni í fjósi.

Vel á þriðja hundrað manns komu á opinn dag á Stóra Ármóti

Síðasta föstudag, 19. mars, var opinn dagur á Tilraunabúinu á Stóra Ármóti þar sem gestum og gangandi var boðið að koma og skoða tilraunafjósið og kynna sér starfsemina. Dagurinn heppnaðist mjög vel og mættu vel á þriðja hundrað manns á svæðið.
Auk kynningar á starfsemi Tilraunabúsins kynnti Búnaðarsambandið m.a. túnkortagerð,  Bændasamtök Íslands kynntu gagngrunnana huppa.is og jord.is auk fóðuráætlanagerðar með NorFor.  Landbúnaðarháskóli Íslands var með kynningu á tilraunastarfi. Þá var farið yfir kúadóma og sýndur klaufskurður í klaufskurðarbás Kynbótastöðvarinnar.

back to top