Markmið að þróa ódýra aðferð við mjólkurgjöf sem uppfyllir markmið um vöxt og þroska

Á Stóra Ármóti hefur ætíð verið lögð áhersla á hagnýtar rannsóknir og jafnan valin viðfangsefni sem tengjast vandamálum eða verkefnum nautgriparæktarinnar hverju sinni. Síðasta áratuginn má m.a. nefna verkefni tengd efnainnihaldi mjólkur, efnaskiptasjúkdómum og fóðrun um burð, fóðrun með miklu byggi og uppeldisrannsóknir.
Jarðræktarrannsóknir hafa einnig jafnan skipað veglegan sess í starfi Stóra Ármóts. Ríkharð Brynjólfsson hefur unnið að rannsóknum á nýtingu búfjáráburðar undanfarin ár og Guðni Þorvaldsson hefur verið með umfangsmiklar samanburðarrannsóknir á lífsþrótti hinna ýmsu grastegunda og yrkja. Það markverðasta úr rannsóknunum 2011 er að öll yrki vallarfoxgrass, sem voru skoðuð, þrífast vel á Stóra Ármóti á meðan fjölært rýgresi á mjög í vök að verjast.
Í búfjárræktinni eru um þessar mundir í gangi verkefni sem tengjast júgurheilbrigði, dauðfæddum kálfum og uppeldi kvígukálfa, allt mjög hagnýt og mikilvæg viðfangsefni. 
Júgurbólga er mjög kostnaðarsöm og því miður hefur okkur á Íslandi ekki gengið sem skyldi að ná árangri í baráttunni gegn henni.  Nú er komið bóluefni Startvac® sem hefur fengið viðurkenningu Evrópusambandsins. Síðastliðið ár hefur verið unnið að rannsóknum á áhrifum þessa bóluefnis á frumutölu, tíðni júgurbólgu og tíðni sýktra spena á sjö kúabúum á Suður- og Vesturlandi. Loka sýnataka í þessu verkefni er í september og er vonast til að niðurstöður geti birst fyrir áramót. 

Í vetur verður gerð könnun á þroska og holdafari fyrsta kálfs kvígna með tilliti til dauðfæddra kálfa, en í fyrra verkefni um þetta efni komu fram vísbendingar um að burðarerfiðleikar eiga drjúgan þátt í orsökum þessa vandamáls. Leitað verður eftir samstarfi við bændur á Suðurlandi við gagnaöflun. 
Frjáls aðgangur kálfa að sýrðri mjólk er áhugaverður kostur við uppeldi kálfa.  Nýlegar rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að áhrif fóðrunar fyrstu 8 vikurnar eru umtalsverð á afurðir. Ástæðurnar fyrir þessu eru ekki ljósar en talið er líklegt að mikilvægir þættir í þroskaferli júgursins eigi sér stað fyrstu 8 vikurnar og séu háðir næringarástandi gripsins.  Jafnframt hafa rannsóknirnar í Bandaríkjunum sýnt að yngri kvígur mjólki ekki bara betur heldur séu einnig endingarbetri en jafnþroskaðar eldri kvígur.  Markmið rannsóknanna á Stóra Ármóti er að þróa ódýra aðferð við mjólkurgjöfina sem uppfyllir markmið um mikinn vöxt og þroska fyrstu vikur uppeldisins.


back to top